Fara í innihald

Svíþjóð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 16. maí 2024 kl. 23:17 eftir InternetArchiveBot (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. maí 2024 kl. 23:17 eftir InternetArchiveBot (spjall | framlög) (Bætir við 1 bók til að sannreyna (20240516)) #IABot (v2.0.9.5) (GreenC bot)
Konungsríkið Svíþjóð
Konungariket Sverige
Fáni Svíþjóðar Skjaldarmerki Svíþjóðar
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
För Sverige - I tiden (sænska)
Fyrir Svíþjóð - með tímanum
Þjóðsöngur:
Du gamla, du fria
Staðsetning Svíþjóðar
Höfuðborg Stokkhólmur
Opinbert tungumál sænska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 16. Gústaf
Forsætisráðherra Ulf Kristersson
Stofnun seint á 10. öld
Evrópusambandsaðild 1. janúar 1995
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
57. sæti
447.425 km²
8,97
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
87. sæti
10.540.886
25/km²
VLF (KMJ) áætl. 2023
 • Samtals 715,995 millj. dala (40. sæti)
 • Á mann 66.209 dalir (17. sæti)
VÞL (2022) 0.952 (5. sæti)
Gjaldmiðill Sænsk króna (kr) (SEK)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Ekið er hægra megin
Þjóðarlén .se
Landsnúmer +46

Svíþjóð (sænska: Sverige), formlegt heiti Konungsríkið Svíþjóð (Konungariket Sverige), er land í Skandinavíu í Norður-Evrópu og eitt Norðurlandanna. Landamæri liggja að Noregi til vesturs og Finnlandi til norðausturs. Í vestri á Svíþjóð strönd að Skagerrak, Kattegat og Eyrarsundi. Landið tengist Danmörku með Eyrarsundsbrúnni. Austan og sunnan megin liggur ströndin að Eystrasalti.

Svíþjóð er rúmlega 450 þúsund ferkílómetrar að stærð. Það er stærst Norðurlandanna og fimmta stærsta land Evrópu. Svíþjóð er fjölmennast Norðurlanda með 10 milljónir íbúa en er þó frekar strjálbýlt. Langflestir íbúanna búa í þéttbýli í mið- og suðurhluta landsins. Höfuðborg Svíþjóðar er Stokkhólmur. Aðrar stærri borgir landsins eru: Gautaborg, Málmey, Uppsalir, Linköping, Västerås, Örebro, Karlstad, Norrköping, Helsingjaborg, Jönköping, Gävle, Sundsvall og Umeå.

Náttúra landsins einkennist af skóglendi og stórum vötnum, sem sum eru með þeim stærstu í Evrópu. Helstu ár landsins renna frá Skandinavíufjöllum í Eystrasalt. Barrskógar landsins eru nýttir í timbur- og pappírsgerð. Í norðurhluta landsins er mikil námuvinnsla; einkum er þar unninn járnmálmur en þar er einnig að finna ýmsa aðra málma. Aðaliðnaðarsvæðið er um mitt landið en landbúnaður einkennir mjög suðurhlutann. Svíþjóð á mjög langa strandlengju að sjó og flestir íbúar búa ýmist nærri vatni eða hafi. Landið langt og nær frá 55. að 69. breiddargráðu norður. Þar er því breytilegt loftslag eftir landshlutum.

Germanar hafa byggt Svíþjóð frá forsögulegum tíma. Í elstu heimildum er talað um tvær þjóðir í Svíþjóð: Gauta og Svía. Íbúar töluðu norrænt mál og fóru í víkingaferðir, einkum í Austurveg. Seint á 10. öld myndaðist sameinað sænskt konungsríki. Árið 1397 gekk þetta ríki í konungssamband við Danmörku og Noreg í Kalmarsambandinu. Árið 1523 yfirgaf Svíþjóð Kalmarsambandið og kaus sér eigin konung. Í þrjátíu ára stríðinu tóku Svíar þátt með mótmælendum í Norður-Evrópu og lögðu fleiri lönd undir Svíaveldi. Þar til snemma á 18. öld ríkti Svíþjóð yfir nær öllu landi umhverfis Eystrasalt, en við uppgang Rússaveldis á 18. öld missti landið stórveldisstöðu sína smátt og smátt. Stærstur var missir Finnlands til Rússlands árið 1809, en Finnland hafði verið hluti Svíþjóðar frá því seint á 13. öld.

Svíþjóð er þróað ríki sem hefur lengi setið hátt á vísitölu um þróun lífsgæða. Stjórn landsins er þingbundin konungsstjórn með þingræði, þar sem löggjafarvaldið er í höndum sænska þingsins, Riksdag, þar sem sitja 349 þingmenn. Svíþjóð er einingarríki sem skiptist í 21 hérað og 290 sveitarfélög. Landið býr við norrænt velferðarkerfi með opinberu heilbrigðiskerfi og ókeypis háskólamenntun fyrir alla íbúa. Landið situr hátt á listum eftir lífsgæðum, heilsu, menntun, borgararéttindum, samkeppnishæfni, tekjujöfnuði, jafnrétti og velmegun. Svíar gengu í Evrópusambandið 1. janúar 1995. Svíþjóð er líka aðili að Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu, Norðurlandaráði, Schengen-svæðinu, Evrópuráðinu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og OECD.

Heiti

Svíþjóð nefnist Sverige á sænsku, sem er dregið af fornnorræna orðinu Svíaríki, það er „ríki Svía“. Svíar voru einn þjóðflokkur sem bjó um miðbik landsins sem í dag nefnist Svíþjóð á íslensku. Heiti þjóðflokksins kemur fram í rómverskum heimildum hjá Tacitusi sem Suiones og hjá Jordanesi sem Suietidi (hugsanlega „Svíþjóð“). Snorri Sturluson notar bæði Svíþjóð og Svíaríki í Heimskringlu, og bæði heitin koma fyrir á sænskum rúnasteinum frá miðöldum.[1] Svíaríki kemur líka fyrir í engilsaxneska sagnakvæðinu Bjólfskviðu, sem Swēorice.[2] Merking orðsins Svíar er talin vera „sitt“, í samhenginu „sitt eigið fólk“, af frumindóevrósku afturbeygðu endingunni *s(w)e (sbr. latínu suus), sem eru sömu orðsifjar og fyrir ættbálkaheitið Svefar frá Schwaben í Þýskalandi.[3][4][5][6]

Nafn Svíþjóðar á öðrum málum er í flestum tilvikum dregið ýmist af Svíþjóð (sbr. Sweden á ensku og Zweden í hollensku) eða Svíaríki (sbr. Swíoríce í fornensku og Sverige í dönsku). Í sumum finnskum málum er nafn landsins dregið af Roslagen (dregið af orðinu róður) í Upplöndum, og verður Ruotsi eða Rootsi. Heiti Rússlands (sem Snorri kallaði „Svíþjóð hin kalda“ eða „Svíþjóð hin mikla“) er dregið af þessu heiti Svíþjóðar.[7]

Saga

Fornleifar sýna að það landsvæði sem nú er Svíþjóð byggðist þegar á steinöld. Eftir því sem ísaldarjökullinn hopaði fylgdu hópar veiðimanna og safnara sem fluttu sig lengra norður meðfram strönd Eystrasaltsins.

Fornleifafræðingar hafa grafið upp marga stóra verslunarstaði sem styrkja þá kenningu að landsvæðið hafi verið fullbyggt þegar á bronsöld.

Á níundu og tíundu öld stóð víkingamenning á stórum hluta þess svæðis sem nú er Svíþjóð. Einkum héldu sænskir víkingar í austurveg til Eystrasaltslandanna, Rússlands og allt suður til Svartahafs. Sænskumælandi íbúar settust að í suðurhluta Finnlands og einnig í Eistlandi. Á þessum tíma tók einnig sænskt ríki að myndast með þungamiðju í Uppsölum og náði það allt suður að Skáni, sem þá var hluti Danmerkur.

Árið 1389 sameinuðust Danmörk, Noregur og Svíþjóð undir einum konungi. Kalmarsambandið var ekki pólitískt sambandsríki heldur konungssamband. Meirihluta 15. aldar reyndi Svíþjóð að hamla þeirri miðstýringu sem Danir vildu koma á í sambandinu undir dönskum kóngi. Svíþjóð sagði sig úr Kalmarsambandinu 1523 þegar Gústaf Eiríksson Vasa, síðar þekktur sem Gústaf I, endurreisti sænska konungdæmið.

Á 17. öld varð Svíþjóð eitt helsta stórveldi Evrópu eftir mikla sigra í Þrjátíu ára stríðinu. Þegar á leið 18. öld hvarf þessi staða þegar Rússland vann á í baráttunni um völdin við Eystrasalt.

Saga Svíþjóðar síðustu aldirnar heftur einkennst af friði. Síðasta stóra styrjöldin sem Svíþjóð tók þátt í var við Rússland 1809 þegar Finnland var innlimað í Rússneska keisaradæmið. Minniháttar skærur urðu þó við Noreg 1814. Þær enduðu með því að sænski krónprinsinn samþykkti norsku stjórnaskrána 17. maí sama ár og með því gengu Noregur og Svíþjóð í konungssamband. Þegar norska stórþingið samþykkti upplausn þessa sambands 1905 lá við stríði en það tókst að koma í veg fyrir það og þess í stað enduðu deilurnar með samningum.

Svíþjóð lýsti yfir hlutleysi í báðum heimsstyrjöldunum og hélt lengi fast við þá stefnu að standa utan hernaðarbandalaga í því augnmiði að halda sig utan við væntanlegar styrjaldir. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu árið 2022 sótti Svíþjóð hins vegar um aðild að Atlantshafsbandalaginu ásamt Finnlandi. Svíþjóð hlaut aðild að bandalaginu þann 7. mars 2024.

Landfræði

Svíþjóð liggur að Jótlandshafi, Noregi, Finnlandi og Eystrasalti. Lengsta lengd þess frá norðri til suðurs er 1.572 km og frá austri til vesturs 499 km. Um það bil 221.800 eyjar tilheyra Svíþjóð. Þær stærstu eru Gotland og Eyland sem báðar eru í Eystrasaltinu.

Meirihluti Svíþjóðar er flatur og hæðóttur, en Skandinavíufjöllin rísa í yfir 2.000 m hæð við landamærin að Noregi. Hæsti hnjúkurinn er Kebnekaise sem er 2.111 m yfir sjávarmáli. 28 þjóðgarðar eru dreifðir um landið. Þeir stærstu eru í norðvesturhluta landsins.

Suður- og Mið-Svíþjóð (Gautland og Svealand) ná aðeins yfir tvo fimmtu hluta landsins en Norður-Svíþjóð (Norrland) nær yfir þrjá fimmtu hluta landsins. Syðsti oddur landsins er héraðið Skánn. Héruð í Svíþjóð eru 25.

Gróður og dýralíf

Um helmingur landsins er skógi vaxinn (aðallega greni og furu). Í suðurhluta landsins eru einnig eikar– og beykiskógar.

Alls eru 65 tegundir landspendýra í Svíþjóð og er engin þeirra einlend í landinu. Af spendýrategundum má nefna elg, rádýr, rauðhjört, ýmsar tegundir nagdýra svo sem rauðíkorna, mýs, læmingja og bifur, kanínur og héra.

Þrjár tegundir spendýra eru taldar í mikilli útrýmingarhættu í landinu. Tvær þessara tegunda eru leðurblökur og þriðja tegundin í mikilli útrýmingarhættu er úlfurinn. Tæplega 260 tegundir fugla verpa að staðaldri í Svíþjóð. Alls hafa fundist sjö tegundir skriðdýra í Svíþjóð, þar af þrjár tegundir snáka. Þrátt fyrir kalda veðráttu hluta árs eru 13 tegundir froskdýra í Svíþjóð.[8]

Stjórnmál

Svíþjóð hefur verið konungdæmi í hátt í þúsund ár. Konungur hefur stærstan hluta þessa tíma deilt löggjöf með þinginu (á sænsku: Riksdag). Þingið hefur hins vegar haft mismikil völd gegnum tíðina. Frá endurreisn konungdæmisins 1523 var lagasetningu og stjórn ríkisins skipt milli konungs og stéttarþings aðalsmanna. Árið 1680 gerðist sænski konungurinn hins vegar einvaldur.

Eftir tap Svía í Norðurlandaófriðinum mikla hófst það sem nefnt er frelsistíminn frá 1719. Honum fylgdu þrjár stjórnarskrárbreytingar, 1772, 1789 og 1809, sem allar styrktu vald borgara gagnvart konungi. Þingræði var komið á 1917 þegar Gústaf 5. sætti sig við að skipa ríkisstjórn í samræmi við valdahlutföll á þingi, eftir langa baráttu. Almennum kosningarétti var komið á 19181921. Með nýrri stjórnaskrá 1975 var allt vald konungs afnumið. Táknrænu embætti konungs var haldið en án nokkurs valds.

Í upphafi 20. aldar mótaðist það flokkakerfi sem að miklu leyti hefur einkennt sænsk stjórnmál síðan. Sænski jafnaðarmannaflokkurinn hefur verið langstærsti stjórnmálaflokkurinn allar götur frá öðrum áratug 20. aldar og hefur setið í stjórn meira og minna samfleytt í yfir sjötíu ár. Á þingi sitja nú fulltrúar sjö flokka sem skiptast í tvær fylkingar, vinstri og hægri. Til vinstrifylkingarinnar teljast sænski jafnaðarmannaflokkurinn (Socialdemokraterna), sænski vinstriflokkurinn (Vänsterpartiet), sænski umhverfisflokkurinn (Miljöpartiet). Til hægrifylkingarinnar teljast sænski hægriflokkurinn (Moderaterna), sænski þjóðarflokkurinn (Folkpartiet) (frjálslyndur miðjuflokkur), sænski miðflokkurinn (Centerpartiet) og kristilegir demókratar (Kristdemokraterna) og síðan Svíþjóðardemókratar (Sverigedemokraterna) lengst til hægri.

Stjórnsýslueiningar

Skjaldarmerki Heiti Landshluti Flatarmál
(km²)
Angurmannaland Norðurland 19.800
Austur-Gautland Gautland 9.979
Blekinge Gautland 2.941
Bohuslän Gautland 4.473
Dalir Svíaríki 29.086
Dalsland Gautland 3.708
Eyland Gautland 1.342
Gotland Gautland 3.140
Gästrikland Norðurland 4.181
Halland Gautland 4.786
Helsingjaland Norðurland 14.264
Herjadalur Norðurland 11.954
Jamtaland Norðurland 34.009
Lappland Norðurland 109.072
Medelpad Norðurland 7.058
Norðurbotn Norðurland 26.671
Närke Svíaríki 4.126
Skánn Gautland 11.027
Smálönd Gautland 29.330
Suðurmannaland Svíaríki 8.388
Uppland Svíaríki 12.676
Vermaland Svíaríki 18.204
Vesturbotn Norðurland 15.093
Vesturmannaland Svíaríki 8.363
Vestur-Gautland Gautland 16.676

Efnahagslíf

Verg landsframleiðsla eftir héruðum Svíþjóðar 2014.
Hlutfallslegt virði útflutningsvara frá Svíþjóð árið 2019.

Svíþjóð er tólfta ríkasta land heims mælt í vergri landsframleiðslu á mann og íbúar búa við mikil lífsgæði. Svíþjóð er með blandað hagkerfi. Helstu auðlindir landsins eru timbur, vatnsafl og járngrýti. Hagkerfi landsins leggur mikla áherslu á útflutning og alþjóðaviðskipti. Verkfræðigeirinn stendur undir helmingi af útflutningi, en fjarskiptageirinn, bílaiðnaður og lyfjafyrirtæki eru líka mikilvæg. Svíþjóð er níundi stærsti vopnaframleiðandi heims. Landbúnaður stendur undir 2% af landsframleiðslu og atvinnu. Landið er með eina mestu útbreiðslu farsímaþjónustu og Internets í heimi.[9]

Samningar verkalýðsfélaga ná yfir hátt hlutfall launþega í Svíþjóð.[10][11] Þessi mikla útbreiðsla samninga hefur náðst þrátt fyrir skort á löggjöf og endurspeglar styrk verkalýðsfélaga á sænskum vinnumarkaði.[12] Þegar Ghent-kerfinu í Svíþjóð var breytt árið 2007, sem leiddi til hærri greiðslna í atvinnuleysissjóði, dró úr aðild að verkalýðsfélögum.[13][14]

Bílaframleiðandinn Volvo Cars er með höfuðstöðvar í Gautaborg.

Árið 2010 var Gini-stuðull Svíþjóðar sá þriðji lægsti meðal þróaðra ríkja. Hann var þá 0,25, eilítið hærri en í Japan og Danmörku, sem bendir til mikils tekjujöfnuðar. Eignaójöfnuður var hins vegar sá annar hæsti í þróuðu ríki, og yfir meðaltali Evrópu og Norður-Ameríku, sem bendir til lítils eignajöfnuðar.[15][16] Gini-stuðullinn er mjög ólíkur innan ólíkra héraða og sveitarfélaga í Svíþjóð. Daneryd, utan við Stokkhólm, hefur hæsta Gini-stuðul Svíþjóðar, eða 0,55, meðan Hofors við Gävle er með þann lægsta, eða 0,25. Í kringum Stokkhólm og Skán, tvö þéttbýlustu svæði Svíþjóðar, er Gini-stuðull tekna á milli 0,35 og 0,55.[17]

Sænska hagkerfið einkennist af stórum, þekkingarfrekum og útflutningshneigðum iðnaði; stækkandi en tiltölulega litlum viðskiptaþjónustugeira, og hlutfallslega stórum opinberum þjónustugeira. Stórfyrirtæki, sérstaklega í iðnaði og þjónustu, einkenna efnahagslíf Svíþjóðar.[18] Hátækni- og meðalhátækniiðnaður stendur undir 9,9% af landsframleiðslu.[19]

20 stærstu fyrirtæki Svíþjóðar miðað við veltu árið 2007 voru Volvo, Ericsson, Vattenfall, Skanska, Sony Ericsson Mobile Communications AB, Svenska Cellulosa Aktiebolaget, Electrolux, Volvo Personvagnar, TeliaSonera, Sandvik, Scania, ICA, Hennes & Mauritz, IKEA, Nordea, Preem, Atlas Copco, Securitas, Nordstjernan og SKF.[20] Mikill meirihluti sænskra iðnfyrirtækja er í einkaeigu, ólíkt mörgum iðnvæddum vestrænum ríkjum.

Raunhagvöxtur í Svíþjóð 1996–2006.

Talið er að 4,5 milljónir Svía séu á vinnumarkaði og um þriðjungur vinnandi fólks hefur lokið háskólaprófi. Landsframleiðsla á vinnustund var sú níunda hæsta í heimi í Svíþjóð árið 2006, eða 31 dalur, miðað við 22 dali á Spáni og 35 dali í Bandaríkjunum.[21] Landsframleiðsla á vinnustund vex um 2,5% á ári í öllu hagkerfinu og viðskiptajafnaður framleiðnivöxtur er 2%.[21] Samkvæmt OECD hefur afnám regluverks, hnattvæðing og vöxtur tæknigeirans verið helstu drifkraftar aukinnar framleiðni.[21] Svíþjóð stendur fremst allra landa hvað varðar einkarekna lífeyrissjóði og vandamál við fjármögnun lífeyris eru tiltölulega lítil miðað við mörg Vestur-Evrópuríki.[22] Árið 2014 var ákveðið að prófa sex tíma vinnudag í Svíþjóð á óbreyttum launum, með þátttöku starfsfólks sveitarfélagsins Gautaborgar. Með þessu leitast sænska ríkið við að draga úr kostnaði vegna veikindaleyfa og auka afkastagetu.[23]

Svíþjóð er hluti af innri markaði Evrópusambandsins og Schengen-svæðinu.

Þegar skattafleygurinn hefur verið dregið frá heldur dæmigerður sænskur verkamaður eftir 40% af launum sínum. Skattar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu náðu hámarki, 52,3%, árið 1990.[24] Sem liður í að takast á við fasteigna- og bankakreppu það ár réðist ríkisstjórnin í umbætur á skattkerfinu, lækkaði skattahlutfall og víkkaði út skattheimtuna.[25][26] Frá 1990 hefur skattahlutfallið lækkað miðað við landsframleiðslu og skattahlutfall fólks með mestar tekjur hefur lækkað mest.[27] Árið 2010 voru skattar 45,8% af vergri landsframleiðslu, sem var annað hæsta hlutfallið innan OECD, og næstum tvöfalt hærra hlutfall en í Suður-Kóreu.[24] Þriðjungur vinnandi fólks í Svíþjóð er í störfum sem fjármögnuð eru með sköttum, sem er umtalsvert hærra hlutfall en í öðrum löndum. Síðan umbæturnar voru gerðar hefur hagvöxtur verið mikill, sérstaklega í iðnaði.[28]

Nordstan er ein af stærstu verslunarmiðstöðvum Norður-Evrópu.

Samkvæmt World Economic Forum var Svíþjóð með fjórða samkeppnishæfasta hagkerfi heims 2012-2013.[29] Svíþjóð var í efsta sæti Global Green Economy Index (GGEI) árið 2014[30] og í 4. sæti á lista IMD-viðskiptaskólans yfir lönd eftir samkeppnishæfni 2013.[31] Samkvæmt bókinni The Flight of the Creative Class eftir bandaríska hagfræðinginn Richard Florida, er talið að Svíþjóð búi yfir bestu aðstæðum heims fyrir skapandi greinar og muni virka sem segull fyrir einbeitt starfsfólk. Röðun bókarinnar byggist á þáttum eins og hæfileikum, tækni og umburðarlyndi.[32]

Svíþjóð er með sinn eigin gjaldmiðil, sænska krónu (SEK), eftir að Svíar höfnuðu upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu. Seðlabanki Svíþjóðar var stofnaður árið 1668 og er því elsti seðlabanki heims. Bankinn leggur áherslu á verðstöðugleika með 2% verðbólgumarkmið. Samkvæmt könnun OECD frá 2007 hefur meðalverðbólga í Svíþjóð verið með því lægsta sem gerist meðal Evrópuríkja frá miðjum 10. áratug 20. aldar, aðallega vegna afnáms regluverks og snöggra viðbragða við hnattvæðingu.[21]

Helstu viðskiptalönd Svíþjóðar eru Þýskaland, Bandaríkin, Noregur, Bretland, Danmörk og Finnland.

Afnám regluverks á 9. áratugnum hafði neikvæð áhrif á fasteignamarkaðinn, leiddi til eignabólu og hruns snemma á 10. áratugnum. Fasteignaverð lækkaði um 2/3 sem varð til þess að sænska ríkisstjórnin varð að taka yfir tvo sænska banka. Á næstu tveimur áratugum styrktist fasteignamarkaðurinn. Árið 2014 vöruðu hagfræðingar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn við ört hækkandi fasteignaverði og versnandi skuldastöðu heimilanna. Hlutfall skulda af tekjum óx um 170%. AGS mælti með umbótum í byggðaskipulagi og öðrum leiðum til að auka framboð á húsnæði, þar sem eftirspurnin var meiri sem þrýsti upp fasteignaverði. Í ágúst 2014 voru 40% fasteignalána vaxtalán, en önnur lán greiddu það lítið af höfuðstólnum að full greiðsla hefði tekið meira en 100 ár.[33]

Íbúar

Trúarbrögð

Sænska kirkjan er fjölmennasta trúfélagið en hún var þjóðkirkja til ársins 2000. 52.8% Svía eru meðlimir hennar. Þó sækja aðeins um 2% kirkju reglulega. Um 5% eru múslimar og 2% kaþólskir. Í Svíþjóð er fjöldi trúlausra.

Menning

Stór Dalahestur í Avesta.
Sænsk stofa frá lokum 5. áratugarins á Norræna safninu í Stokkhólmi.

Margir Svíar líta svo á að tengsl við náttúruna og áhugi á útivist sé eitt af helstu einkennum sænskrar menningar. Sérstök sænsk menning þróaðist á 19. öld út frá ólíkri menningu landshluta og þjóðflokka, sem sumir hverjir höfðu aðeins tilheyrt Svíþjóð um stutt skeið og höfðu sínar eigin mállýskur og alþýðuhefðir. Sumar af þessum staðbundnu hefðum voru teknar upp sem sænsk þjóðmenning, eins og Dalahestar, skíðaíþróttin og bálkestir á Valborgarmessu. Dalarna hafa lengi verið álitnir kjarnasvæði sænskra alþýðuhefða.

Sænsk menning hefur verið þekkt fyrir áherslu á jafnrétti og jöfnuð (meðal annars í gegnum Jantelögin og arfbótastefnu á 20. öld[34]), sterka hefð fyrir borgararéttindum og frjálslyndi í hjúskaparmálum. Sænska þjóðarheimilið var einkenni á stefnu sósíaldemókrata í velferðarmálum lengst af á 20. öld, undir áhrifum frá kenningum hagfræðingsins Gunnar Myrdal,[35] þar sem allir nytu aðstoðar og umhyggju, óháð efnahag eða uppruna. Samkvæmt hugmyndinni um þjóðarheimilið átti ríkið að tryggja öllum íbúum sambærileg grunnlífsgæði með gjaldfrjálsri menntun og heilsugæslu. Hugmyndinni um þjóðarheimilið var stillt upp sem „þriðju leið“ milli kommúnisma og kapítalisma.[36]

Á 7. áratugnum reyndi Svíþjóð að seilast til áhrifa á alþjóðavettvangi út frá hugmyndinni um „siðferðilega risaveldið“.[37] Sænsk stjórnvöld reyndu að miðla málum í ýmsum deilumálum risaveldanna á tímum kalda stríðsins og kynntu landið sem hlutlausan vettvang fyrir ráðstefnur alþjóðastofnana. Á sama tíma var Svíþjóð leiðandi í kynlífsbyltingunni og sænskar kvikmyndir sem fjölluðu um kynlíf á opinskáan hátt, eins og Forvitin gul, vöktu athygli um allan heim. Gagnrýnendur uppnefndu þessi viðhorf „sænsku syndina“.[38] Frjálslynd viðhorf til samkynhneigðar hafa líka verið talin einkenna sænskt samfélag.

Svíþjóð hefur lengi verið stórveldi í vísnasöng og dægurtónlist. Lög Carl Michael Bellman náðu miklum vinsældum um öll Norðurlönd á 18. og 19. öld, og sænski óperusöngvarinn Jussi Björling sló í gegn á alþjóðavísu á millistríðsárunum. Svíþjóð varð stórveldi í alþjóðlegri dægurtónlist eftir að hljómsveitin ABBA náði heimsfrægð á 8. áratug 20. aldar. Síðan þá hafa Svíar átt marga fræga lagahöfunda, danshöfunda, leikstjóra tónlistarmyndbanda og tónlistarframleiðendur.

Frægir sænskir rithöfundar eru meðal annars Astrid Lindgren, Selma Lagerlöf og leikskáldið August Strindberg. Þekktasti kvikmyndaleikstjóri Svíþjóðar er Ingmar Bergman. Leikkonurnar Greta Garbo og Ingrid Bergman eru þekktustu leikarar Svíþjóðar. Málarinn Anders Zorn náði alþjóðlegri frægð undir lok 19. aldar og Carl Larsson átti þátt í að skapa ímynd sænskrar alþýðumenningar í verkum sínum. Meðal þekktra sænskra vísindamanna eru Carl Linneus, Jöns Jacob Berzelius, Anders Celsius, Eva Ekeblad, Alfred Nobel, Ulf von Euler og Harry Nyquist.

Tilvísanir

  1. Ari Páll Kristinsson (13.10.2020). „Hvernig komst „þjóð" inn í heiti landsins Svíþjóð?“. Vísindavefurinn.
  2. Hellquist, Elof (1922). Svensk etymologisk ordbok [Swedish etymological dictionary] (sænska). Gleerup. bls. 917. Afrit af uppruna á 28. ágúst 2011. Sótt 30. ágúst 2011.
  3. Pokorny, J. (1959). Indogermanisches etymologisches wörterbuch.
  4. Bandle, O., Braunmüller, K.; og fleiri (2002). The Nordic Languages. An international handbook of the history of the North Germanic languages, 2, 2002-2005. bls. 391.
  5. Noreen, A. Nordens äldsta folk- och ortnamn (i Fornvännen 1920 sid 32).
  6. Hellquist, Elof (6. júlí 1922). „915 (Svensk etymologisk ordbok)“. runeberg.org. Afrit af uppruna á 10. ágúst 2007. Sótt 4. mars 2011.
  7. Elgan, Elisabeth; Scobbie, Irene (2015). Historical Dictionary of Sweden. Rowman & Littlefield. bls. 287. ISBN 978-1-4422-5071-0. Afrit af uppruna á 5. október 2023. Sótt 9. september 2022.
  8. Hvað getið þið sagt mér um dýralíf í Svíþjóð Vísindavefur. Skoðað 17. janúar 2016.
  9. „EUROPE :: SWEDEN“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Sótt 16. febrúar 2016.
  10. Anders Kjellberg (2019) Kollektivavtalens täckningsgrad samt organisationsgraden hos arbetsgivarförbund och fackförbund, Department of Sociology, Lund University. Studies in Social Policy, Industrial Relations, Working Life and Mobility. Research Reports 2019:1, Appendix 3 (in English) Tables A-G (in English)
  11. Anders Kjellberg (2019) "Sweden: collective bargaining under the industry norm" Geymt 25 júlí 2019 í Wayback Machine, in Torsten Müller & Kurt Vandaele & Jeremy Waddington (eds.) Collective bargaining in Europe: towards an endgame, European Trade Union Institute (ETUI) Brussels 2019. Vol. III (pp. 583–604)
  12. Anders Kjellberg (2017) "Self-regulation versus State Regulation in Swedish Industrial Relations" In Mia Rönnmar and Jenny Julén Votinius (eds.) Festskrift till Ann Numhauser-Henning. Lund: Juristförlaget i Lund 2017, pp. 357–383
  13. Anders Kjellberg (2011) "The Decline in Swedish Union Density since 2007" Geymt 12 mars 2017 í Wayback Machine Nordic Journal of Working Life Studies (NJWLS) Vol. 1. No 1 (August 2011), pp. 67–93
  14. Anders Kjellberg and Christian Lyhne Ibsen (2016) "Attacks on union organizing: Reversible and irreversible changes to the Ghent-systems in Sweden and Denmark" Geymt 9 mars 2017 í Wayback Machine in Trine Pernille Larsen and Anna Ilsøe (eds.)(2016) Den Danske Model set udefra (The Danish Model Inside Out) – komparative perspektiver på dansk arbejdsmarkedsregulering, Copenhagen: Jurist- og Økonomforbundets Forlag (pp.279–302)
  15. „The Real Wealth of Nations: Pathways to Human Development (2010 Human Development Report – see Human Development Statistical Tables)“. United Nations Development Program. 2011. bls. 152–156. Afrit af uppruna á 16. júlí 2011. Sótt 4. ágúst 2012.
  16. „Global Wealth Databook“ (PDF). Credit Suisse (using Statistics Sweden data). 2010. bls. 14–15, 83–86. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 23. október 2012.
  17. Edvinsson, Sören; Malmberg, Gunnar; Häggström Lundevaller, Erling (2011). Do unequal societies cause death and disease?. Umeå University.
  18. „Doing Business Abroad – Innovation, Science and Technology“. Infoexport.gc.ca. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. október 2006. Sótt 6. maí 2009.
  19. „High- and medium-high-technology manufacturing“. Conferenceboard.ca. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. september 2012. Sótt 22. september 2012.
  20. „20 largest companies in Sweden“. Largestcompanies.com. 6. október 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. júní 2012. Sótt 25. ágúst 2010.
  21. 21,0 21,1 21,2 21,3 „Economic survey of Sweden 2007“. Oecd.org. 1. janúar 1970. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2011. Sótt 25. ágúst 2010.
  22. „Pension Reform in Sweden: Lessons for American Policymakers“. The Heritage Foundation. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. janúar 2010. Sótt 17. september 2014.
  23. Gee, Oliver (8. apríl 2014). „Swedes to give six-hour workday a go“. The Local. Afrit af uppruna á 9. apríl 2014. Sótt 9. apríl 2014.
  24. 24,0 24,1 „Revenue Statistics – Comparative tables“. OECD, Europe. 2011. Afrit af uppruna á 18. september 2012. Sótt 13. ágúst 2012.
  25. Agell, Jonas; Englund, Peter; Södersten, Jan (desember 1996). „Tax reform of the Century – the Swedish Experiment“ (PDF). National Tax Journal. 49 (4): 643–664. doi:10.1086/NTJ41789232. S2CID 232211459. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. nóvember 2012.
  26. „Financial Crisis – Experiences from Sweden, Lars Heikensten (1998)“. Sveriges Riksbank. 15. júlí 1998. Afrit af uppruna á 2. febrúar 2013. Sótt 13. mars 2013.
  27. Bengtsson, Niklas; Holmlund, Bertil & Waldenström, Daniel (júní 2012). Lifetime Versus Annual Tax Progressivity: Sweden, 1968–2009 (Report).
  28. OECD Economic Surveys: Sweden – Volume 2005 Issue 9 by OECD Publishing
  29. „Global Competitiveness Report 2012–2013“. World Economic Forum. 5. september 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. desember 2014. Sótt 9. júní 2013.
  30. „2014 Global Green Economy Index“ (PDF). Dual Citizen LLC. 19. október 2014. Afrit (PDF) af uppruna á 28. október 2014. Sótt 19. október 2014.
  31. „IMD World Competitiveness Yearbook 2013“. Imd.ch. 30. maí 2013. Afrit af uppruna á 9. júní 2013. Sótt 9. júní 2013.
  32. "„Sweden most creative country in Europe & top talent hotspot“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. maí 2007. Sótt 11. febrúar 2007., Invest in Sweden Agency, 25 June 2005. Retrieved from Internet Archive 13 January 2014.
  33. „Sweden facing possible property bubble warns IMF“. Sweden News.Net. 24. ágúst 2014. Afrit af uppruna á 27. ágúst 2014. Sótt 26. ágúst 2014.
  34. Spektorowski, A., & Mizrachi, E. (2004). „Eugenics and the Welfare State in Sweden: The Politics of Social Margins and the Idea of a Productive Society“. Journal of Contemporary History. 39 (3): 333–352.
  35. Jenny Bjorkman (31.8.2009). „Folkhemmets arkitekter: Alva och Gunnar Myrdal“. Populär Historia. Sótt 29.8.2023.
  36. Childs, Marquis W. (1936). Sweden: The Middle Way. London: Faber & Faber.
  37. Dahl, A.-S. (2006). „Sweden: Once a Moral Superpower, Always a Moral Superpower?“. International Journal. 61 (4): 895–908. doi:10.2307/40204222.
  38. Hale, F. (2003). „Time for Sex in Sweden: Enhancing the Myth of the "Swedish Sin" during the 1950s“. Scandinavian Studies. 75 (3): 351–374.

Tenglar