Fara í innihald

Sjónarhæðarsöfnuðurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Akureyri frá 1928 þar sem sjá má útvarpsmöstrin tvö í Barðsgili og húsið Sjónarhæð

Sjónarhæðarsöfnuðurinn er skráð trúfélag á Íslandi. Söfnuðurinn er kenndur við húsið Sjónarhæð eða Hafnarstræti 63 á Akureyri. Það hús reisti enski trúboðinn Frederic Harry Jones árið 1901 en hann stofnaði söfnuðinn. Söfnuðurinn var runninn frá Bræðrasöfnuðinum í Bretlandi og skírðust meðlimir í niðurdýfingarskírn. Árið 1905 tók trúboðinn Arthur Gook við söfnuðinum og stýrði honum lengi. Arthur Gook var fyrstur til að kenna Akureyringum knattspyrnu þegar hann kenndi við Gagnfræðaskólann veturinn 1908-1909. Hann gaf út ýmis rit og árið 1928 stofnaði hann útvarpsstöð sem var fyrsta útvarpsstöðin á Norðurlandi. Hann lét reisa tvö há og mikil möstur á sitt hvorum barmi Barðsgils. Þegar Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930 var honum synjað um leyfi til útsendinga. Arthur Gook tók ljósmyndir, stundaði smáskammtalækningar og tannlækningar. Í Sjónarhæð er samkomusalur í norðurenda og íbúð í suðurenda. Söfnuðurinn rekur sumarbúðir við Ástjörn i Kelduhverfi.

Meðlimir voru 35 árið 2022.

Arthur Gook