Fara í innihald

Hamas

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Íslamska andspyrnuhreyfingin
Harakat al-Muqawamah al-Islamiyyah
حركة المقاومة الإسلامية
Formaður Yaha Sinwar
Varaformaður Saleh al-Arour  
Stofnár 10. desember 1987; fyrir 37 árum (1987-12-10)
Stofnandi Ahmed Jassin
Höfuðstöðvar Gasaborg, Gasaströndinni, Palestínuríki
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Palestínsk þjóðernishyggja
Íslamismi
Íslömsk þjóðernishyggja
Andzíonismi
Andkommúnismi
Einkennislitur Grænn  
Sæti á palestínska löggjafarþinginu
Vefsíða hamasonline.com

Hamas, skammstöfun fyrir Harakat al-Muqawamah al-Islamiyyah (arabíska: Íslamska andspyrnuhreyfingin), eru herská palestínsk múslimasamtök sem starfa aðallega á Heimastjórnarsvæðum Palestínumanna. Samtökin stofnuðu stjórnmálaflokk og eru í meirihluta á þingi Palestínumanna.

Hamas voru stofnuð af Ahmed Jassin síðla árs 1987, þá sem klofningshreyfing úr Bræðralagi múslima, og helga sig stofnun íslamsks ríkis í Palestínu. Ísraelsríki, Bandaríkin, Evrópusambandið og fleiri lönd hafa skilgreint samtökin sem hryðjuverkasamtök. Þrátt fyrir þetta reka samtökin líka ýmsa samfélagsþjónustu svo sem heilsugæslu og skóla.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Rætur Hamas liggja hjá Bræðralagi múslima, stærstu og elstu hreyfingu íslamista í heimi. Árið 1973 stofnaði Ahmed Jassin, meðlimur í Bræðralaginu, góðgerðarsamtökin Mujama, sem meðal annars rak sjúkrahús, barnaheimili og skóla. Hernámsstjórn Ísraela á Gasaströndinni hvatti Mujama árið 1978 til að sækja um skráningu sem góðgerðarfélag og veitti stofnuninni fjárhagslega styrki. Stefna Ísraela á þessum tíma var sú að styðja íslamskar hreyfingar á hernumdu svæðunum til þess að kljúfa palestínsku þjóðernishreyfinguna, sem var þá undir stjórn veraldlegra flokka í Frelsissamtökum Palestínu (PLO).[1]

Á níunda áratugnum fóru Mujama-menn í síauknum mæli að beita ofbeldi gegn hlutum sem þeir álitu ekki samræmast íslamstrú, meðal annars kvikmyndahúsum, veitingahúsum sem buðu upp á áfengi og spilavítum. Þetta leiddi til þess að Ísraelar hættu stuðningi við samtökin og létu árið 1984 handtaka Jassin og tólf samverkamenn hans, auk þess sem vopnahirsla þeirra var gerð upptæk.[1]

Árið 1987 stofnaði Jassin formlega Hamas-samtökin ásamt öðrum íslamistum. Tilgangurinn með stofnun samtakanna var að gera meðlimum Bræðralags múslima kleift að berjast gegn Ísraelum í fyrstu intifödunni, uppreisn Palestínumanna gegn ísraelsku hernámi sem stóð frá 1987 til 1993. Í stofnsáttmála Hamas, sem var gerður í ágúst 1988, var boðað að íslamstrú skyldi tortíma Ísrael og að öll Palestína væri íslamskt land sem múslimar gætu aldrei gefið eftir.[1] Á tíunda áratugnum mótmæltu Hamas-samtökin Óslóarsamkomulaginu sem leiðtogar PLO gerðu við stjórn Ísraels í viðleitni til að leysa úr deilum þjóðanna.[2]

Þegar Persaflóastríðið braust út með innrás Íraks í Kúveit árið 1990 lýsti Yasser Arafat, leiðtogi PLO, yfir stuðningi við Saddam Hussein, forseta Íraks. Hamas-samtökin hvöttu aftur á móti bæði Íraka og Bandaríkjamenn til þess að draga hersveitir sínar burt frá Kúveit. Þetta leiddi til þess að margir fjárhagslegir bakhjarlar PLO, bæði í Sádi-Arabíu og í Íran, hættu stuðningi við þau samtök og fóru þess í stað að styðja Hamas.[1]

Með auknum erlendum fjárstuðningi gátu Hamas-samtökin að miklu leyti tekið við af hlutverki PLO í velferðarmálum. Þetta leiddi til þess að vinsældir Hamas jukust gríðarlega meðal palestínskrar alþýðu. Hamas-samtökin vörðu miklum hluta fjár síns til uppbyggingar samfélagsþjónustu í Palestínu samhliða því sem samtökin stóðu fyrir áframhaldandi árásum gegn Ísraelsríki. Áætlað er að frá 1993 til 2009 hafi rúmlega 500 manns látist í um 350 árásum sem Hamas-samtökin stóðu fyrir.[1]

Hamas-samtökin komust til valda á Gasaströndinni árið 2007 eftir að þau unnu sigur í þingkosningum og unnu síðan stutt stríð gegn Fatah-hreyfingunni, sem styður Mahmúd Abbas, forseta Palestínu og leiðtoga PLO. Umsátursástand hefur ríkt á Gasaströndinni frá því að Hamas komst þar til valda þar sem samtökin neita að sameinast palestínsku heimastjórninni á Vesturbakkanum og Ísraelar ráða yfir lofthelgi, strandlengju og vöruflutningum til svæðisins.[2]

Hernaðarátök við Ísrael frá 2008

[breyta | breyta frumkóða]

Palestínumenn hafa ítrekað mótmælt og barist gegn lokun Ísraela á Gasaströndinni frá valdatöku Hamas, sem hefur margsinnis leitt til blóðugra átaka. Árið 2008 kom til átaka eftir að Hamas-liðar skutu eldflaugum á Ísrael frá Gasaströndinni, sem leiddi til átaka þar sem 1.100 Palestínumenn og 13 Ísraelar létust.[3]

Árið 2012 gerðu Ísraelar loftárásir á Gasaströndina til að ráða af dögum Ahmed Jabari, leiðtoga hernaðarvængs Hamas. Eftir vikulöng átök hafði Jabari verið drepinn ásamt 150 Palestínumönnum og sex Ísraelsmönnum.[3]

Gasastríðið 2014 hófst eftir að Hamas-liðar rændu þremur ísraelskum unglingum og myrtu þá á Gasaströndinni. Ísraelsher hóf viðbragðsaðgerðir á Vesturbakkanum þar sem 350 Palestínumenn voru handteknir en Hamas brást við með því að skjóta eldflaugum frá Gasaströndinni á Ísrael. Þessi átök entust í sjö vikur og að þeim loknum höfðu 2.200 Palestínumenn og 73 Ísraelar fallið í valinn.[3]

Þann 7. október 2023 gerði Hamas óvænta stórárás á Ísrael með mikilli flugskeytahríð þar sem um 250 ísraelskir ríkisborgarar létust.[4] Fjöldi Hamas-liða braust jafnframt í gegnum girðingarnar í kringum Gasa og réðst á bæi og þorp Ísraela við landamærin.[5] Meðal annars gerðu liðsmenn Hamas árás á tónlistarhátíð í suðurhluta Ísraels og drápu þar um 260 óbreytta borgara.[6]

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, lýsti yfir stríðsástandi í kjölfar árásanna.[4]

Ismail Haniyeh, pólitískur leiðtogi Hamas-samtakanna, var drepinn í Íran þann 31. júní 2024. Írönsk stjórnvöld sökuðu Ísraela um að standa fyrir drápi hans.[7] Yaha Sinwar tók við sem pólitískur leiðtogi samtakanna.[8] Ísraelsher staðfesti dráp á honum í október sama ár. [9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Bogi Þór Arason (8. janúar 2009). „Ofbeldi beitt í bland við góðgerðarstarf“. Morgunblaðið. bls. 20.
  2. 2,0 2,1 Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (9. október 2023). „Hvað eru Hamas-samtökin?“. RÚV. Sótt 9. október 2023.
  3. 3,0 3,1 3,2 Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (14. október 2023). „Hundrað ára saga landnáms og aðskilnaðar“. Vísir. Sótt 30. október 2023.
  4. 4,0 4,1 „Hamas-hryðjuverkamenn ráðast inn í Ísrael“. Varðberg. 7. október 2023. Sótt 30. október 2023.
  5. Róbert Jóhannsson (8. október 2023). „Flókin og þaulskipulögð árás beint fyrir framan nefið á Ísraelsmönnum“. RÚV. Sótt 30. október 2023.
  6. „Minnst 260 sagðir drepnir á tónlistarhátíðinni“. mbl.is. 8. október 2023. Sótt 30. október 2023.
  7. Hólmfríður Gísladóttir (31. júlí 2024). „Pólitískur leið­togi Hamas ráðinn af dögum í Íran“. Vísir. Sótt 31. júlí 2024.
  8. „Yaha Sinwar nýr stjórnmálaleiðtogi Hamas“. mbl.is. 6. ágúst 2024. Sótt 6. ágúst 2024.
  9. Staðfesta fall Yahya Sinwar Rúv, sótt 17. október, 2024