Fara í innihald

Rætur Z

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Rætur Z (franska: Aux sources du Z) er 50. Svals og Vals-bókin og sú fjórða og síðasta eftir þá Morvan og Munuera. Þeir fengu einnig höfundinn Yann til liðs við sig. Hún kom út á bókarformi árið 2008 eftir að hafa birst sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval. Bókin hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Valur er á leið til Miðausturlanda í fréttaöflun þegar Zorglúbb sendir þeim félögum neyðarkall og biður um að koma strax til seturs Sveppagreifans, málið snúist um líf eða dauða. Hann biður Sval jafnframt um að taka með sér gömlu hnefaleikahanskana sína (sjá: Svalur í hringnum). Svalur finnur ekki hanskana, en tekur þó með sér górillubúning úr gömlu ævintýri vinanna (sjá: Svalur og górilluaparnir).

Á setrinu kemur í ljós hvernig í málinu liggur. Frú Flanner (sjá: Paris-sous-Seine), gömul vinkona og æskuást Sveppagreifans og Zorglúbbs, liggur fyrir dauðanum. Hún glímir við krabbamein sem er afleiðing af misheppnaðri vísindatilraun þeirra frá Háskólaárunum. Zorglúbb vill senda Sval með tímavél til að afstýra slysinu, þvert á vilja Sveppagreifans sem er á móti því að hrófla við fortíðinni. Svalur hittir frú Flanner á banabeði og ákveður að bjarga henni.

Tímavél Zorglúbbs krefst þess að menn hafi undir höndum grip sem tengist atburðum þess tíma sem fara skal til, en misheppnaða tilraunin átti sér stað á sama tíma og Svalur mætti Steingeiri í hnefaleikahringnum. En þar sem hanskarnir finnast ekki, ákveða þeir að færa Sval nær í tíma með hjálp górillubúningsins. Við tekur flétta þar sem Svalur fer aftar og aftar í tímann og skýtur upp kollinum sem áhorfandi í gömlum ævintýrum sínum; Sval og górilluöpunum, La Mauvaise tête, Burt með harðstjórann! og La corne de rhinocéros - Inn í frásögnina er skotið inn atburðum frá skólaárum Sveppagreifans, Zorglúbbs og frú Flanner, vináttu þeirra og togstreitu.

Að lokum finnur Valur hnefaleikahanskana og kemst með þeirra hjálp aftur til dagsins örlagaríka. Þar hittir hann fyrir Val, sem hafði komist til baka fyrir tilstilli gömlu þverslaufunnar sinnar sem hann keypti daginn sem hnefaleikabardaginn fór fram. Félagarnir hraða för sinni til háskólans þar sem Svalur reynir að stöðva Frú Flanner, en tekst ekki að afstýra sprengingu sem leggur skólann í rúst. Í ringulreiðinni vegna sprengingarinnar þyrpist fólk út á göturnar, þar með talið hinn ungi Svalur úr fortíðinni. Fyrir mistök þrífur Valur hinn unga Sval með sér og þeir hverfa aftur til síns tíma.

Þegar þangað er komið mæta þeim hin illvígu vélmenni frú Flanner úr Paris-sous-Seine. Valur bregst til va rnar, en verður afar undrandi þegar í ljós kemur að frú Flanner og eldri Svalur eru orðin hjón. Svalur eldri játar fyrir vini sínum að hafa orðið ástfanginn af frú Flanner strax við fyrstu sýn. Þau séu nú vellríkir uppfinningamenn og haldi úti vélmennaher sem veiti aðstoð við náttúruhamförum um víða veröld. Eldri Svalur, sem nú er grásprengdur og jakkafataklæddur kveður vin sinn, en Valur heldur út í heiminn með sínum nýja og mun yngri félaga til móts við ný ævintýri.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Aux sources du Z olli talsverðri úlfúð meðal unnenda Svals & Vals, ekki hvað síst vegna endalokanna. Mörgum hugnaðist illa að Svalur gengi í hjónaband, en verra þótti þó að ævintýrið væri í raun lokapunktur sagnaflokksins, enda vandséð hvernig næstu höfundar ættu að geta spunnið söguþráðinn áfram. Gripu næstu höfundar bókaflokksins því til þess ráðs að láta eins og sagan hafi ekki átt sér stað. Er það eina Svals & Vals-bókin sem svo gildir um, nema ef vera skyldi Machine qui rêve.
  • Morvan og Munuera hafa verið sakaðir um að láta bókina enda með þessum hætti í hefndarskyni, þar sem útgáfufyrirtækið ætlaði ekki að framlengja samninginn við þá. Önnur skýring á þessari afdrifaríku ákvörðun er sú að höfundarnir hafi hugsað verkið sem hluta af hliðarbókaflokknum Sérstakt ævintýri um Sval og Val... fremur en í aðalsagnaröðina en einkenni hliðarbókaflokksins er einmitt miklar vísanir í eldri bækur og óvænt endalok.
  • Svalur kyssir Bitlu í sögunni til að dreifa athygli hennar, en segir við sjálfan sig að hann hafi lengi langað til þess. Er þetta eitt af fáum dæmum um kynferðislega spennu milli aðalpersóna í sagnaflokknum.
  • Sagan er morandi af skírskotunum til eldri Svals & Vals-bóka. Í upphafi sögunnar er Valur á leið til brúðkaups olíufurstans Ibn-Mah-Zoud úr Viðburðalitlu sumarleyfi. Á háalofti þeirra Svals og Vals má sjá ýmsa gripi sem minna á fyrri ævintýri og nöfnum eldri bóka er troðið inn í orðaleiki.
  • Þótt nákvæmur aldur sögupersónanna komi hvergi fram í sagnabálkinum, hafa alltaf verið gefið í skyn að Sveppagreifinn sé talsvert eldri en Svalur og Valur. Samkvæmt Aux sources du Z munar hins vegar ekki miklu í aldri á þeim, í mesta lagi áratug, sem stangast á við fyrri sögur.