Fara í innihald

Krossreið síðari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Krossreið síðari var atburður sem gerðist á Krossi í Austur-Landeyjum haustið 1471, en þá riðu þeir Þorvarður Eiríksson, sonur Eiríks slógnefs, Loftssonar ríka, og Narfi Teitsson, með flokk manna að Krossi að næturlagi og drápu bóndann þar.

Bóndinn hét Magnús Jónsson og er ekki vitað um ættir hans en talið er að hann hafi verið skyldur eða tengdur Þorleifi Björnssyni hirðstjóra. Hann hafði keypt Kross þetta sama vor og flutt þangað norðan úr Skagafirði eða Húnavatnssýslu. Ekkert er vitað hvað honum og banamönnum hans bar á milli en þeir drógu hann að sögn nakinn úr faðmi konu sinnar og síðan drap Narfi hann. Kona Magnúsar særðist þegar hún reyndi að hjálpa manni sínum. Þeir Þorvarður og Narfi voru dæmdir útlægir og friðlausir fyrir illvirki þetta og eignir þeirra féllu til konungs. Þorvarður dó skömmu síðar en um Narfa er ekki vitað.

Kona Magnúsar, sem særðist í tilræðinu, var Ragnheiður Eiríksdóttir Krákssonar frá Skarði á Landi, systir Ingibjargar móður Torfa Jónssonar í Klofa. Hún hafði áður verið gift Þorsteini Helgasyni á Reyni í Mýrdal og giftist síðast Eyjólfi Einarssyni lögmanni. Á meðal barnabarna Ragnheiðar má nefna Ragnheiði Pétursdóttur á rauðum sokkum.

  • „Áshildarmýrarsamþykkt. Lesbók Morgunblaðsins, 27. júní 1948“.