Fara í innihald

Heimaey

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heimaey

Heimaey er eina byggða eyjan í Vestmannaeyjum, og jafnframt eina eyjan í klasanum sem hefur myndast í fleiri en einu gosi. Hún er 13,4 ferkílómetrar að stærð.

Fyrst urðu til Dalfjallið, Klifið og Háin ásamt Heimakletti, Miðkletti og Ystakletti. Þessi hluti eyjunnar nefnist einu nafni Norðurklettar og eru þeir taldir hafa myndast í lok ísaldar fyrir um 10 - 12 þúsund árum. Einnig hafa verið settar fram kenningar um að hluti Norðurkletta, þ.e. Há og Fiskhellar, séu mun eldri eða um 110-120 þúsund ára. Yngri gosmyndanir, 5-6 þúsund ára gamlar, eru í Stórhöfða og Stakkabótargíg. Við gos í Helgafelli tengdi Helgafellshraun Stórhöfða og Sæfjall við Dalfjall og myndaði eyjuna eins og hún var fram til 1973. Uppsöfnun jarðefna milli Klifsins og Heimakletts myndaði að lokum Þrælaeiði, eða Eiðið eins og það er kallað í daglegu tali. Við þá tengingu myndaðist höfn frá náttúrunnar hendi, sem hefur verið lífæð byggðar í Vestmannaeyjum. Síðast bættist við Heimaey í gosinu sem hófst 23. janúar 1973, en þá stækkaði eyjan um 2,2km², en nýja hraunið þekur alls 3,3km².

Rúmlega þriðjungur Heimaeyjar er óbyggilegur sökum eldfjalla og fjalllendis. Núverandi byggð er svo til öll á svæðinu frá Heimakletti til suðurs að rótum Helgafells, þar eð Eldfellið og Eldfellshraun takmarka byggð austan til og Ofanleitishamar að vestan.


Víðmynd.
  • Aðalskipulag Vestmannaeyja, 2004-2014, 4. tillaga (22/10/2004)
  • „Hvenær varð Heimaey til?“. Vísindavefurinn.