Fara í innihald

Gaius Sempronius Gracchus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gaius Gracchus)
Gracchusarbræður, brjóstmynd frá 19. öld.

Gaius Sempronius Gracchus (latína: CAIVS·SEMPRONIVS·TIBERII·FILIVS·PVBLII·NEPOS·GRACCVS) (153 f.Kr.121 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður. Hann var yngri bróðir stjórnmálamannsins Tiberiusar Gracchusar. Líkt og bróðir hans reyndi Gaius Gracchus að koma til leiðar ýmsum félagslegum umbótum í óþökk yfirstéttarinnar og leiddi það að endingu til dauða hans.

Gaius Gracchus var sonur Tiberiusar Gracchusar eldri og Corneliu Africana, en hún var dóttir Scipios Africanusar. Gaius var níu árum yngri en bróðir sinn, Tiberius, og tók sín fyrstu skref í stjórnmálalífi Rómaborgar þegar hann aðstoðaði bróður sinn við umbætur í jarðamálum. Eftir morðið á Tiberiusi varð Gaius kvestor á Sardiníu um tíma. Árið 123 f.Kr. var hann kjörinn Alþýðuforingi (Tribunus plebis) fyrir árið 122 f.Kr. Þær þjóðfélagsumbætur sem Gaius réðst í voru umfangsmeiri en þær sem bróðir hans hafði staðið fyrir og oft var þeim beint að þeim sem stóðu fyrir morðinu á Tiberiusi. Meðal annars lét Gaius setja lög sem gerðu fólki kleyft að lögsækja embættismenn sem höfðu sent menn í útlegð, en margir af stuðningsmönnum Tiberiusar höfðu verið sendir í útlegð. Einnig hélt hann áfram umbótum Tiberiusar í jarðamálum. Árið 122 f.Kr. var Gaius aftur kosinn Alþýðuforingi, fyrir árið 121 f.Kr., þó svo að hann hafi ekki verið í framboði og ekki sóst eftir embættinu. Öldungaráðið óttaðist völd og vinsældir Gaiusar ekki síður en það hafði óttast bróður hans. Öldungaráðsmenn og fylgismenn þeirra og reyndu því að grafa undan trausti almennings á Gaiusi og reyndu einnig að bæta eign ímynd með því að setja lög sem komu almenningi vel. Að lokum kom til átaka milli fylkingar Gaiusar og fylkingar öldungaráðsins, á Forum Romanum. Gaius flúði átökin og framdi sjálfsmorð stuttu síðar.

  • „Hvað unnu Gracchusarbræður sér helst til frægðar?“. Vísindavefurinn.
  Þessi fornfræðigrein sem tengist sagnfræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.