Fara í innihald

Puyi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Pu-Yi)
Puyi árið 1922.

Puyi (溥儀 á kínversku) (7. febrúar 1906 – 17. október 1967) eða Pu Yi var síðasti keisari Kína, næstsíðasti Kan Mongólíu og síðasti þjóðhöfðingi Tjingveldisins. Puyi var krýndur sem barn undir nafninu Xuantong-keisarinn (宣統帝) í Kína og Khevt Yos Khaan í Mongólíu og ríkti sem slíkur frá árinu 1908 þar til hann var settur af í kjölfar Xinhai-byltingarinnar þann 12. febrúar 1912. Frá 1. til 12. júlí 1917 var hann settur aftur á keisarastól af stríðsherranum Zhang Xun en þetta entist ekki.

Þegar Japanir hertóku Mansjúríu árið 1932 stofnuðu þeir leppríkið Mandsjúkó og gerðu Puyi að keisara yfir því. Árið 1934 var Puyi lýstur Kangde-keisarinn (eða Kang-te-keisarinn) og ríkti sem slíkur til loka seinni heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Þegar Alþýðulýðveldið Kína var stofnað árið 1949 var Puyi handtekinn fyrir stríðsglæpi og fékk að dúsa í fangelsi í tíu ár. Á þeim tíma skrifaði hann endurminningar sínar og fór í gegnum endurhæfingu svo hann gæti lifað sem almennur borgari í kommúnistaríkinu sem Kína var orðið.