Fara í innihald

Hans Krankl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Johann "Hans" Krankl (f. 14. febrúar 1953) er austurrískur fyrrum knattspyrnumaður og þjálfari.

Ævi og keppnisferill

Hans Krankl fæddist í Vínarborg og hóf atvinnuferil sinn hjá Rapid Vín. Hann varð markakóngur Evrópu árið 1978, auk þess að fara fyrir austurríska landsliðinu á HM 1978 sem vakti athygli FC Barcelona. Hann var á mála hjá katalónska stórliðinu næstu þrjú árin, en sneri því næst aftur til heimalandsins þar sem hann lék með ýmsum liðum til ársins 1989.

Á meðan á dvölinni hjá Barcelona stóð varð Krankl markakóngur í La Liga, vann spænsku bikarkeppnina og Evrópukeppni bikarhafa. Síðar átti hann eftir að keppa til úrslita í sömu keppni með Rapid Vín, sem tapaði fyrir Everton árið 1985. Hann var fimm sinnum valinn knattspyrnumaður ársins í Austurríki.

Á árunum 1973-85 lék Hans Krankl 69 landsleiki og skoraði í þeim 34 mörk. Þar af voru sex í einum og sama leiknum gegn Möltu. Eftirminnilegasti landsleikurinn var þó gegn Vestur-Þjóðverjum á HM 1978, þar sem hann skoraði sigurmarkið og varð óðar að þjóðhetju.

Eftir að keppnisferlinum lauk sneri Krankl sér að þjálfun. Hann hefur stýrt fjölda félagsliða í Austurríki og Þýskalandi, auk austurríska landsliðsins.

Á níunda áratugnum reyndi Krankl fyrir sér á tónlistarsviðinu og átti nokkur vinsæl lög. Smellurinn Lonely Boy náði t.a.m. öðru sæti austurríska vinsældarlistans árið 1985.