Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir (GHaf) | |||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Dómsmálaráðherra Íslands | |||||||
Núverandi | |||||||
Tók við embætti 19. júní 2023 | |||||||
Forsætisráðherra | Katrín Jakobsdóttir Bjarni Benediktsson | ||||||
Forveri | Jón Gunnarsson | ||||||
Alþingismaður | |||||||
| |||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||
Fædd | 9. febrúar 1970 Selfoss | ||||||
Stjórnmálaflokkur | Sjálfstæðisflokkurinn | ||||||
Maki | Hans Kristján Einarsson Hagerup | ||||||
Menntun | Mannfræði | ||||||
Háskóli | Háskóli Íslands | ||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Guðrún Hafsteinsdóttir (f. 9. febrúar 1970) er íslenskur mannfræðingur, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og núverandi dómsmálaráðherra. Áður var hún markaðsstjóri fjölskyldufyrirtækisins, Kjörís ehf. og formaður Samtaka iðnaðarins. Hún sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi árið 2021 og leiddi lista flokksins í kjördæminu í alþingiskosningunum í september 2021.
Foreldrar Guðrúnar eru Hafsteinn Kristinsson (1933-1993) forstjóri og stofnandi Kjöríss og Laufey Valdimarsdóttir (f. 1940). Guðrún er næstyngst fjögurra systkina, þ.á m. er Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis til 16 ára og núverandi sveitarstjóri í Hrunamannahreppi. Maki Guðrúnar er Hans Kristján Einarsson Hagerup gullsmiður og eiga þau samtals sex börn.[1]
Guðrún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, BA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands og diplómagráðu í jafnréttisfræðum frá Háskóla Íslands. Hún hefur lengst af starfað í Kjörís, tók þar við stöðu framkvæmdastjóra 23 ára gömul þegar faðir hennar lést[2] en frá 2008-2021 var hún markaðsstjóri Kjöríss.
Guðrún var formaður Samtaka iðnaðarins frá 2014 - 2020. Hún hefur setið stjórn Samtaka atvinnulífsins, Háskólans í Reykjavík, Bláa Lónsins og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna[1] og er formaður Landsamtaka lífeyrissjóða frá árinu 2018.
Gagnrýni
Í september 2024 ákvað Guðrún Hafsteinsdóttir að fylgja ákvörðunum stjórnvalda um að vísa eigi úr landi Yazan Tamimi og foreldrum hans þrátt fyrir að mörg samtök er varða réttindi fatlaðs fólks hafi bent á að slík aðgerð færi gegn Barnasáttmála sameinuðuþjóðanna.[3] „Það er líka ljóst að verði rof á þessari þjónustu getur það verið lífshættulegt og stytt hans ævi. Benda má á að 30% drengja með Duchenne-vöðvarýrnun deyja í kjölfarið á falli eða hnjaski,” sagði í læknisvottorði Yazan. Fagfélög á borð við ÖBÍ, Þroskahjálp, Einstök börn og Duchenne samtökin fordæmdu áætlaða brottvísun vegna þeirra óafturkræfu afleiðinga sem hún myndi hafa á líf og heilsu Yazan.[4]
Guðjón Reykdal Óskarsson, doktor í líf- og læknavísindum, sem er sjálfur með sjúkdóminn, lýsti þungum áhyggjum vegna brottvísunar Yazan. [5]
„Ef engin meðferð er þá lifa drengir ekki nema bara að unglingsárum. Mér finnst skrýtið ef læknar hjá Útlendingastofnun segi að þetta sé ekki alvarlegur sjúkdómur. Ef að maður hefur farið í gegnum læknanám, og ég hef farið í gegnum lyfjafræði og erfðafræði, hver einasta kennslubók nefnir þennan sjúkdóm sem sérstaklega alvarlegan. Þegar ég heyrði að hann yrði sendur úr landi þá fylltist ég alveg ótta,“ sagði Guðjón á samstöðufundi með Yazan. [6]
Í úrskurði kærunefndar í málinu sagði hins vegar „Kærunefnd hefur við framangreint mat litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og samningsins um réttindi fatlaðs fólks auk framangreindra upplýsinga um aðstæður á Spáni. Ekki verður séð að A muni eiga á hættu að brotið verði gegn réttindum hans samkvæmt efnisreglum umræddra samninga.“ [7]Hefur hún sætt harðri gagnrýni frá bæði sérfræðingum og aðgerðarsinnum fyrir verk sín tengt þessu máli. Málefni Yazans komst í heimsréttirnar sama dag og brottflutningurinn átti að eiga sér stað. [8]
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor lítur svo á að mál Yazans Tamimi og fjölskyldu hans hafi verið „þúfan sem velti hlassinu“ í aðdraganda stjórnarslita ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar[9]
Tilvísanir
- ↑ 1,0 1,1 Visir.is, „Guðrún Hafsteinsdóttir vill fyrsta sætið í Suðurkjördæmi“ (skoðað 30. maí 2021)
- ↑ „Framkvæmdastjóri Kjöríss hf, Guðrún Hafsteinsdóttir er ekki nema 24 ára“, Morgunblaðið, 8. maí 1994 (skoðað 30. maí 2021)
- ↑ Schram, Höskuldur Kári (16. september 2024). „Segir að ákvörðun um brottvísun Yazans standi þrátt fyrir frestun - RÚV.is“. RÚV. Sótt 25. október 2024.
- ↑ Ragnarsson, Rafn Ágúst (22. ágúst 2024). „Skora á flugfélög að neita að flytja Yazan úr landi - Vísir“. visir.is. Sótt 25. október 2024.
- ↑ Hrafnkelsdóttir, Linda H. Blöndal (23. júní 2024). „Þekkja af eigin raun Duchenne sjúkdóminn - RÚV.is“. RÚV. Sótt 25. október 2024.
- ↑ Hrafnkelsdóttir, Linda H. Blöndal (23. júní 2024). „Þekkja af eigin raun Duchenne sjúkdóminn - RÚV.is“. RÚV. Sótt 25. október 2024.
- ↑ „Stakur úrskurður“. www.stjornarradid.is. Sótt 25. október 2024.
- ↑ „Middle East Monitor“.
- ↑ Böðvarsdóttir, Elín Margrét (13. október 2024). „„Ennþá í töluverðu óvissuástandi um framvinduna" - Vísir“. visir.is. Sótt 25. október 2024.
Fyrirrennari: Jón Gunnarsson |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |