Harry Potter
Harry Potter er söguhetja úr bókum eftir enska rithöfundinn J.K. Rowling. Bækurnar fjalla um ungann galdramann, Harry Potter, og vini hans Ron Weasley og Hermione Granger, sem öll stunda nám við Hogwarts skóla galdra og seiða. Aðalsöguþráðurinn gengur út á tilraunir illa galdramannsins Voldemorts til að ná völdum í heimi galdramanna og baráttu Harry Potter og vina hans gegn því. Sögurnar um Harry Potter gerast í hliðarveröld þar sem venjulegt fólk (sem galdramenn nefna mugga í bókunum) veit ekki af galdraheiminum sem er eins konar huliðsheimur allt í kring um hinn hefðbundna heim. Æðstu völd í galdraheiminum eru í höndum Galdramálaráðuneytis.
Bækurnar um Harry Potter komu fyrst út hjá bókaútgáfunni Bloomsbury í Bretlandi og Scholastic Press í Bandaríkjunum og komu út frá 1998 til 2007. Sögurnar blanda saman þáttum úr mörgum hefðbundum bókmenntagreinum, eins og fantasíum, þroskasögum, spennusögum, breskum skólasögum og ástarsögum. Rowling hefur sagt að meginviðfangsefni bókanna sé dauðinn.[1]
Upprunalegu sjö bækurnar voru kvikmyndaðar í átta hlutum af Warner Bros. og sýndar frá 2001 til 2011. Í kjölfarið hafa fylgt fleiri bækur og kvikmyndir sem gerast í sama söguheimi og tengjast upprunalegu bókunum á ýmsan hátt. Árið 2016 var heildarvirði Harry Potter-sérleyfisins metið á 25 milljarða dala.[2] Harry Potter er eitt tekjuhæsta miðlunarsérleyfi sögunnar. Skemmtigarðar undir nafninu The Wizarding World of Harry Potter hafa verið settir upp í Bandaríkjunum, Kína og Japan.
Bækurnar
Harry Potter er bókasería sem inniheldur sjö bækur, skrifaðar af breska höfundinum J.K. Rowling. Bækurnar fjalla um ungan, munaðarlausan dreng, sem elst upp hjá hræðilegu frændfólki sínu, Dursley-fjölskyldunni og ævintýri hans í galdraheiminum, ásamt Ron Weasley, Hermione Granger og fleirum. Á ellefta aldursári fær hann bréf frá Hogwarts, skóla galdra og seiða, þar sem útskýrt er fyrir honum að hann sé galdramaður og megi því sækja skóla í Hogwarts. Bækurnar snúast aðallega um baráttu hans við vonda galdramanninn Voldemort, sem drap foreldra Harrys þegar hann stjórnaði galdraheiminum og var að reyna að losna við „muggana“ (fólk sem getur ekki galdrað) og galdramenn af muggættum. Búnar hafa verið til myndir, tölvuleikir og ýmislegt fleira.
Allar sjö bækurnar hafa verið kvikmyndaðar.
Fyrsta bókin, Harry Potter og viskusteinninn, var gefin út árið 1997 og heitir á frummálinu Harry Potter and the Philosopher's Stone. Síðan þá hafa vinsældir galdrastráksins aukist til muna. Í júní 2008 höfðu verið seldar yfir 400 milljónir eintaka af bókunum og þær þýddar á 67 tungumál og síðustu fjórar bækurnar hafa slegið heimsmet í því að seljast hraðast, allra tíma.
Bækurnar
- Harry Potter og viskusteinninn
- Harry Potter og leyniklefinn
- Harry Potter og fanginn frá Azkaban
- Harry Potter og eldbikarinn
- Harry Potter og Fönixreglan
- Harry Potter og blendingsprinsinn
- Harry Potter og dauðadjásnin
Einnig eru til aukabækur sem nefnast:
Tengt efni
Tilvísanir
- ↑ Greig, Geordie (11. janúar 2006). „There would be so much to tell her...“. The Telegraph. London. Afrit af uppruna á 11. mars 2007. Sótt 4. apríl 2007.
- ↑ Meyer, Katie (6. apríl 2016). „Harry Potter's $25 Billion Magic Spell“. Money. Afrit af uppruna á 14. maí 2021. Sótt 4. nóvember 2016.
Heimild
- ^ Anelli, Melissa. (21. desember 2006). Harry Potter Seven Book Title Released; Special PotterCast, Your Theories. (Sótt 22. desember 2006).
Tenglar
- http://www.jkrowling.com/en/ Geymt 10 júní 2007 í Wayback Machine (Enska)