Líf Magneudóttir
Líf Magneudóttir (fædd 13. ágúst 1974) er íslensk stjórnmálakona. Hún er oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur og fyrrum forseti borgarstjórnar. Líf er í sambúð með Snorra Stefánssyni lögmanni og eiga þau saman fjögur börn.
Æviágrip
Líf fæddist í Kaupmannahöfn en fluttist til Íslands 1975 með fjölskyldu sinni og ólst að mestu upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún flutti aftur til Kaupmannahafnar árið 1990. Foreldrar hennar eru Magnea J. Matthíasdóttir rithöfundur og Bárður R. Jónsson þýðandi.
Hún lauk stúdentsprófi við Nørrebro gymnasium i Brønshøj í Danmörku 1994. Hún lauk B.Ed-gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004. Líf hóf störf hjá RÚV 2000 þar sem hún vann sem þýðandi á fréttastofu og í ýmsum þýðingarverkefnum til 2007. Á árunum 2004-2006 vann hún einnig unnið sem grunnskólakennari í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og Suðurhlíðarskóla í Reykjavík. Frá 2006-2011 var hún vefritstjóri Sambands íslenskra sparisjóða.
Stjórnmálaþátttaka
Líf hefur verið virk í starfi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hún var formaður VGR, svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík 2011-2012, og sat í stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 2011-2015.
Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 var hún í 3 sæti á framboðslista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Reykjavík. Eftir þær tók sæti sem fulltrúi VG í Skóla- og frístundaráði borgarinnar. Í forvali VGR fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 lenti Líf í öðru sæti en einu atkvæði munaði á henni og Sóleyju Tómasdóttur. Sóley leiddi framboðslista VG í kosningunum þá um vorið og náði kjöri sem eini fulltrúi VG í borgarstjórn.
Líf náði kjöri sem varaborgarfulltrúi í kosningum 2014. Hún var formaður Mannréttindaráðs borgarinnar frá 2014 til 1. desember 2015 þegar Sóley tók sjálfs sæti formanns ráðsins. Líf tók sæti borgarfulltrúa eftir að Sóley baðst lausnar 20 september 2016, en Sóley flutti til Hollands ásamt eiginmanni sínum þá um vorið. Líf var einnig kjörin forseti borgarstjórnar 20 september 2016, en Sóley hafði áður gegnt því embætti.