Fara í innihald

Lüneburg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 23. maí 2022 kl. 23:46 eftir Snaevar-bot (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. maí 2022 kl. 23:46 eftir Snaevar-bot (spjall | framlög) (Heimildir: tiltekt: skipti út töflu fyrir sama snið using AWB)
Skjaldarmerki Lüneburg Lega Lüneburg í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Neðra-Saxland
Flatarmál: 70,38 km²
Mannfjöldi: 71.668 (31. desember 2013)
Þéttleiki byggðar: 1.018/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 17 m
Vefsíða: www.lueneburg.de

Lüneburg (lágþýska: Lümborg) er gömul Hansaborg í þýska sambandslandinu Neðra-Saxlandi og er með 72 þúsund íbúa (31. desember 2013).

Salthöfnin og pakkhús í Lüneburg

Lega

Lüneburg liggur við ána Ilmenau í norðausturhluta Neðra-Saxlands, rétt við suðausturjaðar Hamborgar. Borgin er einnig við norðurjaðar náttúruperlunnar Lüneburger Heide. Næstu borgir eru Hamborg til norðvesturs (20 km), Bremen til vesturs (50 km) og Lübeck til norðurs (50 km).

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Lüneburg sýnir hvítt borgarvirki á rauðum grunni. Inni í hliðinu er skjöldur með bláu ljóni. Virkið er Lüneburg sjálft og ljónið vísar til Hinriks ljóns sem var hertogi héraðsins áður fyrr.

Orðsifjar

Borgin hét Luneburg 965 og Luniburc 956. Orðið er dregið af germanska orðinu Hliuni, sem merkir var eða skjól (sbr. hlé á íslensku). Þar með er sennilega meint hæðin sem borgin stendur við.[1] Síðan 2007 er opinbert heiti borgarinnar Hansestadt Lüneburg.

Söguágrip

Hansaborgin

Á svæðinu bjuggu áður fyrr langbarðar. Bærinn sjálfur myndaðist ekki fyrr en á 8. öld og kemur heitið fyrst fyrir 956 í skjali Ottos I konungs þýska ríkisins. Bærinn stóð við mikilvægar saltnámur. Þrátt fyrir það stóð hann lengi vel í skugga nágrannabæjarins Bardowick. En 1189 fór Hinrik ljón í herferð gegn Bardowick og eyddi bænum. Samtímis veitti hann Lüneburg borgarréttindi. Strax á 13. öld gekk Lüneburg í Hansasambandið og verslaði með salt. Saltið var notað til að salta síld frá Noregi og Eystrasalti. Sökum mikilvægi saltsins varð borgin brátt auðug. Saltið var geymt í Saltgeymslunum í Lübeck og kallaðist leiðin þangað Gamla saltleiðin (Alte Salzstrasse). 1398 var Strecknitz-skipaskurðurinn opnaður og var saltið þá sett í pramma og því siglt til Lübeck. Síðla á 13. öld varð Lüneburg að eigið furstadæmi. En 1371 gerðu borgararnir uppreisn og vísuðu furstanum úr borginni. Þeir eyddu auk þess virkinu Kalkberg og sömuleiðis nálægu klaustri. Lüneburg varð þar með að fríborg og hélst sá status allt til 1637.

Nýrri tímar

Um miðja 16. öld lagði Hansasambandið upp laupana. Á svipuðum tíma varð aflabrestur í Eystrasaltssíldinni. Við það missti Lüneburg saltviðskiptin. Almenn fátækt varð afleiðingin og borgin féll í andvaraleysi næstu aldir. 1810 innlimuðu Frakkar borgina. En eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 gerðu borgarbúar uppreisn gegn erlendu valdstjórninni og hröktu Frakka úr borginni. 1. apríl 1813 hertók franskur her borgina, enda var þar engin her til varnar. En strax daginn eftir náðu sameinaðir prússar og Rússar að sigra Frakka og frelsa borgina. Þetta var fyrsti ósigur Frakka á þýskri grundu eftir hrakfarirnar í Rússlandi. Eftir þetta komst aftur ró á borgina, sem varla kom við sögu í styrjöldum sögunnar. Hún slapp einnig við allar loftárásir heimstyrjaldarinnar síðari. Bretar hertóku borgina átakalaust við stríðslok og fluttu þangað Heinrich Himmler sem fanga. 23. maí 1945 framdi hann þó sjálfsmorð í borginni með því að gleypa blásýruhylki. Í september sama ár fóru Bergen-Belsen-réttarhöldin fram í borginni en þar voru 45 manns ákærðir fyrir stríðsglæpi. Margir þeirra voru dæmdir til dauða, aðrir í fangelsisvist. Þetta voru fyrstu stríðsréttarhöldin eftir stríð í Þýskalandi, enda fóru þau fram áður en hin þekktu Nürnberg-réttarhöldin hófust. 1970 var byrjað að gera upp gömlu húsin í borginni, eftir að tekist hafði að hindra að yfirvöld rifu gamla miðbæinn. Eftir það er Lüneburg vinsæl ferðamannaborg. 1989 var háskólinn Universität Lüneburg stofnaður.

Þjóðsaga

Villisvín varð til þess að saltnámurnar við Lüneburg fundust

Salt var helsta verslunarvara Lüneburg. Sagan segir að námurnar hafi uppgötvast af veiðimanni nokkrum sem var að veiðum á þessum slóðum fyrir rúmum 1000 árum. Hann náði að leggja hvítt (eða ljóst) villisvín að velli og tók þá eftir því að í feldi þess voru saltkristallar. Hann hafi því grunað að í námunda væri salt að finna. Í kjölfarið var farið að grennslast fyrir um það uns saltæðarnar fundust.

Viðburðir

Lunatic Festival er heiti á tónlistarhátíð í Lüneburg sem stúdentar við háskólann hleyptu af stokkunum 2003. Hátíðin er haldin í júní og eru þá haldnir útitónleikar í mismunandi tónlistarstefnum. Samfara þessu hafa stúdentar skipulagt alls konar hliðarstarfsemi í hátíðinni, sem þykir vera öll til fyrirmyndar. 2008 hlaut hátíð þessi fyrstu verðlaun fyrir vel heppnaða framtakssemi og fyrirmyndarskipulagningu. Í dag er skipulagning hátíðarinnar orðin hluti af námi háskólans á ýmsum sviðum (svo sem listum, almannakynningu, tækni, fjármálum og fleira).

Vinabæir

Dresden viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti

Jóhannesarkirkjan er eilítið skökk

Í Lüneburg eru fjölmörg gömul íbúarhús í þýskum stíl. Þar sem borgin varð ekki fyrir loftárásum og hefur ekki brunnið að öðru leyti, hefur miðborgarmyndin haldist nær óbreytt í nokkur hunduð ár. Auk þess má nefna:

  • Jóhannesarkirkjan er elsta kirkja Lüneburg og er í miðbænum. Hún var reist 1300-1370 í gotneskum stíl og endurnýjuð 1420. Turninn er 108 metra hár og er meðal allra hæstu kirkjuturna í Neðra-Saxlands. Hann er eilítið skakkur. Sagan segir að þegar byggingarmeistarinn hafi uppgötvað skekkjuna, hafi hann steypt sér niður úr turninum, en lent í heyvagni og lifað af. Altaristaflan er talin eitt mesta kirkjulistaverk í héraðinu.
  • Nikulásarkirkjan er yngsta og minnsta hinna þriggja gotnesku aðalkirkna borgarinnar. Hún var reist 1407-1440 og þjónaði Maríukirkjan í Lübeck sem fyrirmynd að henni. Turninn er 98 metra hár. Mikið af dýrgripum eru í kirkjunni, þar eð hún hefur aldrei brunnið. Þar má nefna höggmyndir frá 1425 og málverk frá 1450. Skírnarfonturinn er frá 1300 og kemur frá horfinni kirkju úr nágrenninu.
  • Ráðhúsið er gríðarlega falleg bygging úr hvítum sandsteini. Á þakinu trónir hár, svartur turn.

Myndasafn

Tilvísanir

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 175.

Heimildir

Fyrirmynd greinarinnar var „Lüneburg“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.