Wikipedia:Grein mánaðarins/2008
2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024
- Janúar
Princeton-háskóli er staðsettur í bænum Princeton í New Jersey og er fjórði elsti háskólinn í Bandaríkjunum. Princeton-háskóli, sem er oft talinn einn besti háskóli Bandaríkjanna, hefur auk þess að bjóða upp á grunnnám og framhaldsnám í hugvísindum, raunvísindum og félagsvísindum, arkitektaskóla, verkfræðiskóla, og skóla fyrir stjórnsýslu- og alþjóðafræði. Skólinn var stofnaður undir heitinu College of New Jersey árið 1746 en nú er annar skóli rekinn undir heitinu College of New Jersey. Upphaflega var skólinn í bænum Elizabeth í New Jersey. Árið 1756 var skólinn fluttur til Princeton og nafni skólans var formlega breytt í „Princeton University“ árið 1896. Princeton University er einn af átta skólum sem kenndir eru við „bergfléttudeildina“ eða Ivy League.
- Febrúar
Óbó er tréblásturshljóðfæri af flokki tvíblöðunga. Orðið „óbó“ er komið af franska orðinu „hautbois“ sem merkir bókstaflega „hátt eða hávært tré“. Einstaklingur sem spilar á óbó er kallaður óbóleikari. Halldór Laxness nefnir hljóðfærið óbóu (nf. kv. óbóa).
Hljóðpípa óbósins er í laginu eins og löng og mjó keila með afskornum oddi, rúmlega 60 cm löng, í stað odds tekur við munnstykkið. Óbóið er oftast búið til úr grenadillaviði (afrískur svartviður) en blaðið er úr bambus og stöpullinn, stysti, efsti og þrengsti hluti hljóðpípunnar, er ýmist úr bronsi eða nikkel. Óbóið er í fjórum hlutum, neðsti og víðasti hlutinn heitir „bjalla“, næst kemur „neðra stykkið“, svo „toppstykkið“ og loks „munnstykkið“ eða „blaðið“.
- Mars
Strandasýsla er sýsla á Vestfjörðum á Íslandi sem nær frá Holtavörðuheiði í suðri að Geirólfsgnúpi í norðri. Íbúafjöldi sýslunnar var 752 í árslok 2007. Strandir eru heiti á byggðinni og svæðinu sem liggur norður meðfram vestanverðum Hrútafirði og Húnaflóa þar til Hornstrandir taka við.
Vestan megin á Strandasýsla mörk að Norður-Ísafjarðarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Austan megin er Húnaflói og Vestur-Húnavatnssýsla. Suðurendi sýslunnar teygir sig upp á Holtavörðuheiði þar sem hann mætir sýslumörkum Mýrasýslu.
- Apríl
David Hume (26. apríl 1711 – 25. ágúst 1776) var skoskur heimspekingur, hagfræðingur og sagnfræðingur og einn mikilvægasti hugsuður skosku upplýsingarinnar á 18. öld.
Venjulega er Hume talinn einn þriggja helstu málsvara bresku raunhyggjunnar en þó eru ekki allir á einu máli um hvernig eigi að túlka heimspeki Humes. Sumir telja að Hume hafi fyrst og fremst verið efahyggjumaður en aðrir telja að kjarninn í heimspeki hans sé öðru fremur náttúruhyggja.
Hume var undir miklum áhrifum frá raunhyggjumönnunum John Locke og George Berkeley en einnig frá ýmsum frönskumælandi höfundum eins og Pierre Bayle og mörgum enskumælandi hugsuðum og vísindamönnum, svo sem Isaac Newton, Samuel Clarke, Francis Hutcheson, Adam Smith og Joseph Butler.
- Maí
Kartafla (fræðiheiti: Solanum tuberosum) er fjölær jurt af náttskuggaætt sem er mikið ræktuð fyrir sterkjurík hnýði á neðanjarðarrenglum. Kartöflur eru í fjórða sæti yfir mest ræktuðu ferskvöru heims (á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís).
Kartöflur eru upprunnar í Andesfjöllum, nánar tiltekið í suðurhluta Perú rétt norðan við Titikakavatn samkvæmt nýlegri rannsókn. Frá Suður-Ameríku barst kartaflan til Evrópu með spænskum og portúgölskum landvinningamönnum á síðari hluta 16. aldar. Elstu heimildir um kartöflurækt í Evrópu eru frá Kanaríeyjum árið 1567.
- Júní
Philadelphia er sjötta stærsta borg Bandaríkjanna og stærsta borg Pennsylvaníu. Frá árinu 1854 hafa borgarmörkin verið þau sömu og sýslumörk Philadelphia-sýslu og frá 1952 hafa borgar- og sýsluyfirvöld spannað yfir sama landsvæðið, en samt sem áður er sýslan enn til sem sérstakt svæði í Pennsylvaníu. Íbúafjöldi borgarinnar 1. júlí 2006 var áætlaður 1.448.394. Í borginni er þriðji stærsti miðbæjarkjarni Bandaríkjanna, á eftir New York og Chicago. Philadelphia er næststærsta borgin á austurströnd Bandaríkjanna á eftir New York.
- Júlí
Mani pulite (ítalska: hreinar hendur) er heiti á röð réttarhalda sem komu í kjölfarið á rannsókn dómsvaldsins á Ítalíu á spillingu í ítölskum stjórnmálum á árunum 1992 og 1993. Réttarhöldin leiddu til endaloka stjórnarflokkanna tveggja, kristilegra demókrata og Ítalska sósíalistaflokksins. Nær heil kynslóð ítalskra stjórmálamanna hvarf af vettvangi í kjölfarið, sem meðal annars ruddi brautina fyrir fyrsta kosningasigur Silvios Berlusconis árið 1994.
- Ágúst
Menntaskólinn í Reykjavík (latína: Schola Reykjavicensis eða Schola Reykjavicana) er framhaldsskóli í miðbæ Reykjavíkur. Áður fyrr stundum kallaður Reykjavíkurskóli. Hann á sér langa sögu og hafa margir þekktir Íslendingar haft þar viðkomu í gegnum tíðina. Skólinn er bóknámsskóli með bekkjakerfi og býður upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs. Við hann eru tvær meginbrautir, náttúrufræðibraut og málabraut, sem greinast í samtals átta deildir.
Menntaskólinn í Reykjavík er elsta íslenska menntastofnunin. Hann á rætur sínar að rekja til ársins 1056 en hefur ekki alltaf verið á þeim stað sem hann er í dag.
- September
Morðbréfamálið var mál sem kom upp undir lok 16. aldar og varðaði nokkur bréf sem komu fram um 1590 og hermdu upp á Jón Sigmundsson lögmann þrjú morð. Bréfin voru til þess ætluð að gera að engu kröfu afkomenda Jóns um eignir hans, sem Gottskálk Nikulásson biskup hafði haft af honum í málaferlum. Eftir siðaskipti var Guðbrandur Þorláksson biskup fenginn til þess af fjölskyldu sinni að endurheimta eignir Jóns Sigmundssonar afa síns. Í fyrstu varð honum vel ágengt, en þegar hann krafðist jarðanna Hóls og Bessastaða í Sæmundarhlíð í Skagafirði lenti hann gegn Jóni Jónssyni lögmanni og frændum hans af Svalbarðsætt. Fram komu fjögur „morðbréf“ sem ónýttu kröfu Guðbrands, en hann varðist með útgáfu svokallaðra morðbréfabæklinga þar sem hann hrekur bréfin og sýnir fram á að þau séu fölsuð. Þessum átökum lauk með því að Guðbrandur hætti embætti sínu og þurfti að lokum að greiða háa sekt fyrir rógburð.
- Október
Rómaveldi eða Rómverska heimsveldið var ríki og menningarsvæði í kringum Miðjarðarhaf og í Vestur-Evrópu sem var stjórnað frá Rómarborg. Segja má að það hafi verið til frá árunum 753 f.Kr. (stofnun Rómar, samkvæmt fornri trú þar í borg) til ársins 476 e.Kr. (þegar síðasta keisaranum í Róm var steypt af stóli). Eftir það lifði þó austrómverska keisaradæmið, sem klofið hafði verið frá því vestrómverska árið 364 og var stjórnað frá Konstantínópel. Sögu rómverska heimsveldisins má skipta í þrjú tímabil: Rómverska konungdæmið, rómverska lýðveldið og rómverska keisaradæmið. Það var ekki fyrr en seint á lýðveldistímanum og á tíma keisaradæmisins sem yfirráðarsvæði Rómar fór að færast út fyrir Appennínaskagann.
- Nóvember
Evrópusambandið (ESB) er yfirþjóðleg stjórnmálaleg og efnahagsleg samtök 27 Evrópuríkja með höfuðstöðvar í Brussel. Sambandið var stofnað í núverandi mynd með undirritun Maastrichtsamningsins þann 7. febrúar 1992 þar sem byggt var á Evrópubandalaginu. Nærri því 500 milljónir borgara búa innan ESB, og samanlagt er verg landsframleiðsla aðildarríkja um 30% af vergri landsframleiðslu heimsins. Í ESB er sameiginlegur markaður sem er staðlaður með löggjöf sem öll aðildarríki eru skyldug til þess að setja. Þau lög snúa að hinu svokallaða fjórfrelsi sem tryggir frjálsa för fólks, varnings, þjónustu og fjármagns milli landamæra þeirra.
- Desember
Kárahnjúkavirkjun er 690 MW vatnsaflsvirkjun á hálendi Íslands norðan Vatnajökuls. Virkjunin sér álveri Alcoa á Reyðarfirði fyrir raforku. Virkjaðar eru jökulár Vatnajökuls: Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal, Kelduá og þrjár þverár hennar. Mannvirkið sem slíkt hefur verið nefnt stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Undirbúningur að verkinu hófst árið 1999, framkvæmdir hófust 2002 og loks var virkjunin formlega gangsett 30. nóvember 2007. Til verksins voru fengnir þúsundir erlendra iðnaðarmanna, og var aðalverktakafyrirtækið, Impregilo, ítalskt. Um virkjunina og byggingu álversins hafa staðið miklar deilur milli þeirra sem eru á móti spillingu umhverfisins og annarra sem telja uppbygginguna jákvæða.
2005 · 2006 · 2007 · 2008 · 2009 · 2010 · 2011 · 2012 · 2013 · 2014 · 2015 · 2016 · 2017 · 2018 · 2019 · 2020 · 2021 · 2022 · 2023 · 2024