Vallarfoxgras
Vallarfoxgras | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Phleum pratense Linnaeus |
Vallarfoxgras (fræðiheiti: Phleum pratense) er fjölært gras af ættkvíslinni Phleum. Vallarfoxgras er ræktað hérlendis og er afar vinsælt til beitar og sláttar. Uppskeran er bæði mikil og orkurík. Tegundin er þó viðkvæm fyrir beit og traðki og nýtist því best í bland við aðrar grastegundir, eins og Vallarsveifgrasi. Vallarfoxgras vex villt um alla Evrópu, frá Miðjarðarhafi allt norður að 70. breiddarbaug. Frá Evrópu barst það til Bandaríkjanna með landnemum, en það var Daninn Timothy Hansen sem talinn er upphafsmaður ræktunar á vallarfoxgrasi. Upp úr 1720 flutti hann fræ með sér frá Nýja-Englandi til Marylands og vann að útbreiðslu þess. Honum til heiðurs er tegundin enn kölluð Timothy eða Timotei í allmörgum löndum.
Líffræði
[breyta | breyta frumkóða]Vallarfoxgras getur náð 50 til 150 cm hæð og blöðin geta verið allt að 40 cm löng og 1 cm á breidd. Blöðin eru lensulaga og snúa stundum dálítið upp á sig. Blómskipun vallarfoxgrass er axpuntur, sem nefnist einnig kólfur. Hann er snarpur viðkomu vegna stuttra brodda á axögnunum. Vallarfoxgras safnar forða í lauk.
Annað
[breyta | breyta frumkóða]- Vallarfoxgras var fyrst kallað rottuhali úr dönsku sem vísar í áferð og útlit axpuntsins. Íslenska heitið vallarfoxgras verður upphaflega til vegna tegundaruglings við háliðagras (Alopecurus [= refur = fox] pratensis [=völlur]). Vallarfoxgras var einnig nefnt túnskollapuntur og timotheigras en þau heiti eru ekki lengur notuð.
- Vallarfoxgras líkist Háliðagrasi en það síðarnefnda þekkist á mýkri kólfi og að blöð Vallarfoxgrass verpast eilítið. Þá er Háliðagras fyrst túngrasa til að skríða en vallarfoxgras að jafnaði síðast.