Rengi
Rengi er spiklag undir húð sjávarspendýra og þekur yfirleitt allan líkamann en er gjarna þykkast á kviðnum. Það getur orðið allt að 30 cm þykkt á stórum hvölum. Á selum kallast þetta fitulag þó ekki rengi, heldur selspik.
Dýrin geyma fituforða sinn í renginu og það heldur einnig á þeim hita og hjálpar þeim að tempra hann. Rengi er blóðríkara en flestir aðrir fituvefir. Þegar hvalir og selir eru í mjög köldum sjó dragast æðar í renginu saman, blóðflæðið minnkar og dýrin halda betur á sér hita en ella. Einangrunarhæfni rengisins ræðst einnig af hlutfallinu á milli vatns og fitusýra; því meira sem það inniheldur af fitusýrum, þeim mun betur einangrar það.
Þegar hvalveiðar voru stundaðar af kappi víða um höf var það fyrst og fremst vegna rengisins. Spikið var brætt og lýsið sem úr því fékkst notað sem ljósmeti og við framleiðslu á ýmsum iðnaðarvarningi, svo sem sápu og snyrtivörum. Það er auðugt að Omega-3-fitusýrum og D-vítamíni. Á síðustu árum hefur þó verið varað við neyslu á rengi sumra hvaltegunda og lýsi úr því þar sem það inniheldur mikið af PCB.
Rengi hefur verið haft til matar, meðal annars hjá inúítum á Grænlandi og í Norður-Ameríku og á Íslandi hefur súrt hvalrengi löngum þótt sælgæti og mörgum þykir það nær ómissandi hluti af þorramatnum. Það fékkst þó ekki í allmörg ár vegna hvalveiðibanns.