Knattspyrnufélagið Valur
Núverandi tímabil | |||
Knattspyrnufélagið Valur | |||
Fullt nafn | Knattspyrnufélagið Valur | ||
Gælunafn/nöfn | Valsarar, Hlíðarendapiltar | ||
---|---|---|---|
Stytt nafn | Valur | ||
Stofnað | 11. maí 1911 | ||
Leikvöllur | N1 völlurinn | ||
Stærð | 1201 sæti, 2225 alls | ||
Stjórnarformaður | Lárus Sigurðsson | ||
Knattspyrnustjóri | Arnar Grétarsson (kk); Pétur Pétursson (kvk) | ||
|
Valur er íslenskt íþróttafélag sem hefur aðstöðu að Hlíðarenda. Valur teflir fram liðum í knattspyrnu, handknattleik og körfuknattleik og leika allir meistaraflokkar Vals í efstu deild bæði í karla- og kvennaflokki.
Félagið var stofnað þann 11. maí árið 1911 af drengjum í K.F.U.M., að hluta til fyrir tilstilli séra Friðriks Friðrikssonar. Í fyrstu var Valur aðeins deild innan K.F.U.M. en síðar rofnuðu tengslin við K.F.U.M. Þrátt fyrir það minnast Valsmenn ávallt tengslanna við K.F.U.M. en einkunnarorð félagsins „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði“ eru fengin úr ræðu séra Friðriks sem hann hélt við vígslu fyrsta knattspyrnuvallar félagsins. Valur tók þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu karla í fyrsta sinn árið 1915 og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn árið 1930. Alls hefur meistaraflokkur karla unnið Íslandsmótið í knattspyrnu karla 23 sinnum, síðast árið 2020. Kvennalið Vals vann Íslandmeistaratitil í fyrsta sinn árið 1978 en alls hefur meistaraflokkur kvenna unnið Íslandsmótið í knattspyrnu 14 sinnum, síðast árið 2023. Árið 1940 vann Valur fyrsta Íslandsmótið í handknattleik karla en félagið hefur ávallt átt góðu gengi að fagna í handknattleik bæði í karla og kvennaflokki. Valur varð Íslandsmeistari í handbolta kvenna í fyrsta sinn árið 1962. Árið 2024 vann karlalið Vals í handknattleik Evrópubikarinn og varð þar með fyrst íslenskra liða í boltaíþrótt til þess að vinna Evróputitil.
Árið 1970 var körfuknattleiksdeild Vals stofnuð við sameiningu félagsins við K.F.R. Valur varð Íslandsmeistari í körfuknattleik karla í fyrsta sinn tíu árum seinna eða árið 1980. Á næstu þremur árum bættust þrír titlar í safnið. Bikarmeistaratitlar árin 1981 og 1983 og Íslandsmeistaratitill 1983. Fyrsti Íslandsmeistaratitill Vals í körfuknattleik kvenna vannst árið 2019 en sama ár varð liðið einnig bikarmeistari.
Valur lék til úrslita í Evrópukeppni meistaraliða í handbolta karla, tímabilið 1979-80, og er eina íslenska liðið sem náð hefur þessum áfanga. Enn fremur er Valur sigursælasta boltaíþróttafélag Íslands með 140 Íslandsmeistaratitla og bikarmeistaratitla í þremur vinsælustu boltaíþróttum landsins.[1] Árið 2019 var ár kvennaflokka Vals, en þá unnu allar kvennadeildir félagsins Íslandsmótið. Meistaraflokkar í handknattleik og körfuknattleik gerðu gott betur og unnu einnig bikarmeistaratitla en ekkert lið hafði áður afrekað að verða Íslandsmeistari í þessum þremur íþróttum á sama tíma, hvorki í karla- né kvennaflokki.[2] Kvennalið Vals endurtóku afrekið árið 2023.[3]
Saga félagsins
[breyta | breyta frumkóða]1911-1920: Stofnun og fyrstu árin
[breyta | breyta frumkóða]Stofnun
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1911 var knattspyrnan enn á bernskuskeiði sem íþrótt á Íslandi. Knattspyrnan barst hingað laust fyrir aldamót, og eins og alls staðar hreif hún hugi ungra manna. Árið 1908 var stofnuð unglingadeild innan K.F.U.M. í Reykjavík og var séra Friðrik Friðriksson leiðtogi deildarinnar og naut óskoraðrar virðingar. Drengirnir sóttu ekki einungis fundi í K.F.U.M. hjá séra Friðriki, stofnað var taflfélag, hljómsveit var starfrækt og margt fleira.
Á þessum tíma fæddist hugmynd hjá K.F.U.M. drengjunum að stofna knattspyrnufélag en nokkur slík félög höfðu þá verið stofnuð í Reykjavík. Filippus Guðmundsson, einn af stofnendum Vals, skýrði svo frá tildrögum stofnunar félagsins í riti sem gefið var út í tilefni af 25 ára afmæli Vals:
„Það var upphaf þessa félagsskapar, að nokkrir drengir úr UD í K.F.U.M. tóku að leika sér að því, að spyrna knetti í portinu bak við hús félagsins við Amtmannsstíg. Voru þeir sí og æ að mölva rúður í gluggum hússins með knettinum og fór mestallur tíminn í að aura saman í nýjar rúður og setja þær í gluggana. [...] Þessir leikir piltanna í UD voru upphaflega einungis óskipuleg dægrastytting. Þar var engin sérstök hlutverkaskipting, enda var lítið svigrúm í portinu bak við félagshúsið. Reyndi því hver og einn að spyrna knettinum af sem mestum ákafa eitthvað út í loftið, og aðalárangurinn voru rúðuspellin, sem áður er getið. En brátt rak að því, að portið varð drengjunum og þröngur leikvangur. Þá var haldið út á Melana, þangað, sem reykvískir knattspyrnumenn hafa jafnan síðan farið til þess að stunda íþrótt sína og sækja sér aukinn dug.“[4]
Séra Friðrik hafði í upphafi lítið álit á knattspyrnu og var tregur til að gefa samþykki sitt fyrir stofnun félagsins. Virtist honum sem leikur drengjanna í portinu hefði lítinn tilgang annan en hlaup og spörk út í loftið. Hann lét þó undan þar sem hann sá að drengirnir höfðu gott af því að hlaupa úti eftir kyrrstöðu og inniveru. Síðar meir átti honum eftir að snúast hugur og varð hann fljótt helsti hvatamaður félagsins.[5] Guðbjörn Guðmundsson, segir þannig frá stofnun félagsins í sama riti:
„Um það leyti, sem áhugi fyrir knattspyrnu var að vakna meðal unglinga í Reykjavík og þar með drengja í K.F.U.M., var Ólafur Rosenkranz, leikfimiskennari í Menntaskólanum, en vann jafnframt á skrifstofu Ísafoldarprentsmiðju. Eitt sinn bar það við, að við Ólafur vorum að taka til í herbergi einu í prentsmiðjunni, en í þessu herbergi var þá geymt skrifborð Jóns Sigurðssonar forseta. Þegar við vorum að laga til í kringum borðið og undir því, kom alt í einu fótknöttur veltandi undan borðinu. Átti Ólafur knöttinn, og var hann að vísu allslitinn, en þó sæmilegur. Guðbjörn var nú ekki seinn á sér, en falaði þegar knöttinn af afi [sic]. Varð það úr, að Ólafur seldi honum knöttinn fyrir 2 kr.“[4]
Skýrði Guðbjörn þannig frá að utan um þennan knött, sem valt fram undan skrifborði Jóns Sigurðssonar, hafi fyrstu áhugamenn um knattspyrnu í K.F.U.M. safnast og að til hans megi rekja vísinn til þess að Valur varð til.[4] Það var síðan 11. maí 1911 sem haldinn var fundur á lesstofu KFUM þar sem sex piltar stofnuðu Fótboltafélag KFUM en nafni félagsins var þegar sama ár breytt í Val.[6] Einn af stofnendum Vals, Filippus Guðmundsson, átti hugmyndina að nafni félagsins. Sagan segir að þegar þessir stofnendur félagins voru að vinna við að laga knattspyrnuvöll sinn á Melunum í Reykjavík hafi fálki sveimað yfir höfðum þeirra og þar fengu þeir þá hugmynd að kalla félagð Val. Nafnið var borið undir séra Friðrik sem samþykkti það strax.[7]
Í fyrstu áttu Valsmenn engan leikvang til þess að stunda æfingar á. Æfðu liðsmenn því hvar sem þeir fundu nýtilega bletti. Æfingar fóru ýmist fram á Ráðagerðisflötum, á Kóngsmel uppi á Öskjuhlíð, meðfram Rauðarárlæknum og suður í Fífuhvammi eða hvar sem unnt var að spyrna knetti. Æfingar fóru einkum fram á sunnudögum. Liðsmenn leituðu nú til séra Friðriks sem fór þegar á fund Páls Einarssonar, sem þá var borgarstjóri Reykjavíkur. Fundi þeirra lauk með því að Valsmenn fengu úthlutað svæði eitt vestur á Melunum sem þeir ruddu og útbjuggu til knattspyrnuæfinga.[8] Séra Friðrik vann hörðum höndum að því að moka mold, raka saman möl og aka henni burt í hjólbörum með öðrum félagsmönnum og að lokinni vinnu lauk hann hverjum degi með guðsorði, söng og bæn.[9]
Við vígslu fyrsta Valsvallarins á Melunum haustið 1911 hélt séra Friðrik ræðu þar sem hann hvatti piltana til að halda áfram á þeirri braut sem þeir höfðu lagt út á og áminnti þá jafnframt um heiðarleika í leik og starfi og að friður, kærleikur, samheldni, fegurð og atorka ætti að ríkja í starfinu og aldrei ætti að þrífast neitt ósæmilegt og ljótt, sbr. m.a. eftirfarandi kafla úr ræðunni:
„Þér ungu menn, sem standið nú í röðum reiðubúnir að ganga inn á hið nýja svæði til leiks, sýnið að þér getið leikið með kappi og fjöri og þó sem göfugir, ungir menn, sem fullkomlega hafið vald yfir yður. - Náið þessu valdi, hvað sem það kostar. Náið valdi yfir limum yðar; æfið augun að sjá fljótt, hvað gjöra skal, æfið fæturna, til þess að þeir gefi mátulegt spark eftir því, sem augað reiknar út, að með þurfi; æfið hendurnar til þess að fálma ekki út í bláinn, til þess að gjöra einmitt þær hreyfingar, sem við eiga; látið hendur og handleggi verða svo sjaldan sem unt er fyrir knettinum; æfið tungu yðar, svo að engin óþorfa orð heyrist. Leggið alla stund á að leggja fegurð inn í leik yðar, látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði. [...]
Verið þar á svæðinu, sem yður ber að vera, hverjum samkvæmt skyldu sinni og varist blindan ákáfa og fum. Allur þjösnaskapur veri langt frá yður. Kærið yður ekki um að vinna með röngu eða ódrengilegu bragði. Þeir sterkari boli aldrei hinum yngri og linari frá réttum leik. Segið ávallt satt og venjið yður á að segja til, ef yður verður eitthvað á og játa það. Hælist aldrei yfir þeim, sem tapa, og gleðjist líka yfir velleiknu sparki hjá mótleiksmönnum yðar. Látið aldrei ófagurt pex eða þráttanir skemma leikinn. Verið fljótir að hlýða þeim, sem leik stjórna, einnig þó að þeir séu yngri. [...]
Munið ávallt eftir því, að leikur vor er ekki aðeins stundargaman, heldur á hann að vera til þess að gjöra oss betri, göfugri, heiðarlegri og karlmannlegri með hverri æfing. Og samlíf vort á leiksviðinu og utan þess á að efla kristindóm vorn og vera guði til dýrðar.“[10]
Fyrstu árin
[breyta | breyta frumkóða]Í Valsblaðinu 1961 segir frá því að séra Friðrik hafi eitt sinn farið í heimsókn til Valsmanna þar sem þeir voru við æfingar á Melunum. Í fyrstu sýndist honum sem það sem ætti sér stað inn á vellinu svipaði til þess sem gerðist í portinu í K.F.U.M. en hann gekk þá til drengjanna og bað þá að sýna sér hvernig liðið raðaði sér upp á vellinum. Þeir gerðu það nákvæmlega og er séra Friðrik virti fyrir sér þessar tvær fylkingar (sókn og vörn) segist hann hafa séð fyrir sér hinar rómversku herfylkingar skipulegar og markvissar og samstundis skynjað leikinn og þá geysilegu þýðingu íþróttarinnar sem uppeldismeðals ef réttilega væri á haldið.[11]
Valsmenn urðu þó skömmu síðar að hverfa af brott af þessum velli því loftskeytastöð var reist á blettinum. Ruddu Valsmenn sér þá nýjan völl norðar á Melunum en þeir þurftu einnig að yfirgefa hann skömmu seinna þegar járnbraut, sem lögð var vegna grjótflutninga til Reykjavíkurhafnar, sem þá var í smíðum, var lögð yfir hann. Enn fluttu Valsmenn völl sinn norðar á Melana en sá völlur var nokkru síðar tekinn af félaginu og gerður að allsherjar íþróttavelli fyrir Reykjavík, Melavöllurinn. Áður hafði verið íþróttavöllur norðar á Melunum, en girðingin í kringum hann skemmdist mjög af völdum óveðurs árið 1925 og var þá horfið á það ráð að flytja íþróttavöllinn þangað sem völlur Valsmanna var.[8]
Mikill áhuga var meðal Valsmanna á knattpyrnu strax frá upphafi og oftast mættu of margir á æfingar þrátt fyrir að félagsmenn væru ekki nema 28 talsins og var Loftur Guðmundsson, fyrsti formaður félagsins, „einkar áhugasamur um viðgang þess“. Fjölmargir óskuðu eftir inngöngu í félagið en Valsmenn höfðu gert samþykkt um það að félagsmenn skyldu ekki vera fleiri en 28. Varð þetta til þess að annað knattspyrnufélag var stofnað innan vébanda K.F.U.M. sem fékk nafnið Hvatur en til stóð að þessi félög myndu heyja kappleiki sín á milli í stað þess að keppa við önnur knattspyrnufélög utan K.F.U.M. Félagið Hvatur sameinaðist þó Val fljótlega, þar sem menn töldu ráðlegra að sameina starfskrafta félaganna. Við lok fyrsta starfsárs félagsins gaf séra Friðrik út rit sem hann nefndi „Úti og inni“ og tileinkaði knattspyrnufélögunum í K.F.U.M. Val og Hvata „sem með siðprýði, áhuga og félagslyndi gjörðuð mér gleði og K.F.U.M. sóma á leikvellinum og annarsstaðar“.[8]
Fyrstu þrjú starfsár Vals háði félagið ekki opinbera keppni við önnur félög. Séra Friðrik stjórnaði æfingum þegar hann hafði tök á því og liðið háði mánaðarlega kappleiki við Hvat. Haustið 1914 léku Valsmenn sinn fyrsta opinbera keppnisleik við Fram. Valsmenn voru á þessum tíma bundnir af ákvörðun um að leika ekki við lið utan K.F.U.M. Séra Friðrik var á þessum tíma staddur erlendis og því ekki til taks til þess að veita leyfi, leituðu Valsmenn þá til séra Bjarna Jónssonar, sem tók vel í erindið og veitti leyfi til leiksins. Leiknum lauk með 3-2 sigri Fram, sem þótti nokkuð vel af sér vikið þar sem Framarar höfðu á þessum tíma yfir að ráða öflugu knattspyrnuliði. Árið 1915 tók Valur í fyrsta sinn þátt í Íslandsmótinu í knattspyrnu en auk þeirra kepptu Fram og KR í mótinu. Ári síðar, á fimm ára afmæli Vals 1916, fékk Valur inngöngu í Íþróttasamband Íslands. 1913 var Væringjafélagið stofnað fyrir drengi í K.F.U.M. fram til 15 ára aldurs sem gengju þá í Val. Árið 1919 vann þessi hópur ungra Valsmanna svokallað Haustmót og var það fyrsti mótssigur félagsins.
Á þessum árum voru knattspyrnumót í Reykjavík haldin af knattspyrnufélögunum sjálfum og höfðu félögin oft ærnar tekjur af mótshaldinu. Fyrstu árin stóð Valur ekki að slíku móti en breyting varð þar á árið 1917 þegar Egill Jacobsen, kaupmaður gaf félaginu 30. júní verðlaunagripinn Íslandshornið, en til stóð að árlega yrði keppt um þann grip og Valur halda mótið. Framarar voru í upphafi afar mótfallnir nafngiftinni þar sem þeir töldu að nafnið á gripnum væri svo líkt Íslandsbikarnum, sem Fram hafði gefið út og haft tekjur af. Kváðu Framarar nafnið móðgun við sig af hálfu ÍSÍ sem höfðu í samstarfi við Egil ákveðið nafnið á gripnum. Í gerðarbókum Vals sagði m.a. svo um þetta mál: „Út af þessu höfðum vér [...], ákveðið að taka ekki þátt í Knattspyrnumóti Íslands hjá Fram á þessu ári, nema þeir gæfu tryggingu fyrir að þeir tækju þátt í Íslandshornsmótinu þar sem það væri svo mikið fjárhagslegt tjón fyrir okkur.“ Með bréfi til Vals skömmu síðar tilkynntu Framarar um þátttöku sína í mótinu en tóku þó fram að eigi mætti skilja svo að félagið væri nú ánægt með nafnið á horninu eða fyrri framkomu ÍSÍ.[12] Fram vann gripinn til eignar árið 1919 en þá gaf Egill félaginu 200 krónur fyrir nýjum verðlaunagrip. Fleiri urðu mótin á vegum Vals þó ekki á þessum árum þar sem meistaraflokkur félagsins hætti keppni um þetta leyti.[13]
1920-1930: Óviss framtíð
[breyta | breyta frumkóða]Í kringum 1920 var félagið við það að leysast upp sökum þess hve fáir sóttu æfingar hjá meistaraflokki. Meistaraflokkur Vals var þá alveg hættur að taka þátt í knattspyrnumótum og enginn 3. flokkur var til í félaginu. Var m.a. um það rætt í félaginu að sameinast Víkingi eða leysa félagið alveg upp. Axel Gunnarsson, kaupmaður, var kjörinn formaður Vals og lagðist mjög gegn því. Á þessum tíma var ekkert fé til í sjóðum félagsins og lagði Axel því sjálfur til fé fyrir boltakaupum og öðru því sem félagið þarfnaðist. Var Axel lengi vel helsti fjárhagslegur bakhjarl félagsins og sat í stjórn þess í 10 ár samfleytt lengst af sem formaður.[14] Upp úr 1922 var mikil deyfð yfir starfi Væringjafélagsins[15] og gengu þá fjölmargir Væringjar í Val. Um þetta leyti upphófst mikil liðssöfnun og árið 1922 voru félagsmenn orðnir 350 talsins en þar af hafði Jón Sigurðsson, síðar borgarlæknir, safnað 100 manns. Tók meistaraflokkur félagsins í kjölfarið þátt í knattspyrnumótum að nýju árið 1923. Í Valsblaðinu 1961 eru Axel Gunnarsson og Jón Sigurðsson nefndir forystukempur endurreisnarinnar í Val sem átti sér stað á þessum tíma.
Á 15 ára afmæli félagsins árið 1926 var ákveðið að gera merki fyrir félagið og var þar um að ræða mynd af skildi og á honum var mynd af val, vængjum þöndum, með knött í klónum. Efst í grunni merkisins var sól sem sendi geisla sína, rauða og bláa yfir félagsmerkið. Félagsmerki Vals var samþykkt á aðalfundi félagsins 1926. Hugmyndina að merkinu átti Ámundi Sigurðsson, en Tryggvi Magnússon listmálari teiknaði.[7] Ákvæði um merki félagsins er að finna í 3. gr. samþykkta Knattspyrnufélagsins Vals. Þar segir svo um merki félagsins: „Merki félagsins er skjöldur, en grunnur hans sól, sem sendir frá sér rauða og bláa geisla og í miðjum fleti skjaldarins er fljúgandi valur með knött í klónum. Á knöttinn skal letra nafnið VALUR.“ Sama ár var einnig ákveðið að taka upp nýjan búning, en allt frá því að Valur eignaðist fyrst félagsbúning hafði hann verið hvít peysa með bláum langröndum, hvítar buxur og bláir sokkar. Þessum búningi þótti svipa um of til búnings KR og var þá tekin upp græn peysa og svartar buxur til bráðabirgða en sá búningur var notaður allt til ársins 1926.[16] Nú var ákveðið að búningur félagsins skyldi vera rauð peysa, hvítar buxur og bláir sokkar. Þetta hefur síðan verið búningur félagsins en ekki hefur verið föst regla í sokkalit, en þeir hafa þó yfirleitt verið rauðir eða hvítir.
Árið 1928 komu til landsins skoskir knattspyrnumenn frá Glasgow University Club á vegum allra félaganna í Reykjavík og léku m.a. við meistaraflokk Vals. Leiknum lauk með 6-1 sigri Skotanna en Skotarnir höfðu mikla yfirburði yfir íslensku liðin. Í skýrslu um heimsókn þessa í skjölum Vals kemur fram að heimsókn þessi hafi einkum verið hugsuð svo liðin gætu lært af Skotunum og séð „hvar við stæðum í íþróttinni“. Jón Sigurðsson, formaður Vals, þakkaði Skotunum kærlega fyrir frábæran leik og glæsilega kennslustund.[17] Sama ár léku Valsmenn við færeyskt knattspyrnulið sem var statt hér á landi og lauk leiknum með 4-1 sigri Valsmanna.
1930-1939: Fyrstu titlarnir. Handknattleikur ryður sér rúms
[breyta | breyta frumkóða]Valur vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil árið 1930, nítján árum eftir að félagið var stofnað með markatölunni 16:2. Innan Vals þótti mikið liggja við að sigra þetta ár og héldu liðsmenn m.a. fund á Hótel Borg skömmu fyrir mótið þar sem Jón Sigurðsson og Aðalsteinn Hallsson hvöttu menn til dáða og báðu þá að „duga eða drepast“ eins og það er orðað í fundargerðinni. Tókust menn í hendur og strengdu þess heit að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að sigra og það gekk eftir. Langþráður draumur var orðinn að veruleika. Eitt fyrsta verk nýkrýndra Íslandsmeistara var að heimsækja séra Friðrik. Séra Friðrik sagði við nýbakaða meistarana að vissulega væri sigur góður en ekki mætti ofmetnast eða sýna dramblæti, en alla tíð gaf séra Friðrik Valsmönnum ýmis heilræði, m.a. um drengilegan leik og háttprýði.
Frá þessum tíma hefur varðveist dagbók Agnars Breiðfjörð þar sem hann rekur æfingasókn veturinn 1930-31. Í dagbókinni getur hann þess að Valssöngurinn hafi oftast verið sunginn í lok æfinga, sbr. t.a.m. eftirfarandi færslu frá 18. janúar 1931: „Þessi sunnudagur rann upp með hörkufrosti og norðannæðingi, og var útlit fyrir fannkomu, þrátt fyrir þessa hryssingslegu framkomu náttúrunnar, mættu á þessa æfingu 10 áhugamenn. - Án efa hefur ekki áður verið leikin knattspyrna í slíku veðri sem þessu (í það minnsta ekki á Íslandi). Æfingin var á velli KR-inga og fór allvel fram. Valssöngurinn var sunginn.“
Ári síðar héldu Valsmenn í sína fyrstu utanlandsför. Kepptu Valsmenn við lið frá Færeyjum og Danmörku alls sex leiki. Aðalfararstjóri var séra Friðrik Friðriksson og auk hans var í fararstjórninni Jón Sigurðsson formaður félagsins. Einar Björnsson segir m.a. svo frá ferðinni í 25 ára afmælisriti Vals:
„Þetta var í fyrsta sinn, sem íslenzkt knattspyrnufélag réðist í það, á eigin ábyrgð að senda flokk knattspyrnumanna til meginlands Evrópu og í fyrsta skipti sem íslenzkir knattspyrnumenn tóku þar land. Lagt var af stað héðan 16. júní með e. s. Lýru og leiðin lá um Færeyjar, Noreg og Svíþjóð. Ferðin til Færeyja gekk eins og í sögu, en í Þórshöfn var dvalið í rúma 4 tíma og kappleikur háður við „Havnar Boltfélag“, og lauk með sigri Vals 3:0. Leikurinn var drengilegur og fjörugur og blaðaummæli ágæt. [...] Í Kaupmannahöfn og annarsstaðar í Danmörku voru Valsmenn gestir KFUM. Móttökur hinna dönsku félaga okkar voru með afbrigðum góðar, bæði í Kaupmannahöfn og annarsstaðar sem við fórum um. Var allt gert til þess að gjöra oss ferðina sem ánægjulegasta og gagnlegasta. [...] Fyrsta kappleik sinn í Danmörku léku Valur í Kaupmannahöfn 24. júlí við KFUM Boldklub og sigruðu Danir með 3:1. Rétt er að geta þess að þetta var í fyrsta sinn sem Valsmenn kepptu á grasvelli og munu þau viðbrigði, að koma á grasvöll af malarvelli, ekki hvað sízt hafa átt sinn drýgsta þátt í ósigrinum.“[18]
Dýrkeyptur Íslandsmeistaratitill 1933
[breyta | breyta frumkóða]Félagið varð næst Íslandsmeistari í knattspyrnu 1933 og síðan óslitið fjögur ár í röð 1935-1938. Sigur Vals árið 1933 var dýru verði keyptur því í úrslitaleik Vals gegn KR 15. júní hlaut markvörður Vals, Jón Karel Kristbjörnsson, svo slæma áverka að hann lést tveim dögum síðar 17. júní.[19][20] Í Valsblaðinu 1961 sagði m.a. svo frá þessum afdrifaríka leik:
„Þetta ár verður lengi minnisstætt, fyrir þá sök, að í úrslitaleik milli Vals og KR skeði það að markmaður liðsins, Jón Karel Kristbjörnsson, slasaðist svo illa að hann lézt af þeim völdum 2 dögum síðar. Mun hann hafa rifnað innvortis og fengið lífhimnubólgu, sem leiddi hann til dauða.
Var mikill mannskaði að Jóni, sem var mjög efnilegur maður, góður markvörður og hafði verið meðal þeirra sem haldið höfðu hvað lengst hópinn og leikið í aðalliðinu undanfarin ár, og í yngri flokkunum.
Þegar slysið vildi til stóðu leikar þannig, að jafntefli var 2:2, en er Jón féll á völlinn náði framherji KR knettinum og sendi hann í mannlaust markið. 3:2 fyrir KR.
Varamarkvörðurinn, Hermann Hermannsson, er tekinn í markið. En við þetta áfall, að markvörðurinn verður að hætta, þjappast liðið svo saman, að sjaldan hefði betur til tekizt, og á næstu 40 mín. skorar Valur 4 mörk, og vann leikinn 6:3.“[21]
Valur sá um útför Jóns og reisti legstein á leiði Jóns í Hólavallakirkjugarði en minnisvarðinn var afhjúpaður við athöfn sem fram fór 19. desember 1934. Á legsteininum er að finna stórt Valsmerki. Séra Bjarni Jónsson framkvæmdi athöfnina.[22] Árlega, fyrir fyrsta leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu, leggja leikmenn meistaraflokks Vals í knattspyrnu karla blóm að leiði Jóns Karels.[23][24]
Nýr völlur við rætur Öskjuhlíðar
[breyta | breyta frumkóða]Þegar æfingavöllur Vals á Melunum var tekinn af félaginu 1926 undu félagsmenn því illa og unnu forystumenn félagsins ötullega að því að félaginu yrði bætt það tjón með nýju landi. Eftir langa mæðu fékk félagið loks úthutað svæði við rætur Öskjuhlíðar sem nefndist Haukaland en fram að því hafði félagið ekki átt sér neinn sérstakan leikvöll.[8] Svæðið var stórgrýtt og illt yfirferðar en með samtakamætti ruddu menn svæðið og athafnasvæði knattspyrnumanna í Val jókst smám saman og haustið 1935 útbjuggu Valsmenn völl á svæðinu í sjálfboðavinnu og var það mikið og erfitt verk. Völlurinn var vígður á 25 ára afmælisári Vals árið 1936 en mikil áhersla var lögð á að klára að ryðja völlinn í tæka fyrir afmæli Vals. Á almennum fundi félagsins kom fram tillaga um að hver starfandi félagsmaður legði fram 5 krónur á mánuði, sem yrðu greiddar til atvinnulausra manna innan félagsins sem störfuðu að vallargerðinni og að félagssjóður myndi leggja jafnháa upphæð á móti. Var tillagan í kjölfarið samþykkt og kom til framkvæmda þó ekki liggi fyrir hve margir nutu þessara atvinnubótarvinnu. Völlurinn var vígður með skrúðgöngu frá húsi K.F.U.M. og voru þar samankomnir um 150 Valsmenn sem gengu þaðan inn Laugaveg og þaðan upp Barónsstíg að vellinum.[25]
Þetta nýja svæði átti eftir að valda straumhvörfum hjá félaginu, ekki síst meðal yngstu knattspyrnumannanna, en um þessar mundir var farið að efna til keppni milli 3. og 4. flokks og var oftast keppt á Valssvæðinu að frumkvæði Vals. Átti það mikla unglingastarf sem kom í kjölfar hins nýja vallar eftir að bera ríkulegan ávöxt fyrir Val.
Upphaf handknattleiks í Val
[breyta | breyta frumkóða]Á vetraræfingum sem knattspyrnumenn í Val stunduðu á árunum eftir 1930 var ýmist æfð leikfimi eða knattleikni með tuskuknöttum. Þessar æfingar þóttu heldur einhæfar og gripu menn til þess ráðs að enda æfingar á handknattleik. Æfingar fóru ýmist fram í Austurbæjarskóla eða ÍR húsinu og voru pústrar tíðir líkt og segir í Valsblaðinu 1961. Þótti sumum hasinn svo mikill að málið var tekið upp á stjórnarfundi Vals. Í fundargerði um þetta segir:
„Nokkur ágreiningur hafði komið upp um það, hvort hafa skyldi handknattleiksæfingar á æfingakvöldum félagsins, þar sem allir þeir, er æfingar sæktu gætu ekki tekið þátt í þeim. Urðu um þetta nokkrar umræður. Mæltu tveir stjórnarmenn, fyrir sitt leyti, á móti handknattleiksæfingum. Formaður hélt því fram, að það yrði ekki vel séð af nokkrum félagsmönnum ef þær yrðu lagðar alveg niður. Kom þá fram hjá tvímenningunum tillaga um að handknattleiksæfingar yrðu einu sinni í viku og þá síðasta „kortérið“. Var það samþykkt.“[26]
Í fyrstu fóru menn eftir samþykkt stjórnar en ekki leið á löngu þar til allar æfingar enduðu með handknattleik. Leiknum óx stöðugt fiskur um hrygg innan félagsins og vildu menn nú reyna sig á öðrum liðum. Léku Valsmenn þá við nemendur í Kennaraskólanum, Hauka og Menntaskólann, sem á þessum tíma var nokkurs konar vagga handknattleiks á Íslandi, en þjálfari liðsins var Valdimar Sveinbjörnsson. Í upphafi voru leikir Vals og Menntaskólans ójafnir en fljótlega fór að draga saman með liðunum. Í Valsblaðinu 1961 segir m.a. frá aðstöðunni til hanknattleiksiðkunar á þessum árum. Segir þar m.a. frá leik Vals og Hauka sem fram fór á ísuðu gólfi í fimleikahúsinu við barnaskólann í Hafnarfirði. Salurinn hafði verið þveginn seint kvöldið fyrir leikinn í miklu frosti og þegar keppendur komu í salinn um morguninn, var mikill hluti hans með íslagi á gólfinu. Ekki kom til greina að fresta leiknum og því fór hann fram við þessar krefjandi aðstæður. Þar greinir einnig frá æfingaleik Vals við sjóliða af þýska herskipinu Metheor, sem fram fór í Austurbæjarbarnaskólanum, segir m.a. svo frá viðureigninni í Valsblaðinu:
„Var Valsmönnum sagt, að á skipi þessu væru mjög góðir handknattleiksmenn, sem hefðu tekið þátt í mótum heima í Þýzkalandi og væru taldir þar góðir leikmenn. Yrði því um að ræða handknattleikssýningu og ekkert annað. Þjóðverjarnir vildu hafa vítateiginn strikaðan þvert yfir salinn og þegar knötturinn fór aftur fyrir það strik átti mark hann.
Þeir notuðu líka niðurstungu, og léku oft á Valsmenn með því, því það kunnu þeir ekki. Aftur á móti mun salurinn hafa hamlað þeim nokkuð, enda vanari stærri sölum og leik úti. Þjóðverjar voru þá með beztu handknattleiksþjóðum í heimi. Það kom ekki lítið á óvart að leikurinn varð mjög jafn og mátti vart á milli sjá. Áhorfendur höfðu komið til að horfa á svo að svalir salsins voru þétt skipaðar. Upphófst nú mikill þjóðarmetnaður meðal áhorfenda og tóku þeir að æpa af miklum móð á Valsmenn, og segja má að Aðalsteinn Hallsson, hafi gengið berserksgang á áhorfendapöllunum, hvetjandi með öllum tiltækum orðum móðurmálsins.
Leiknum lauk með aðeins eins marks mun eða 21:20 fyrir Þjóðverja. Var ekki laust við að handknattleikur nyti meira álits og viðurkenningar innan félagsins eftir þetta. Þetta var líka fyrsti leikur, sem íslenzkt lið leikur við erlenda handknattleiksmenn.“[27]
Sá handknattleikur sem leikinn var á þessum fyrstu árum íþróttarinnar hér á landi var nokkuð frábrugðin þeim sem þekkist í dag. Salirnir í Austurbæjarskóla, MR og í ÍR-húsinu voru litlir og gólfflöturinn leyfði ekki útlínur. Var knötturinn því alltaf í leik nema þegar mark var skorað. Heimilt var að taka knöttinn „af batta“ með því að kasta honum í vegg, markteigurinn var aðeins 2 m út frá miðju markinu og markið sjálft ekki nema 1,70 m. Ekki mátti halda knettinum lengur en í tvær sekúndur og ekki mátti stinga niður. Knötturinn var tuskuknöttur sem menn gátu með naumindum haldið á í annarri hendi eða kastað. Almennt léku menn „maður á mann“ og fimm menn voru í hvoru liði.[28]
Tengsl við KFUM rofna
[breyta | breyta frumkóða]Á þessum árum rofnuðu smám saman þau sterku tengsl sem í upphafi höfðu verið milli Vals og KFUM, en enn þann dag í dag eru Valsmenn minnugir uppruna félagsins og minnast með virðingu og hlýju tengsla sinna við KFUM og séra Friðrik Friðriksson. Á níræðisafmæli séra Friðriks árið 1958 tilkynnti Knattspyrnufélagið Valur að félagið myndi reisa brjóstmynd af séra Friðriki Friðrikssyni á Hlíðarenda.[29] Brjóstmyndin var afhjúpuð á 93. afmælisdegi séra Friðriks þann 25. maí 1961 en séra Friðrik lést 9. mars sama ár.[30] Á steinsúluna eru rituð þau fleygu orð: Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði, einkunnarorð sem eiga að vera leiðarljós og takmark allra Valsmanna í leik og starfi. Friðrikskapella að Hlíðarenda var vígð árið 1993 þegar 125 ár voru liðin frá fæðingu séra Friðriks.[31]
1939-1960: Flutningur að Hlíðarenda
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1939 markar merk spor í sögu Vals með kaupum á jörðinni Hlíðarenda við Öskjuhlíð. Á gamlársdag 1914 gaf bæjarstjórn Reykjavíkur úr erfðafestubréf fyrir 5,5 hekturum lands til Jóns Kristjánssonar, lagaprófessors, sem gaf jörðinni nafnið Hlíðarendi.[32] Jón lést langt fyrir aldur fram í spænsku veikinni sem gekk yfir landið 1918.[33] Skömmu fyrir andlát sitt seldi Jón landið Sveini Pálssyni en síðar sama ár lést Sveinn einnig úr spænsku veikinni. Árið 1919 flutti Guðjón Guðlaugsson Alþingismaður til Reykjavíkur og keypti Hlíðarenda af dánarbúi Sveins. Guðjón bjó að Hlíðarenda til æviloka, en hann lést 6. mars 1939.[34] Frú Jóney Guðmundsdóttir, ekkja Guðjóns Guðlaugssonar Alþingismanns, bauð félaginu landið til kaups vorið 1939 og úr varð að félagið undirritaði kaupsamning um landið 10. maí 1939. Það var ósk Jóneyjar að selja landið Knattspyrnufélaginu Val fremur en til „[...] kaupsýslumanna sem sóttust enn fremur eftir því að eignast Hlíðarenda“ en það var hennar trú að Valur myndi hlúa að staðnum, rækta hann og prýða frekar en eigandi er ræki þar bú. Kaupverðið var 30.000 kr. en þar af nam útborgun kr. 5.000. Jörðin var 5,09 ha. að stærð, að mestu ræktað tún. Landinu fylgdi íbúðarhús, stórt fjós og hlaða. Til þess að fjármagna kaupin gaf félagið út 50 króna skuldabréf en fjármögnun stóð svo tæpt að ekki tókst að greiða stimpilgjöldin fyrr en nokkru síðar.[35][36]
Í samtali við Frímann Helgason sem birtist í 30. tbl. Valsblaðsins árið 1972 lýsti Hólmgeir Jónsson kaupunum og skuldabréfaútgáfunni með eftirfarandi hætti:
„Mér er einna minnistæðast þegar Ólafur Sigurðsson skýrði frá því að hann ætlaði að leggja það til að Valur keypti Hlíðarenda. Ég var þá féhirðir í stjórninni og mér var kunnugt um að ekkert fé var til. Hann hafði ráð við því og lét að því liggja að við gæfum bara út 50 kr. skuldabréf. Nú, svo var þetta ákveðið, og farið að selja bréfin og gekk það allt vel, en heildarupphæðin var 5,000 krónur. Síðan varð ég fyrsti gjaldkeri Hlíðarendanefndar, og ég minnist ekki að hafa leyst inn nema tvö eða þrjú bréf. Síðan kom svo stríðið og verðgildi peninga rýrnaði, 50 krónur urðu lítils virði og munu fáir hafa krafizt greiðslu fyrir bréf sín.“[37]
Ólafur Sigurðsson, þáverandi formaður Vals og bróðir Jóns Sigurðssonar, átti mikinn þátt í kaupunum á landinu og skrifaði m.a. svo um kaupin í 3. tbl. Valsblaðsins árið 1941:
„Þó að kaupin hafi verið gerð er takmarkinu ekki náð. Þau eru aðeins upphafið. Upphaf þess starfs sem á að tryggja félaginu fagran og fullkominn samastað, þar sem unnt verði að einbeita allri orku félagsins að hinum eiginlegu verkefnum þess, íþróttaiðkunum sakir fullkominna ytri skilyrða og efnahagslegs sjálfstæðis [...] Við verðum að gera til hans meiri kröfur en nokkurn tíma hafa verið gerðar hér á landi í þessum efnum, svo miklar að þær standist kröfur tímans um næstu 100 ár a.m.k.“[38]
Með kaupunum var langþráðu markmiði náð, Valur átti sitt eigið land í alfaraleið skammt frá gamla Valsvellinum og þar með lauk 28 ára hrakningasögu félagsins. Forystumenn félagsins höfðu háleitar hugsjónir um uppbyggingu að Hlíðarenda og horfðu til framtíðar, sáu fyrir sér draumsýnir um íþróttasvæði og íþróttamiðstöð en gerðu sér jafnframt grein fyrir því að langt yrði í land að draumur þeirra um framtíðarsvæði Vals rættist, en þeir höfðu tekið fyrsta skrefið.
Ekki var til fé til framkvæmda á jörðinni fyrst um sinn og var landið því leigt út til Geirs í Hlíð til 5 ára til að létta undir með félaginu. Einum hektara var þó haldið eftir til að nýta undir æfingar en Reykjavíkurflugvöllur var farinn að þrengja mjög að æfingasvæðinu sem þá var í notkun. Miklar deilur áttu sér stað innan félagsins sem utan um kaupin og var áskorun m.a. send til bæjarstjórnar um að taka 1.000 kr. árlega af félaginu "er færi svo gáleysislega með fé sitt". Þessar óánægjuraddir þögnuðu árið 1944 þegar Hlíðarendanefnd skilaði 100.000 kr. hagnaði af bílahappdrætti og hlutaveltu.
Arkitektarnemarnir Gísli Halldórsson og Sigvaldi Thordarson voru fengnir til þess að skipuleggja Hlíðarenda til framtíðar árið 1943 og skiluðu þeir af sér uppdrátti dagsettan í apríl sama ár. Á uppdrættinum mátti sjá fullburða leikvang með grasi, áhorfendastúkum og hlaupabraut, stóran malarvöll, knattspyrnuvöll drengja, utanhúss handboltavöll á grasi, tennisvelli, íþróttahús, félagsheimili, búningaaðstöðu, íbúð umsjónarmanns og sundlaug. Ekkert varð úr þessum áformum og ári síðar gerðu þeir annan uppdrátt þar sem útihús á svæðinu, fjósi og hlöðu var breytt í félagsaðstöðu, fundarherbergi og búningsklefa. Nýr malarvöllur var vígður 1949 og 1953 var grasvöllur tekinn í notkun að Hlíðarenda.[39]
Fyrstu Íslandsmeistararnir í handknattleik
[breyta | breyta frumkóða]Haustið 1939 fór stjórn Íþróttasambands Íslands þess á leit við Val að standa fyrir Íslandsmóti í handknattleik. Beiðnin var samþykkt á stjórnarfundi hjá Val í byrjun desember sama ár og fór svo að Valur og Víkingur önnuðust mótshaldið. Val hafði skömmu áður áskotnast veglegur bikar af Vátryggingafélaginu Nye danske og í tilefni af þessu nýja móti gaf Valur bikarinn til keppni í meistaraflokki. Alls tóku sex lið þátt í mótinu: Valur, Haukar, ÍR, Fram, Víkingur og Háskólinn en Valsmenn stóðu uppi sem sigurvegarar. Voru Valsmenn þar með orðnir fyrstu Íslandsmeistararnir í handknattleik. Valsblaðið 1961 greinir frá undirbúningi Valsmanna fyrir leikinn gegn Háskólanum, sem þótti afar sterkur andstæðingur. Enginn sérstakur þjálfari stýrði Valsliðinu á þessum tíma og því brugðu menn á það ráð að koma saman á skrifstofu Sveins Zoega, sem þá starfaði hjá Sparisjóði Reykjavíkur, til þess að ræða málin fyrir mikilvægan leik gegn Háskólanum. Var þar samþykkt að hver og einn skyldi gagnrýna aðra liðsmenn og segja þeim hvað það væri sem þeir mættu bæta í sínum leik. Skyldu leikmenn jafnframt hlusta á gagnrýnina og máttu ekki svara fyrir sig.
Valsmenn vörðu Íslandsmeistaratitilinn 1941 og 1942 og aftur 1944. Valsmenn hafa ávallt átt velgengni að fagna í handknattleik þegar á heildina er litið þótt stundum hafi starfið dalað um tíma.
Skíðamenn Vals fá þak yfir höfuðið
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1941 á 30 ára afmæli félagsins var tekin til notkunar skíðaskáli sem félagið leigði af ÍR. Mikill skíðaáhugi var hér á landi um og eftir 1930 og voru þá fjölmargir skíðaskálar byggðir. Fjölmargir félagsmenn Vals stunduðu skíðaíþróttina af kappi og börðust fyrir því að félagið eignaðist sinn eigin skíðaskála. Var málið mikið rætt innan félagsins en menn höfðu m.a. áhyggjur af því að Valsmenn færu að dreifast með öðrum félögum í skíðaferðir. Ýmsir möguleikar voru kannaðir en hagkvæmasta boðið kom frá ÍR um leigu á „Valgerðarstöðum“, litlu sumarhúsi, rétt við Kolviðarhól á Hellisheiði. Gerður var leigusamningur til fimm ára og hófust sjálboðaliðar þegar handa við að lagfæra og breyta húsinu. Var það von manna að þegar leigutíminn væri á enda yrði búið að reisa nýjan og vandaðan skála fyrir skíðadeildina.[40]
Fljótlega kom í ljós að skíðaskálinn væri of lítill. Hófst mikil fjársöfnun og eftir áramótin 1942-43 hafði nægt fé safnast til þess að unnt væri að hefjast handa við að teikna húsið. Andreas Bergmann teiknaði skálann sem var reistur innan um klettaborgir framar í Sleggjubeinsdal og var samningur gerður við ÍR um landið. Þegar um vorið hófust framkvæmdir og var öll vinna, nema hellulögn á þaki, framkvæmd af Valsmönnum í sjálfboðavinnu. Vinna fór að mestu fram um helgar og gekk vel því húsið var vígt 11. desember 1943.
Íþróttahús að Hlíðarenda
[breyta | breyta frumkóða]Snemma á árinu 1953 var sú ákvörðun tekin, að hefjast handa um byggingu íþróttahúss að Hlíðarenda. Opinberir aðilar vildu ekki fallast á fyrirætlanir Vals um að hafa húsið stærra en 16x32 m auk gangs og búningsherbergja og varð það því raunin. Framkvæmdir hófust 1954 en Skarphéðinn Jóhannsson teiknaði húsið og hafði eftirlit með byggingu þess. Nokkrar tafir urðu á framkvæmdum þar sem styrkir bárust ekki sem skyldi. Var þá brugðið á það ráð að leigja Hitaveitu Reykjavíkur húsið sem geymsluhús, þar til félagið gæti hafist handa um innréttingu þess. Árið 1958 gátu framkvæmdir hafist að nýju þar félaginu hafði tekist að safna saman nokkru fé með lántökum, styrkjum, fyrirframgreiðslum upp í leigu o.s.frv.
Straumhvörf urðu í starfi félagsins með tilkomu íþróttahúss að Hlíðarenda sem tekið var í notkun 1958 en húsið var fullgert 1960. Þetta íþróttahús var mikil lyftistöng fyrir Val, bæði fyrir íþróttaiðkun og allt félagsstarf. Um framkvæmdirnar að Hlíðarenda sagði m.a. svo í Valsblaðinu árið 1961 sem gefið var út í tilefni af 50 ára afmæli félagsins:
„Þeir sem fylgst hafa með framkvæmdum á Hlíðarenda, frá því farið var að vinna að byggingum þar, munu sammála um að þar hafi gerzt kraftaverk. Það verður því ekki hjá því komizt, að geta þeirra sem þar hafa verið í fararbroddi, og tekið á sínar herðar forustustarfið. Margir hafa lagt þar hönd að, og unnið gott starf, en það er hér, eins og yfirleitt vill oftast verða, að meginþunginn hvílir á tiltölulega fáum. Allt frá byrjun, eða frá því að Hlíðarendakaupin voru gerð 1939 hafa aðeins 3 menn gegnt formennsku Hlíðarendanefndar. Fyrst Ólafur Sigurðsson til ársins 1948, en í nefndinni var hann til dauðadags. Var áhugi hans fyrir Hlíðarenda mjög mikill og lagði starfinu þar jafnan það lið, sem aðstaða hans og tími frekast leyfði. Við tók af honum Jóhannes Bergsteinsson, og hefur hann unnið staðnum af geysilegum dugnaði, bæði hvað snertir tillögur um fyrirkomulag og eins sem góður fagmaður að sjálfri vinnunni. Núverandi formaður Hlíðarendanefndar, er Úlfar Þórðarson, og hefur hann fórnað tíma og kröftum að fá dæmi munu um slíkt. Er það mikið lán fyrir Val, að hafa slíka forustumenn í nefnd, sem hafði jafn þýðingarmikil verkefni með höndum.“[41]
Árið 1971 var hafist handa við undirbúning að nýjum grasvelli í fullri stærð og bættum aðbúnaði áhorfenda. Valur varð fyrsta Reykjavíkurfélagið til þess að ná því marki að leika heimaleiki á eigin grasvelli en hann var vígður 1981.[42][43] Á 9. áratugnum héldu framkvæmdir áfram og árið 1987 var tekið í notkun annað íþróttahús ásamt vallarhúsi og félagsheimili.[44] Íþróttahúsið sem byggt var árið 1987 vék síðar fyrir nýrri íþróttahöll sem vígð var árið 2007. Samhliða því tóku Valsmenn í notkun nýjan keppnisleikvang, yfirbyggða stúku og félags- og skrifstofuaðstöðu.[45] Þann 3. október 2015 vígðu Valsmenn nýjan keppnisvöll þar sem undirlagið var úr gervigrasi og leikur félagið nú heimaleiki sína á gervigrasi.[46]
Konur í Val
[breyta | breyta frumkóða]Á fyrstu árum félagsins á meðan tengslin voru hvað mest við K.F.U.M. áttu eðli málsins samkvæmt einungis piltar aðild að Val. Á fyrstu starfsáratugum Vals var einnig lítið um að stúlkur stunduðu íþróttir, slíkt þótti jafnvel ekki kvenlegt. Helst var að stúlkur stunduðu fimleika eða sund, knattleikir þóttu ekki við þeirra hæfi. Tíðarandinn breyttist mjög á stríðsárunum. Í árskýrslu stjórnar Vals árið 1947 segir m.a. svo: „Helga Helgasyni falið að gera tilraunir að koma upp kvennadeild í handknattleik“ en ekki er þess getið hvernig tilraunin tókst.[47] Aftur á móti hófu stúlkur fljótlega upp frá þessu að æfa handknattleik með Val og að því kom að handknattleiksdeild kvenna var stofnuð hjá félaginu 1948.
Um aðdraganda og stofnun kvennadeildarinnar í Val segir Helgi Helgason m.a. svo í 50 ára afmælisriti Valsblaðsins 1961:
„Eftir að farið var að efna til reglulegra ferða í hinn nýbyggða skíðaskála félagsins - um hverja helgi -, varð þess ekki langt að bíða, að með í ferðir okkar fóru að koma nokkrar ungar stúlkur, sem þá gjarnan voru þarna, til að byrja með, í fylgd með feðrum sínum, „gömlum“ og góðum félögum Vals. Með tilkomu þessara ungu stúlkna, sem að vísu voru ekki margar fyrst í stað, mátti fljótlega greina það, að í skálanum myndaðist allt annar andi, en þar hafði ríkt á meðan þar var karlkynið eitt ráðandi. Menn urðu tillitssamari hverjir við aðra, hjálpsamari og glaðværin sönn og óþvinguð í nærveru hins kynsins. Já, „stemmningin“ varð öll önnur en verið hafði, á þessu ltila - en oft mannmarga - fjallaheimili okkar. [...] Í samtölum, sem ég átti við „Skála-stúlkurnar“, fóru þær ekki í neinar grafgötur með það, að allar, upp til hópa langaði þær til að geta orðið enn virkari þátttakendur í félagslífi Vals en þær raunverulega voru og um það voru þær einnig sammála, að handkanttleikur fyrir þær væri það, sem vantaði.“
Skömmu síðar birtust auglýsingar í dagblöðum landsins þar sem stúlkur voru hvattar til að mæta á handknattleiksæfingar á miðvikudagskvöldum á Miðtúnsvelli. Vel var mætt á fyrstu æfinguna og um þær stúlkur sem sóttu fyrstu æfinguna ritaði Helgi Helgason m.a. svo: „Þessi nöfn munu verða skráð óafmáanlegu letri í annála félagsins, til að geta borið um það hverjar þær voru, sem fyrstar urðu til að brjóta þá leið, sem svo margar ungar stúlkur Vals hafa síðan farið, og eiga eftir að fara á ókomnum árum, sjálfum sér og félaginu til velfarnaðar.“
Æ síðan hafa kvennaflokkar í knattspyrnu og handknattleik staðið fyrir sínu, ekki aðeins á íþróttavöllunum, heldur einnig í hinu félagslega starfi og sú ákvörðun að veita konum aðgang að félaginu varð til þess að styrkja Val mikið félagslega. Það var ekki fyrr en eftir stofnun kvennadeilda sem hægt var að tala um Val sem alhliða íþrótta- og æskulýðsfélag. Það var fyrst árið 1962 sem þær hrepptu Íslandsmeistaratitilinn og um langan tíma var kvennalið Vals ósigrandi í handknattleik. Sigríður Sigurðardóttir, handknattleikskona úr Val, var kjörin íþróttamaður ársins 1964, fyrst kvenna.
Á 8. áratugnum náði kvennaknattspyrna að skjóta rótum hjá Val og félagið hampaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í kvennaknattspyrnu árið 1978. Á 9. áratugnum átti Valur sigursælasta lið landsins í kvennaknattspyrnu.
Deildaskipting
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1959 var gerð veigamikil skipulagsbreyting hjá félaginu er tekin var upp deildaskipting. Ákveðið var að skipta Val í þrjár deildir: Handknattleiksdeild, knattspyrnudeild og skíðadeild og kjósa sérstakar stjórnir þessara deilda. Áttu deildirnar að starfa nokkuð sjálfstætt og taka ákvarðanir um eigin mál en aðalstjórn félagsins átti að fara með æðsta vald í félaginu milli aðalfunda. Nokkuð skiptar skoðanir voru innan félagsins um fyrirhugaða deildaskiptingu en í Valsblaðinu 1961 þar sem farið var yfir 50 ára sögu félagsins þótti fyrirkomulagið hafa gefist vel. Það hafi skapað fjölbreytni í starfið og gefið fleiri félögum tækifæri til að láta að sér kveða við félagsstörfin.[48] Í kjölfarið voru kjörnar sérstakar stjórnir fyrir hverja deild en þær skyldu svo lúta stjórn aðalstjórn félagsins sem færi með æðsta vald í málefnum Knattspyrnufélagsins Vals.
1960-1980: Körfubolti í Val. Badmintondeild.
[breyta | breyta frumkóða]Stofnun körfuknattleiksdeildar
[breyta | breyta frumkóða]Stofnun körfuknattleiksdeildar Vals má rekja aftur til 25. desember 1951 þegar níu drengir, allir fyrrum nemendur úr Menntaskólanum í Reykjavík að einum frátöldum, stofnuðu körfuboltalið sem þeir gáfu nafnið „Gosi“. Um tilgang félagsins sagði m.a. svo í tíu ára afmælisriti þess:
„Þá fýsti að halda hópinn, er skólaveru lyki, og í því skyni stofnuðu þeir félagið. Háleitara var markmiðið ekki í fyrstu, enda vart við því að búast, að svo alvörulitlir piltar, sem völdu félagi sínu þetta skrítna heiti, væru upptendraðir hugsjónaeldmóði eða ætluðu að betrumbæta æskuna í heild með því að útbreiða þennan undarlega knattleik.“[49]
Gosi var eitt stofnliða efstu deildar í körfuknattleik þrátt fyrir að félagið hafi ekki fengið formlega aðild að Íþróttabandalagi Reykjavíkur fyrst um sinn. Félagið keppti engu að síður sem gestalið á fyrsta Íslandsmótinu í körfuknattleik árið 1952. Guðmundur Árnason var einn af stofnendum Gosa en hann telur að Gosi sé fyrsta íþróttafélagið hér á landi sem hefur eingöngu verið stofnað í þeim tilgangi að leika körfuknattleik. Liðsmenn Gosa pöntuðu búninga og körfuknattleiksskó frá Bandaríkjunum og fengu starfsmenn frá bandaríska sendiráðinu til þess að kenna þeim körfubolta. Guðmundur Georgsson var formaður félagsins flestöll fyrstu árin. Þrátt fyrir að félagið hafi í upphafi verið stofnað af drengjum úr MR bauðst almennum iðkendum fljótlega að ganga til liðs við félagið en einn þeirra var Ólafur Thorlacius, sem síðar varð spilandi þjálfari, bæði hjá K.F.R. og síðar hjá Val.
22. desember 1957 breytti Gosi nafni sínu í K.F.R., eða Körfuknattleiksfélag Reykjavíkur. Ólafur Thorlacius minntist þess að stofendur félagsins hafi ekki talið Gosanafnið nægilega virðulegt auk þess sem erfitt hafi verið að afla fjár af þeim sökum. Undir nafni K.F.R. var leikið til ársins 1970. Samhliða nafnabreytingunni var tilkynnt um ráðningu Eðvalds Hinrikssonar (Mikson) sem aðalþjálfara félagsins, en hann var einn af frumkvöðlum körfuknattleiks á Íslandi. Undir það síðasta gekk örðulega að halda úti starfi yngri flokka hjá K.F.R. þar sem félagið átti í erfiðleikum með æfingaaðstöðu auk þess sem félagið átti ekki félagsaðstöðu.
3. október 1970 rann K.F.R. saman við Knattspyrnufélagið Val og hóf að keppa í körfuknattleik undir merkjum félagsins. Á stofnfundinum var kjörin stjórn sem var svo skipuð: Sigurður Már Helgason formaður, Rafn Haraldsson varaformaður, Auðunn Ágústsson bréfritari og Örn Harðarson ritari.[50] Skömmu eftir stofnfundinn sendi aðalstjórn Vals frá sér fréttatilkynningu þar sem m.a. segir:
„Að undanförnu hafa farið fram umræður milli Knattspyrnufélagsins Vals og stjórnar Körfuknattleiksfélags Reykjavíkur, um þá ósk K.F.R. að gerast deild í Val. Mál þetta var ítarlega rætt bæði innan stjórnar Vals, í fulltrúaráðinu og síðan lagt fyrir auka-aðalfund, þar sem það var endanlega samþykkt. Hinn 3. október 1970 var svo stofnfundur körfuknattleiksdeildar Vals haldinn að félagsheimilinu að Hlíðarenda. Þar gerði formaður Vals, Þórður Þorkelsson glögga grein fyrir málinu og gangi þess. Auk Þórðar tóku til máls Sigurður Helgason og Guðmundur Georgsson frá K.F.R. og lýstu ánægju sinni yfir þessum málavöxtum. Ýmsir fleiri töluðu þarna og töldu ræðumenn allir, að vel hefði tekist til í sambandi við mál þetta þar sem fyrr eða síðar myndi þessi íþróttagrein verða tekin á stefnuskrá Vals, hefði því verið mjög misráðið ef lausn máls þessa hefði orðið með öðrum hætti en raun varð á.“[51]
Valsblaðið ræddi árið 1970 við Sigurð Má Helgason fyrsta formann körfuknattleiksdeildar Vals en þar skýrði hann m.a. svo frá stofnun deildarinnar í Val:
„Ýmsar ástæður lágu til þess að við fórum að leita fyrir okkur hjá Val, hvort þar væri hljómgrunnur fyrir því að við kæmum sem félagar og þá deild í Val. Var fyrir ári síðan byrjað að leita hófanna um þetta. Útlitið hjá okkur var ekki sem best. Við höfðum hvergi félagssvæði, til stóð að rífa Hálogaland, en þar höfðum við þó svolítinn geymslukassa fyrir knetti, en það hús var okkar aðalvígi. Það var úr vöndu að ráða, átti að gefast upp, eða að leita að nýjum grunni til að starfa á. Það var almenn skoðun okkar að halda saman áfram, og leita að nýjum leiðum, og þá kom þessi hugmynd upp. Þetta var ekki sárasaklaust, en þetta var stórt félag með mikla félagslega aðstöðu sem okkur hefur alltaf vantað, þó þetta hafi einhvern veginn bjargast. Ég taldi hins vegar að við legðum það mikið með okkur til Vals að við stæðum á svipuðu stigi og Valur, sem sagt, við legðum til fólk, en þeir aðstöðuna. Fyrir okkur vakti að þetta gæti orðið til eflingar íþróttinni, og að við gætum haldið áfram að vera félagar, þó nafnið væri annað. Stofnfundurinn var svo haldinn í Félagsheimili Vals 3. okt. eins og fyrr var getið, og þar sá körfuknattleiksdeild Vals dagsins ljós, en við kvöddum okkar kæra KFR þann sama dag og geymum að sjálfsögðu margar góðar minningar frá því félagi. [...] Við munum gera okkar besta, og takist okkur að nýta aðstöðuna hjá Val vona ég að „Ljóti andarunginn“ geti orðið að fallegum fugli er fram líða stundir.“[52]
Valsblaðið 2020 hafði samband við Sigurð Má Helgason í tilefni af 50 ára afmæli körfuknattleiksdeildar Vals. Þar lýsti hann upphafsárunum í Val m.a. með eftirfarandi hætti:
„Við vorum afar sjálfstæð eining hjá félaginu fyrstu árin og lítil sem engin tengsl voru á milli deilda á þeim tíma en ég sat fundi í aðalstjórn. Rekstur körfuknattleiksdeildarinnar var alveg sjálfstæður, við sáum um ráðningu þjálfara yngri flokka, fjáröflun og allt utanumhald. Við vorum með hugsjónafólk í þjálfun sem vann hljóðlaust. Mikil sjálfboðavinna var hjá þjálfurum á þessum árum sem keyrðu af hugsjón um allt land í leiki en foreldrastarf þekktist ekki. Einnig vorum við fyrsta deildin til að flytja inn erlenda körfuboltaþjálfara sem var mikil lyftistöng og hafði góð áhrif á útbreiðslu körfuknattleiks á Íslandi.“[50]
Á 7. áratugnum var stofnuð badmintondeild hjá Val en deildin náði aldrei að eflast verulega. Einnig átti skíðaíþróttin erfitt uppdráttar hjá félaginu, fyrst og fremst vegna þess að önnur íþróttafélög buðu upp á betri aðstöðu, en félagið átti þó stóran skíðaskála sem reistur var 1943 í Sleggjubeinsdal og var mikið notaður í félagsstarfinu.
Sprengja í iðkun
[breyta | breyta frumkóða]Gífurleg breyting varð á öllu íþróttalífi Íslendinga á áttunda áratugnum og segja má að íþróttavakning hafi átt sér stað. Valur fór ekki varhluta af þessari íþróttavakningu. Mjög mikil sókn var á öllum vígstöðvum hjá félaginu, enda vel í stakk búið til þess að taka á móti fjölda fólks og búa unglingum æskilega aðstöðu til æfinga og leikja. Allt frá stofnun félagsins árið 1911 hafði Valur verið stórt nafn í íslenskum íþróttaheimi en sennilega hefur stjarna félagsins aldrei risið eins hátt og á áttunda átatugnum. Valur varð þá að stórveldi í nær öllum íþróttagreinum sem stundaðar voru innan félagsins, bæði í meistaraflokkum og yngri flokkum. Ungilngastarfið hjá félaginu tók stökk fram á við og öll skipulagning félagsstarfsins þótti til mikillar fyrirmyndar. Barna- og unglingastarf hjá Val hefur í gegnum tíðina verið mjög öflugt og hefur þetta öfluga starf orðið til þess að Valur hefur lengst af tvímælalaust verið eitt sterkasta íþróttafélag á Íslandi og markið hefur ávallt verið sett hátt.
Af félagsins hálfu hefur jafnan verið lögð áhersla á að fá hæft fólk til þess að leiðbeina hinum ungu og er ekki síður mikilvægt að búa börnum og unglingum góða aðstöðu. Árangur unglingaliða félagsins sýnir hversu starfið hefur verið öflugt en ótaldir eru þeir Íslandsmeistaratitlar og aðrir titlar sem ungt Valsfólk af báðum kynjum hefur fært félagi sínu á undanförnum áratugum og það sem er einkar ánægjulegt fyrir félagið er að flest það fólk sem skarað hefur fram úr í íþróttum hjá Val hefur alist upp hjá félaginu og hefur það verið einkennandi fyrir starfið.
Segja má að skipulag unglingastarfsins hafi í stórum dráttum haldist hið sama í áratugi. Aldursflokkaskipting hefur þó verið mismunandi. Lengi vel höfðu þeir yngstu fá verkefni við sitt hæfi, aðeins var keppt í 2. og 3. flokki, síðar bættust 4. -6. flokkur við og á síðustu árum 7. flokkur hjá piltum og 6. flokkur hjá stúlkum. Þegar árið 1938 var stofnað til unglingaleiðtogaembættis innan aðalstjórnar félagsins sem sýnir hversu félagið hefur snemma látið sig unglingastarfið sérstaklega varða enda var félagið upphaflega stofnað sem unglingafélag í tengslum við æskulýðsstarf KFUM. Síðar tóku við unglinganefndir sem önnuðust skipulag unglingamálanna en mesta breytingin varða árið 1959 er deildarskiptingin var tekin upp og hverri deild fyrir sig var valin ákveðin stjórn.
1980-1991: Bygging nýs íþróttahúss. Valur vængjum þöndum. Sumarbúðir í borg. Íslandsmeistarar undir stjórn Ian Ross.
[breyta | breyta frumkóða]Uppbygging að Hlíðarenda
[breyta | breyta frumkóða]Jón G. Zoega, sem var formaður knattspyrnudeildar Vals þegar framkvæmdir við nýtt íþróttahús hófust, lýsti aðdraganda að byggingu þess í Valsblaðinu 1991 svo:
„Það var stjórn knattspyrnudeildar Vals árið 1980 átti hugmyndina að því að byggja nýtt íþróttahús. Við vorum í verulegum vandræðum með vetraræfingar knattspyrnumanna innanhúss því þeir voru látnir sitja á hakanum af skiljanlegum ástæðum við nýtingu eina íþróttahúss félagsins. Handboltinn og körfuboltinn eru inniíþróttir og þess vegna áttu þessar greinar flesta tíma í húsinu. Engin áform voru uppi hjá aðalstjórn félagsins og ekkert í gangi sem benti til þess að íþróttahús yrði reist á næstu árum. Við í stjórn knattspyrnudeildar fórum þá að velta fyrir okkur möguleikum á því að koma okkur upp aðstöðu fyrir knattspyrnumenn á þann hátt að þeir gætu sparkað innanhúss þótt ekki væri um glæsilegt íþróttahús að ræða. Fyrst beindust sjónir manna að flugskýlunum sem voru í næsta nágrenni við Hlíðarenda. Eftir frumkönnun kom í ljós að við fengum ekki inni í neinu flugskýli. Þá beindust augu manna að því að kaupa stóran bragga af varnarliðinu og reisa hann á Hlíðarenda. Á sama tíma var ljóst að sýningarskáli, sem hafði verið nokkur ár við Laugardalshöllinni og var í eigu Kaupstefnunnar hf., var til sölu. Við ákváðum að ganga til samstarfs við Kaupstefnuna um kaup á skemmunni sem var óeinangruð og súlulaus. Knattspyrnudeildin keypti skemmuna fyrir sinn eigin reikning - lét rífa hana í Laugardalnum og flytja hana að Hlíðarenda. Í stjórn knattspyrnudeildar á þessum tíma var Þorvaldur Mawby, sem var framkvæmdastjóri eins stærsta byggingafélags landsins, Byggung hf., og hafði hann gríðarlega þekkingu á byggingamálum og góð sambönd sem nýttust knattspyrnudeildinni. [...] Knattspyrnudeildin réðst í það að grafa grunn, steypa sökkulinn og reisa skemmuna ofan á hann. [...] Knattspyrnudeildin seldi þriggja herbergja íbúð til þess að standa undir grunngreftrinum, sökklinum og veggjunum en átti fyrir skemmunni í sjóði sínum. Þegar þessu lauk tók aðalstjórn félagsins við af okkur og lauk byggingu íþróttahússins á nokkrum árum undir styrkri stjórn Péturs Sveinbjarnarsonar, þáverandi formanns Vals.“[53]
Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin 10. maí 1981 og húsið fullklárað og vígt árið 1987. Skíðaskáli skíðadeildar Vals var endurreistur á árunum 1980-1981 en Sigurður Guðmundsson stýrði þeim framkvæmdum. Þá var félagsheimilið og íbúðarhúsið að Hlíðarenda endurbyggt en ástand húsanna var orðið svo slæmt að þau voru varla hæf til notkunar. Aðalstjórn tók þá ákvörðun að endurbyggja húsin en til skoðunar kom að rífa þau.
Árið 1983 lék Valur fyrstu opinberu heimaleikina í knattspyrnu að Hlíðarenda. Valur varð þar með fyrsta reykvíska félagið til þess að leika deildarleik í efstu deild á eigin félagssvæði en á níunda áratugnum var Valur fyrsta liðið í Reykjavík til þess að leika alla sína heimaleiki á eigin heimavelli. Árið 1988 var tréstúka byggð við knattspyrnuvöll félagsins en hún fauk í miklu óveðri sem geysaði í febrúar 1991. Stúkan var endurreist hinum megin vallarsins fyrir keppnistímabilið 1991. Árið 1988 gekk félagið einnig til samninga við Reykjavíkurborg vegna lagningar nýs Bústaðavegar. Félagið lét af hendi u.þ.b. hálfan hektara úr erfðafestulandi sínu gegn afhendingu á flugvallarveginum gamla. Hafði félagið í kjölfarið til umráða samfelldu svæði í vesturátt og að loknum samningum við Reykjavíkurborg var landsvæði Vals 85.500 fermetrar.
Valur vængjum þöndum. 70 ára afmælisrit Vals
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1981 í tilefni 70 ára afmælis Knattspyrnufélagsins Vals gaf félagið út veglegt afmælisrit, Valur vængjum þöndum. Höfundar ritsins voru Jón Birgir Pétursson og Steinar J. Lúðvíksson en ritstjóri Ólafur Gústafsson. Ritið fjallar ítarlega um sögu félagsins allt frá stofnun fram til ársins 1981 en ritið er alls 250 blaðsíður.
Sumarbúðir í borg
[breyta | breyta frumkóða]Vorið 1988 bauð Knattspyrnufélagið Valur í fyrsta sinn upp á íþróttanámskeið fyrir börn undir nafninu "Sumarbúðir í borg". Sumarbúðir í borg eru enn starfræktar fyrir börn á aldrinum 6-11 ára. Lögð er áhersla á fjölbreytta íþróttaiðkun þar sem unnið er með skyn- og hreyfiþroska barna í gegnum fjölbreytta leiki en helsta markmið námskeiðsins er að veita börnunum fjölbreytt íþróttauppeldi og byggja upp hjá þeim heilbrigðar og hollar lífsvenjur í öruggu, jákvæðu og skemmtilegu umhverfi.
Íslandsmeistarar undir stjórn Ian Ross
[breyta | breyta frumkóða]Í mars 1984 gerði knattspyrnudeild Vals samning við Ian Ross, Skota sem áður hafði m.a. leikið með Aston Villa og Liverpool en hafði einnig mikla reynslu sem þjálfari, þess efnis að Ross myndi taka við þjálfun meistaraflokks karla í knattspyrnu. Ross var fljótur að sanna sig sem þjálfari en liðið hafnaði í öðru sæti á hans fyrsta tímabili. Ross stýrði liðinu til sigurs á Íslandsmótinu í knattspyrnu ári síðar og endurtók leikinn árið 1987.
1991-2001. Fjárhagsörðugleikar. Friðrikskapella reist. Fall í fyrsta sinn. Frábær árangur í handknattleik karla.
[breyta | breyta frumkóða]Friðrikskapella
[breyta | breyta frumkóða]Á afmælisdag séra Friðriks 25. maí 1990 var fyrsta skóflustungan tekin að kapellu séra Friðriks, svonefndri Friðrikskapellu. Fyrstu skólfustunguna að Friðrikskapellu tók Davíð Oddsson, í borgarstjóratíð sinni. Hr. Ólafur Skúlason, þáverandi biskup Íslands, vígði Friðrikskapellu 25. maí 1993 þegar 125 ár voru liðin frá fæðingu Friðriks Friðrikssonar. Kapellan tekur 150 manns í sæti en kostnaður við hana nam 21,3 milljónum króna að frátöldum efnisgjöfum og sjálfboðavinnu. Framkvæmdirnar voru fjármagnaðar með föstum framlögum 80 styrktarmanna og framlögum fyrirtækja og styrkja frá Reykjavíkurborg, ríkissjóði Íslands og jöfnunarsjóði kirkna.
Friðrikskapella var reist af samtökum um byggingu Friðrikskapellu sem stofnuð voru árið 1989. Stofnendur samtakanna voru vinir séra Friðriks og félagsmenn í samtökum sem séra Friðrik stofnaði: KFUM og KFUK, knattspyrnufélaginu Val, karlakórnum Fóstbræðrum og skátahreyfingunni (skátafélagið Væringjar). Formaður samtaka um byggingu Friðrikskapellu var Gylfi Þ. Gíslason og formaður framkvæmdanefndar Pétur Sveinbjarnarson. Arkitekt kapellunnar er Nikulás Úlfar Másson.[54]
Rígar
[breyta | breyta frumkóða]Rígurinn við KR
[breyta | breyta frumkóða]Valur á í langvinnum ríg við Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Liðin eru bæði gamalgróin lið frá Reykjavík og ekki langt á milli heimavalla liðanna. Bæði lið eru auk þess sigursæl sögulega séð og byggir rígurinn því á velgengni þeirra beggja. KR hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu karla 27 sinnum og Valur 23 sinnum og í meistaraflokki kvenna hefur Valur unnið Íslandsmeistaratitilinn 14 sinnum og KR 6 sinnum. Rígurinn nær ekki bara til knattspyrnu í efstu deild karla heldur einnig til körfubolta hjá báðum kynjum.
Knattspyrna
[breyta | breyta frumkóða]Karlar
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Karlalið Vals hefur sigrað efstu deild Íslandsmótsins 23 sinnum og unnið bikarkeppni KSÍ 11 sinnum, aðeins nágrannaliðið KR hefur borið oftar sigur úr býtum en Valur. Valur á einnig met yfir lengsta veru í efstu deild íslandsmótsins, en félagið var sleitulaust í efstu deild frá 1915-1999[55] og nær því þeim merka áfanga, eitt íslenskra liða, að hafa verið í efstu deild í 75 ár. Önnur stórlið sem hafa afrekað þetta eru Mílanó liðin AC og Inter, Juventus, Barcelona og Real Madrid, svo fátt eitt sé nefnt. Í gegnum tíðina hefur félagið alið af sér fjöldann allan af atvinnu og landsliðsmönnum í knattspyrnu, þar með talinn fyrsta atvinnumann Íslendinga í knattspyrnu Albert Guðmundsson auk þess sem margir bestu knattspyrnumenn Íslands hafa leikið með félaginu. Þannig hafa t.a.m. Hermann Gunnarsson, Ingi Björn Albertsson, Atli Eðvaldsson, Sigurður Dagsson, Arnór Guðjohnssen, Eiður Smári Guðjohnsen, Guðni Bergsson, Arnór Smárason, Aron Jóhannsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Hannes Þór Halldórsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Birkir Már Sævarsson, Bjarni Ólafur Eiríksson og Sigurbjörn Hreiðarsson allir leikið fyrir Val. Núverandi þjálfari liðsins er Arnar Grétarsson og honum til aðstoðar er Haukur Páll Sigurðsson.
Í Evrópukeppnum
[breyta | breyta frumkóða]Karlalið Vals í knattspyrnu keppti sína fyrstu Evrópuleiki í undankeppni Evrópukeppni Bikarhafa tímabilið 1966-1967, þar mættu þeir Standard Liége frá Belgíu, eftir jafntefli í heimaleiknum tapaði Valur stórt á útivelli og samanlagt 9-2.[56] Tveimur árum síðar drógust Valsarar gegn Benfica frá Portúgal, heimaleikur Vals fór fram á Laugardalsvellinum. Áhorfendamet var slegið þegar 18.243 greiddu sig inn á völlinn.[57] Flestum á óvart gerðu liðin markalaust jafntefli í leiknum, En Benfica hafði í maí, sama ár, leikið til úrslita í Evrópukeppni félagsliða gegn Manchester United.[58][59] Í liði Benfica í leiknum gegn Val voru nokkrir portúgalskir landsliðsmenn, t.d. Simoes, Torres, Augustino og að ógleymdum svarta pardusinum, Eusébio. Tveimur árum fyrr höfðu þessir menn hreppt bronsverðlaun með portúgalska landsliðinu á HM í Englandi 1966, fyrrnefndur Eusébio var markakóngur mótsins.[60] Alls hefur Valur tekið þátt í Evrópukeppnum 20 sinnum, með ágætum árangri.
Tímabil | Keppni | Umferð | Mótherji | Heima | Úti | Úrslit |
---|---|---|---|---|---|---|
1966–67 | Evrópukeppni bikarhafa | Forkeppni | Standard Liège | 1–1 | 1–8 | 2–9 |
1967–68 | Evrópukeppni félagsliða | Fyrsta umferð | Jeunesse Esch | 1–1 | 3–3 | 4–4(ú) |
Önnur umferð | Vasas | 0–6 | 1–5 | 1–11 | ||
1968–69 | Evrópukeppni félagsliða | Fyrsta umferð | Benfica | 0–0 | 1–8 | 1–8 |
1974–75 | UEFA bikarinn | Fyrsta umferð | Portadown | 0–0 | 1–2 | 1–2 |
1975–76 | Evrópukeppni bikarhafa | Fyrsta umferð | Glasgow Celtic | 0–2 | 0–7 | 0–9 |
1977–78 | Evrópukeppni félagsliða | Fyrsta umferð | Glentoran | 1–0 | 0–2 | 1–2 |
1978–79 | Evrópukeppni bikarhafa | Fyrsta umferð | 1. FC Magdeburg | 1–1 | 0–4 | 1–5 |
1979–80 | Evrópukeppni félagsliða | Fyrsta umferð | Hamburg | 0–3 | 1–2 | 1–5 |
1981–82 | Evrópukeppni félagsliða | Fyrsta umferð | Aston Villa | 0–2 | 0–5 | 0–7 |
1985–86 | UEFA bikarinn | Fyrsta umferð | Nantes | 2–1 | 0–3 | 2–4 |
1986–87 | Evrópukeppni félagsliða | Fyrsta umferð | Juventus | 0–4 | 0–7 | 0–11 |
1987–88 | UEFA bikarinn | Fyrsta umferð | Wismut Aue | 1–1 | 0–0 | 1–1(ú) |
1988–89 | Evrópukeppni félagsliða | Fyrsta umferð | Monaco | 1–0 | 0–2 | 1–2 |
1989–90 | Evrópukeppni bikarhafa | Fyrsta umferð | Dynamo Berlin | 1–2 | 1–2 | 2–4 |
1991–92 | Evrópukeppni bikarhafa | Fyrsta umferð | Sion | 0–1 | 1–1 | 1–2 |
1992–93 | Evrópukeppni bikarhafa | Fyrsta umferð | Boavista | 0–0 | 0–3 | 0–3 |
1993–94 | Evrópukeppni bikarhafa | Forkeppni | MyPa | 3–1 | 1–0 | 4–1 |
Evrópukeppni bikarhafa | Fyrsta umferð | Aberdeen | 0–3 | 0–4 | 0–7 | |
2006–07 | UEFA bikarinn | Fyrsta umferð | Brøndby IF | 0–0 | 1–3 | 1–3 |
2008–09 | Meistaradeild Evrópu | Fyrsta umferð | BATE Borisov | 0–1 | 0–2 | 0–3 |
2016–17 | Evrópudeildin | Fyrsta umferð | Brøndby IF | 1–4 | 0–6 | 1–10 |
2017–18 | Evrópudeildin | Fyrsta umferð | Ventspils | 1–0 | 0–0 | 1–0 |
Önnur umferð | Domžale | 1–2 | 2–3 | 3–5 | ||
2018–19 | Meistaradeild Evrópu | Fyrsta umferð | Rosenborg | 1–0 | 1−3 | 2–3 |
Evrópudeildin | Önnur umferð | FC Santa Coloma | 3–0 | 0–1 | 3–1 | |
Þriðja umferð | Sheriff Tiraspol | 2–1 | 0–1 | 2–2 (ú) | ||
2019–20 | Meistaradeild Evrópu | Fyrsta umferð | Maribor | 0−3 | 0−2 | 0−5 |
Evrópudeildin | Önnur umferð | PFC Ludogorets Razgrad | 1−1 | 0−4 | 1−5 |
Núverandi leikmenn meistaraflokks karla í knattspyrnu
[breyta | breyta frumkóða]Miðað við 20. mars 2024.
Ath: Fánar eru tákn fyrir það þjóðerni sem skráð eru hjá FIFA. Leikmenn gætu haft fleiri en eitt ríkisfang.
Úti á láni
[breyta | breyta frumkóða]Ath: Fánar eru tákn fyrir það þjóðerni sem skráð eru hjá FIFA. Leikmenn gætu haft fleiri en eitt ríkisfang.
|
Gengi meistaraflokks karla í knattspyrnu í gegnum tíðina
[breyta | breyta frumkóða]Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | |||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1915 | 3 | 1936 | 1 | 1957 | 3 | 1978 | 1 | 1999 | 9 | 2020 | 1 | |||||
1916 | 3 | 1937 | 1 | 1958 | 3 | 1979 | 3 | 2000 | 2. sæti í 1. deild | 2021 | 5 | |||||
1917 | 3 | 1938 | 1 | 1959 | 4 | 1980 | 1 | 2001 | 9 | 2022 | 6 | |||||
1918 | 3 | 1939 | 4 | 1960 | 4 | 1981 | 5 | 2002 | 1. sæti í 1. deild | 2023 | 2 | |||||
1919 | 4 | 1940 | 1 | 1961 | 3 | 1982 | 5 | 2003 | 10 | |||||||
1920 | Tóku ekki þátt | 1941 | 2 | 1962 | 2 | 1983 | 5 | 2004 | 1. sæti í 1. deild | |||||||
1921 | Tóku ekki þátt | 1942 | 1 | 1963 | 3 | 1984 | 2 | 2005 | 2* | |||||||
1922 | Tóku ekki þátt | 1943 | 1 | 1964 | 4 | 1985 | 1 | 2006 | 3 | |||||||
1923 | 3 | 1944 | 1 | 1965 | 5* | 1986 | 2 | 2007 | 1 | |||||||
1924 | 4 | 1945 | 1 | 1966 | 1 | 1987 | 1 | 2008 | 5 | |||||||
1925 | 4 | 1946 | 3 | 1967 | 1 | 1988 | 2* | 2009 | 8 | |||||||
1926 | 5 | 1947 | 2 | 1968 | 3 | 1989 | 5 | 2010 | 7 | |||||||
1927 | 2 | 1948 | 3 | 1969 | 5 | 1990 | 4* | 2011 | 5 | |||||||
1928 | 2 | 1949 | 3 | 1970 | 5 | 1991 | 4* | 2012 | 8 | |||||||
1929 | 2 | 1950 | 5 | 1971 | 5 | 1992 | 4* | 2013 | 5 | |||||||
1930 | 1 | 1951 | 2 | 1972 | 5 | 1993 | 6 | 2014 | 5 | |||||||
1931 | 2 | 1952 | 4 | 1973 | 2 | 1994 | 4 | 2015 | 5* | |||||||
1932 | 2 | 1953 | 2 | 1974 | 3* | 1995 | 7 | 2016 | 5* | |||||||
1933 | 1 | 1954 | 4 | 1975 | 3 | 1996 | 5 | 2017 | 1 | |||||||
1934 | 2 | 1955 | 3 | 1976 | 1* | 1997 | 8 | 2018 | 1 | |||||||
1935 | 1 | 1956 | 1 | 1977 | 2* | 1998 | 8 | 2019 | 6 |
Stjörnumerkt ár vannst bikarkeppni karla í knattspyrnu.
Gullskórinn
[breyta | breyta frumkóða]Gullskórinn hefur verið veittur markahæsta leikmanni efstu deildar í knattspyrnu karla allar götur frá 1917, þess ber þó að geta að engin gögn eru til um markahæstu leikmenn íslandsmótsins frá 1920 og til og með 1934. Eftirtaldir Valsmenn hafa hreppt hnossið:[61]
Timabil | Nafn | Mörk |
---|---|---|
1935 | Magnús Bergsteinsson | 3 |
1936 | Óskar Jónsson | 5 |
1937 | Óskar Jónsson | 3 |
1938 | Magnús Bergsteinsson* | 3 |
1940 | Sigurpáll Jónsson* | 4 |
1942 | Ellert Sölvason | 6 |
1944 | Sveinn Sveinsson | 2 |
Sveinn Helgason | 2 | |
Jóhann Eyjólfsson | 2 | |
1947 | Albert Guðmundsson | 3 |
Einar Halldórsson | 3 | |
1950 | Halldór Halldórsson | 3 |
1967 | Hermann Gunnarsson | 12 |
1968 | Reynir Jónsson* | 8 |
1973 | Hermann Gunnarsson | 17 |
1976 | Ingi Björn Albertsson | 16 |
1980 | Matthías Hallgrímsson | 13 |
1983 | Ingi Björn Albertsson | 14 |
1988 | Sigurjón Kristjánsson | 13 |
2015 | Patrick Pedersen | 13 |
2018 | Patrick Pedersen | 18 |
Stjörnumerktir leikmenn deildu titlinum með öðrum. Tímabilið 1983 varð Ingi Björn Albertsson fyrsti leikmaður í efstu deild karla til þess að skora 100 mörk í efstu deild. Hann náði þessum áfanga í leik gegn KR þann 18. júní. Ingi er einn sex leikmanna til að skora yfir 100 mörk í efstu deild og næst markahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar í knattspyrnu. Patrick Pedersen hefur jafnframt skorað yfir 100 mörk í efstu deild.
Þjálfarar meistaraflokks karla í knattspyrnu
[breyta | breyta frumkóða]
|
|
Konur
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Sömu sögu er að segja af kvennaliði Vals og karlaliði, þ.e. kvennadeild Vals í knattspyrnu er einnig sú næst sigursælasta á landinu m.t.t. sigra á Íslandsmóti. Fyrsti sigur liðsins í Íslandsmótinu kom 1978 og eru þeir orðnir ellefu talsins[62], sá síðasti vannst sumarið 2019.[63][64] Fyrsti bikartitillinn kom í hús árið 1984 og hefur ekkert annað lið unnið bikarkeppnina jafn oft og Valskonur, en þær hafa sigrað keppnina alls 13 sinnum.[65] Frá 2004 til 2008, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur og með Margréti Láru Viðarsdóttur í fararbroddi sigraði liðið Íslandsmótið fjórum sinnum af fimm mögulegum skiptum. Núverandi þjálfari liðsins er Pétur Pétursson, honum til aðstoðar er Hallgrímur Heimisson.[66]
Í Evrópukeppnum
[breyta | breyta frumkóða]Valur hefur náð fínum árangri í meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, en besti árangur félagsins í meistaradeild kvenna í knattspyrnu náðist tímabilið 2005-06, þegar liðið komst í 8-liða úrslit, þá undir stjórn fyrrnefndar Elísabetar. Tímabilin 2005-06, 2007-08 og 2008-09 var Margrét Lára Viðarsdóttir markahæsti leikmaður keppninnar.
Tímabil | Keppni | Umferð | Mótherji | Heima | Úti | Úrslit |
---|---|---|---|---|---|---|
2005-06 | Meistaradeild Evrópu | Forkeppni | Røa Idrettslag | 4-1 | n/a | 4-1 |
United Jakobstad | 2-1 | n/a | 2-1 | |||
Pärnu FC | 8-1 | n/a | 8-1 | |||
Riðlakeppni | Djurgården/Älvsjö |
1-2 | n/a | 1-2 | ||
ZFK Masinac Classic Niš | 3-0 | n/a | 3-0 | |||
Alma KTZH |
8-0 | n/a | 8-0 | |||
Átta liða úrslit | Turbine Potsdam | 1-8 | 11-1 | 2-19 | ||
2007-08 | Meistaradeild Evrópu | Forkeppni | Honka | 2–1 |
n/a | 2–1 |
KÍ Klaksvík | 6–0 |
n/a | 6–0 | |||
ADO Den Haag | 5–1 |
n/a | 5–1 | |||
Riðlakeppni | Frankfurt | 3–1 |
n/a | 3–1 | ||
Rapide Wezema | 4–0 |
n/a | 4-0 | |||
Everton | 3–1 |
n/a | 3–1 | |||
2008-09 | Meistaradeild Evrópu | Forkeppni | Cardiff City LFC | 8–1 | n/a | 8–1 |
FC FK Slovan Duslo Šaľa | 6–2 | n/a | 6–2 | |||
Maccabi Holon | 9-0 | n/a | 9-0 | |||
Riðlakeppni | Umeå IK | 1-5 | n/a | 1-5 | ||
ASD CF Bardolino | 2–3 | n/a | 2–3 | |||
Alma KTZH | 8-0 | n/a | 8-0 | |||
2009-10 | Meistaradeild Evrópu | 32-liða úrslit | Torres | 1-2 | 1-4 | 2-6 |
2010-11 | Meistaradeild Evrópu | 32-liða úrslit | Rayo Vallecano | 1-1 | 0-3 | 1-4 |
2011-12 | Meistaradeild Evrópu | 32-liða úrslit | Glasgow City | 0-3 | 1-1 | 1-4 |
Núverandi leikmenn meistaraflokks kvenna í knattspyrnu
[breyta | breyta frumkóða]Miðað við 20. mars 2024.
|
|
Ath: Fánar eru tákn fyrir það þjóðerni sem skráð eru hjá FIFA. Leikmenn gætu haft fleiri en eitt ríkisfang.
Gengi meistaraflokks kvenna í knattspyrnu í gegnum tíðina
[breyta | breyta frumkóða]Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | Tímabil | Sæti | Timabil | Sæti | ||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1977 | 3 | 1987 | 2* | 1997 | 3 | 2007 | 1 | 2017 | 3 | ||||
1978 | 1 | 1988 | 1* | 1998 | 2 | 2008 | 1 | 2018 | 3 | ||||
1979 | 2 | 1989 | 1 | 1999 | 3 | 2009 | 1* | 2019 | 1 | ||||
1980 | 2 | 1990 | 3* | 2000 | 5 | 2010 | 1* | 2020 | 2 | ||||
1981 | 3 | 1991 | 2 | 2001 | 4* | 2011 | 2* | 2021 | 1 | ||||
1982 | 2 | 1992 | 3 | 2002 | 3 | 2012 | 4 | 2022 | 1 | ||||
1983 | 2 | 1993 | 4 | 2003 | 3* | 2013 | 2 | 2023 | 1 | ||||
1984 | Riðlakeppni* | 1994 | 3 | 2004 | 1 | 2014 | 7 | ||||||
1985 | 3* | 1995 | 2* | 2005 | 2 | 2015 | 7 | ||||||
1986 | 1* | 1996 | 4 | 2006 | 1* | 2016 | 3 |
Sumarið 2008 skoraði Valsliðið 91 mark á Íslandsmótinu og bætti eigið met frá árinu áður um 3 mörk.
Gullskórinn
[breyta | breyta frumkóða]Gullskórinn hefur verið veittur markahæsta leikmanni tímabilsins í efstu deild kvenna frá árinu 1981. Eftirfarandi Valskonur hafa hreppt gullskóinn:[61]
Tímabil | Nafn | Mörk |
---|---|---|
1986 | Kristín Arnþórsdóttir | 22 |
1987 | Ingibjörg Jónsdóttir | 16 |
1988 | Bryndís Valsdóttir | 12 |
1989 | Guðrún Sæmundsdóttir | 12 |
1999 | Ásgerður Hildur Ingibergsdóttir | 20 |
2005 | Margrét Lára Viðarsdóttir | 23 |
2006 | Margrét Lára Viðarsdóttir | 34 |
2007 | Margrét Lára Viðarsdóttir | 38 |
2008 | Margrét Lára Viðarsdóttir | 32 |
2009 | Kristín Ýr Bjarnadóttir | 23 |
2010 | Kristín Ýr Bjarnadóttir | 23 |
2012 | Elín Metta Jensen | 18 |
2023 | Bryndís Arna Níelsdóttir | 14+1 |
Tímabilið 2007 skoraði Margrét Lára Viðarsdóttir 38 mörk í aðeins 16 leikjum, eða 2,4 mörk að meðaltali í hverjum leik. Hvorki fyrr né síðar hefur leikmaður í efstu deild karla eða kvenna skorað fleiri mörk á sama tímabili.
Tímabilið 2023 skoraði Bryndís Arna Níelsdóttir 14 mörk í fyrri hluta deildarinnar og eitt mark í efri hluta deildarinnar.
Handknattleikur
[breyta | breyta frumkóða]Karlar
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Handknattleiksdeild Vals á sér langa sögu innan handboltans á Íslandi, félagið hefur skipað sér með þeim sigursælustu í íþróttinni hérlendis og er hefur ekkert lið unnið Íslandsmótið né bikarkeppnina í handbolta jafn oft og Valur karlamegin, Karlalið Vals tók þátt í fyrsta Íslandsmótinu í handbolta, tímabilið 1939-40 og stóð uppi sem sigurvegari, eftir að hafa unnið alla leiki sína í riðlinum. Þegar hefðbundnu deildafyrirkomulagi var komið á tímabilið 1947-1948 voru Valsarar vitaskuld með og gott betur en allar götur síðan hefur Valur átt lið í efstu deild karla í handknattleik. Með Val hafa margir fræknir handknattleiksmenn leikið, ber þar helst að nefna silfurverðlaunahafa Íslands á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008, þá Snorra Stein Guðjónsson og Ólaf Stefánsson. Að auki má nefna Guðmund Hrafnkelsson, Valdimar Grímsson, Roland Val Eradze og Dag Sigurðsson. Núverandi þjálfari liðsins er Óskar Bjarni Óskarsson og honum til aðstoðar er Anton Rúnarsson. Hlynur Morthens er markmannsþjálfari liðsins og Jón Gunnar Kristjánsson sjúkraþjálfari.
Í Evrópukeppnum
[breyta | breyta frumkóða]Í byrjun áttunda áratugar síðasta aldar varð til hin svokallaða „mulningsvél“ en höfundur hennar er talinn vera Reynir Ólafsson sem tók við þjálfun karlaliðs Vals árið 1970. Hann mun strax hafist handa við að bæta varnarleik liðsins sem þótti ekki góður. Reyni tókst vel að gera þær lagfæringar sem þurfti og fljótlega þótti Valsvörnin óárennileg og fékk fyrir vikið fyrrgreint viðurnefni. „Mulningsvélin“ náði þó ekki að skila Íslandsbikarnum heim á Hlíðarenda fyrr en 1973 en það ár varð kvennalið Vals einnig Íslandsmeistari og því um stórt ár að ræða hjá handknattleiksfólki Vals. „Mulningsvélin“ varð síðan Íslandsmeistari þrjú ár í röð 1977, 1978 og 1979, þótt nokkuð hafi verið farið að kvarnast úr hópnum undir það síðasta.
Stærsta afrek „Mulningsvélarinnar“ var án efa að komst í úrslit í Evrópukeppni meistaraliða árið 1980. Frækilegir sigrar unnust á leiðinni í úrslit, m.a. voru spænsku meistararnir í Atlético Madrid lagðir að velli í undanúrslitum. Eftir þriggja marka tap ytra í fyrri leiknum, 24:21, vann Valur heimaleikinn sem fram fór í Laugardalshöll snemma árs 1980, 18:15, í einum eftirminnilegasta handboltaleik sem þar hefur farið fram. Stefán Gunnarsson skoraði 18. og síðasta markið og Ólafur Benediktsson fór á kostum í markinu og átti ekki hvað sístan þátt í að Valsliðið náði að tryggja sér þriggja marka sigur sem nægði til að komast í úrslit.
Þegar kom að úrslitaleiknum við þýska liðið Grosswallstadt ákvað Valur að selja heimaleikjaréttinn af fjárhagsástæðum. Úrslitaleikurinn var háður í Ólympíuhöllinni í München og tapaðist, 21:12. Valsmenn komust nærri því að leika afrek sitt eftir tímabilið 2016-17 og komast í úrslitaleik í Evrópukeppni, en þá duttu þeir út í undanúrslitum áskorendabikars Evrópu í handknattleik. Árið 2024 sigruðu Valsmenn Evrópubikarkeppni í handknattleik og urðu þar með fyrsta íslenska liðið í boltaíþrótt til þess að sigra Evrópukeppni.
Tímabil | Keppni | Umferð | Mótherji | Heima | Úti | Úrslit |
---|---|---|---|---|---|---|
1973-74 | Evrópukeppni Meistaraliða | 1. Umferð | Vfl Gummersbach | 10-11 | 8-16 | 18-27 |
1976-77 | Evrópukeppni Bikarhafa | 32-liða úrslit | HC Red Boys Differdange | 25-11 | 29-12 | 54-23 |
16-liða úrslit | WKS Slask Wroclaw | 20-22 | 18-22 | 38-44 | ||
1977-78 | Evrópukeppni Meistaraliða | 32-liða úrslit | Kyndil | 23-15 | 30-16 | 53-31 |
16-liða úrslit | Honvéd Budapest | 23-35 | 25-22 | 48-57 | ||
1978-79 | Evrópukeppni Meistaraliða | 32-liða úrslit | IL Refstad | 14-12 | 14-16 | 28-28(ú) |
16-liða úrslit | Dinamo Bucharest | 19-25 | 20-20 | 39-45 | ||
1979-80 | Evrópukeppni Meistaraliða | 16-liða úrslit | Brentwood | 32-19 | 38-14 | 70-33 |
8-liða úrslit | IK Drott | 18-19 | 18-16 | 36-35 | ||
Undanúrslit | Atlético Madrid | 18-15 | 21-14 | 36-32 | ||
Úrslit | Grosswallstadt | 12-21 | ||||
1984-85 | Evrópukeppni Félagsliða | 1. Umferð | Ystad | 20-17 | 19-23 | 39-40 |
1985-86 | Evrópukeppni Félagsliða | 1. Umferð | Kolbotn | 22-20 | 18-20 | 40-40(ú) |
16-liða úrslit | Lugi | 16-22 | 15-15 | 31-37 | ||
1986-87 | IHF-Bikarinn | 1. Umferð | Urædd | 14-16 | 20-25 | 34-41 |
1988-89 | Evrópukeppni Meistaraliða | 1. Umferð | Kyndil | 27-26 | 24-17 | 51-43 |
16-liða úrslit | ZMC Amicitia Zurich | 16-15 | 25-22 | 41-38 | ||
8-liða úrslit | SC Magdeburg | 22-16 | 15-21 | 37-37(ú) | ||
1989-90 | Evrópukeppni Meistaraliða | 1. Umferð | Kyndil | 29-14 | 26-27 | 55-41 |
16-liða úrslit | Rába ETO Györ | 21-31 | 23-29 | 44-60 | ||
1990-91 | Evrópukeppni Bikarhafa | 1. Umferð | Sandefjord | 22-20 | 21-25 | 43-45 |
1991-92 | Evrópukeppni Meistaraliða | 1. Umferð | IK Drott | 27-24 | 28-27 | 55-51 |
16-liða úrslit | Hapoel Rishon Lezion | 25-20 | 27-28 | 52-48 | ||
8-liða úrslit | FC Barcelona | 19-23 | 15-27 | 34-50 | ||
1992-93 | Evrópukeppni Bikarhafa | 1. Umferð | Stavanger | 24-22 | 34-25 | 58-47 |
16-liða úrslit | Klaipeda | 28-24 | 21-22 | 49-46 | ||
8-liða úrslit | TUSSEM Essen | 27-25 | 14-23 | 41-48 | ||
1993-94 | Evrópukeppni Meistaraliða | 1. Umferð | Tatra Koprivnice | 22-18 | 23-23 | 45-41 |
16-liða úrslit | HK Sandefjord | 25-22 | 21-24 | 46-46(ú) | ||
1994-95 | Evrópukeppni Meistaraliða | 1. Umferð | Kolding | 22-26 | 27-27 | 49-53 |
1995-96 | Evrópukeppni Meistaraliða | 32-liða úrslit | CSKA Moskva | 23-23 | 21-20 | 44-43 |
16-liða úrslit | ABC Braga | 25-23 | 25-29 | 50-52 | ||
1996-97 | Evrópukeppni Meistaraliða | 1. Umferð | Shakhtar Donetsk | 20-19 | 16-27 | 36-46 |
2004-05 | Evrópukeppni Félagsliða | 1. Umferð | Grasshopper Zurich | 28-28 | 21-23 | 49-51 |
2005-06 | Evrópukeppni Félagsliða | 1. Umferð | HC Tbilisi | 51-15 | 47-13 | 98-28 |
2. Umferð | Sjunda | 28-31 | 33-27 | 61-58 | ||
3. Umferð | Skövde | 24-22 | 28-35 | 52-57 | ||
2007-08 | Meistaradeildin | Forkeppni | Viking Malt | 28-19 | 33-24 | 61-43 |
Riðlakeppni | Celje Lasko | 24-34 | 4. sæti í riðli | |||
Vfl Gummersbach | 24-33 | |||||
MKB Veszprém | 28-41 | |||||
Celje Lasko | 29-28 | |||||
Vfl Gummersbach | 22-34 | |||||
MKB Veszprém | 24-31 | |||||
2016-17 | Áskorendabikar EHF | 32-liða úrslit | Haslum Handballklubb | 31–24 |
25–25 |
56-49 |
16-liða úrslit | RK Partizan 1949 | 21–21 |
24–24 |
45-45 | ||
8-liða úrslit | RK Sloga Požega | 30–27 |
29–26 |
59-53 | ||
Undanúrslit | AHC Potaissa Turda |
30–22 |
23–32 |
53-54 |
Núverandi leikmenn meistaraflokks karla í handknattleik
[breyta | breyta frumkóða]- Tímabilið 2023-2024
|
|
Konur
[breyta | breyta frumkóða]Á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1947 voru Kvennaflokkar Vals settir á legg og fljótlega eftir það hófust æfingar í handknattleik þeirra á meðal. Það var hinsvegar ekki fyrr en á sjöunda áratug 20. aldar sem félagið hrósaði fyrst sigri á Íslandsmótinu í handknattleik, nánar tiltekið 1962. Þá hófst sannkallað blómaskeið þar sem Valskonur urðu meistarar ellefu sinnum á þrettán árum, þar af sex ár í röð frá 1964 til og með 1969. Þjálfari liðsins á þessum árum var Þórarinn Eyþórsson og meðal leikmanna Vals á þessum árum var ein öflugasta handknattleikskona landsins, fyrr og síðar, Sigríður Sigurðardóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins sem varð Norðurlandameistari 1964. Sama ár var Sigríður kjörin íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna, sú fyrsta úr röðum handknattleiksmanna og varð einnig fyrsta konan til að hreppa verðlaunin. Alls hefur kvennalið félagsins unnið Íslandsmótið 17 sinnum nú síðast tímabilið 2018-2019. Núverandi þjálfari liðsins er Ágúst Þór Jóhannsson en honum til aðstoðar er Dagur Snær Steingrímsson. Björg Elín Guðmundsdóttir er liðsstjóri, Sólveig Lóa Höskuldsdóttir sjúkraþjálfari og Hlynur Morthens markmannsþjálfari liðsins.
Í Evrópukeppnum
[breyta | breyta frumkóða]Rétt eins og hjá karlaliði Vals í handknattleik er um auðugan garð að gresja þegar litið er á árangur handknattleikskvenna í Val m.t.t. Evrópukeppna, ber þar helst að nefna tímabilið 2005-06, en þá komust Valsstúlkur í undanúrslit Áskorendabikars EHF, eftir sigra gegn grísku og svissnesku liði.
Tímabil | Keppni | Umferð | Mótherji | Heima | Úti | Samanlagt |
---|---|---|---|---|---|---|
2004–05 | EHF-Bikarinn | Fyrsta umferð | Önnereds HK | 24–35 | 26–30 | 50–65 |
2005–06 | Áskorendabikarinn | 16-liða úrslit | HC Athinaikos Athens | 37–29 | 24–26 | 61–55 |
8-liða úrslit | LC Brühl Handball | 25–21 | 32–27 | 57–48 | ||
Undanúrslit | CSU Tomis Constanța | 35–28 | 25–37 | 60–65 | ||
2007–08 | Áskorendabikarinn | Þriðja umferð | ŽORK Napredak Kruševac | 40–18 | 34–20 | 74–38 |
16-liða úrslit | RK Lasta Radnički Petrol Beograd | 31–30 | 31–26 | 62–56 | ||
8-liða úrslit | Mérignac Handball | 24–23 | 30–36 | 54–58 | ||
2010–11 | EHF-Bikarinn | Fyrsta umferð | IUVENTA Michalovce | 26–21 | 30–30 | 56–51 |
Önnur umferð | VfL Oldenburg | 28–26 | 25–36 | 53–62 | ||
2012–13 | EHF-Bikarinn | Önnur umferð | Valencia Aicequip | 37–25 | 27–22 | 64–47 |
Þriðja umferð | HC Zalău | 24–23 | 21–22 | 45–45 | ||
2018–19 | Áskorendabikarinn | Þriðja umferð | Virto / Quintus | 20–21 | 20–24 | 40–45 |
Núverandi leikmenn meistaraflokks kvenna í handknattleik
[breyta | breyta frumkóða]- Tímabilið 2023-2024
|
|
Körfuknattleikur
[breyta | breyta frumkóða]Karlar
[breyta | breyta frumkóða]Körfuknattleiksdeild Vals má rekja aftur til ársins 1970 þegar K.F.R. sameinaðist Val. Tíu árum eftir sameininguna komu fyrstu stóru titlarnir í hús þegar Valur vann Íslandsmótið í Körfuknattleik árið 1980. Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn 1979-1980 með sigri á KR 17. mars 1980. Bandaríkjamaðurinn Tim Dwyer stýrði liðinu til sigurs en hann var þá spilandi þjálfari. Tim Dwyer var jafnframt valinn besti erlendi leikmaðurinn þetta tímabil.[67] Á næstu þremur árum bættust þrír titlar í safnið. Bikarmeistaratitlar árin 1981 og 1983 og Íslandsmeistaratitill 1983.
Núverandi leikmenn meistaraflokks karla í körfuknattleik
[breyta | breyta frumkóða]Leikmannahópur Vals í körfuknattleik karla | |||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Leikmenn | Þjálfarar | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
|
|
Konur
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsti Íslandsmeistaratitill kvenna í körfuknattleik vannst í apríl 2019 en liðið varð einnig bikarmeistari sama ár.[68] Annar Íslandsmeistaratitill félagsins í körfuknattleik kvenna bættist í safnið árið 2021.[69]
Núverandi leikmenn meistaraflokks kvenna í körfuknattleik
[breyta | breyta frumkóða]Leikmannahópur Vals í körfuknattleik kvenna | |||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Leikmenn | Þjálfarar | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
|
|
Þekktir leikmenn
[breyta | breyta frumkóða]Pétur Guðmundsson er sennilega þekktasti körfuknattleiksmaðurinn sem Valur hefur alið af sér, en Pétur lék um árabil í NBA deildinni.[70] Sem dæmi um aðra þekkta leikmenn sem hafa leikið með Val eða leika með Val má nefna Helenu Sverrisdóttur, Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinskij og Kristófer Acox.
Íþróttamaður Vals
[breyta | breyta frumkóða]Eftirtaldir aðilar hafa hlotið þann heiður að vera valdir íþróttamenn Vals:
|
|
*- Knattspyrnumaðurinn Bjarni Ólafur Eiríksson hefur oftast allra verið kjörinn Íþróttamaður Vals, þrisvar talsins.
Formenn Vals
[breyta | breyta frumkóða]Eftirtaldir aðilar hafa gengt formennsku Knattspyrnufélagsins Vals:[111][112][113][114][115][116][117]
Ár | Nafn | Ár | Nafn | Ár | Nafn | Ár | Nafn |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1911-14 | Loftur Guðmundsson | 1933-34 | Ólafur Sigurðsson | 1952-57 | Gunnar Vagnsson | 2002-09 | Grímur Sæmundsen |
1914-16 | Árni B. Björnsson | 1934-38 | Frímann Helgason | 1957-62 | Sveinn Zoega | 2009-14 | Hörður Gunnarsson |
1916-18 | Jón Guðmundsson | 1938-39 | Ólafur Sigurðsson | 1962-67 | Páll Guðnason | 2014-15 | Björn Zoega |
1918-20 | Magnús Guðbrandsson | 1939-41 | Sveinn Zoega | 1967-70 | Ægir Ferdinandsson | 2015-18 | Þorgrímur Þráinsson |
1920-22 | Guðbjörn Guðmundsson | 1941-43 | Frímann Helgason | 1970-75 | Þórður Þorkelsson | 2018-21 | Árni Pétur Jónsson |
1922-23 | Guðmundur Kr. Guðmundsson | 1943-44 | Sveinn Zoega | 1975-77 | Ægir Ferdinandsson | 2021- | Lárus Sigurðsson |
1923-28 | Axel Gunnarsson | 1944-46 | Þorkell Ingvarsson | 1977-81 | Bergur Guðnason | ||
1928-31 | Jón Sigurðsson | 1946-47 | Sigurður Ólafsson | 1981-87 | Pétur Sveinbjarnarson | ||
1931-32 | Jón Eiríksson | 1947-50 | Úlfar Þórðarson | 1987-94 | Jón Gunnar Zoega | ||
1932-33 | Pétur Kristinsson | 1950-52 | Jóhann Eyjólfsson | 1994-02 | Reynir Vignir |
Valsblaðið
[breyta | breyta frumkóða]Valsblaðið, félagsblað Knattspyrnufélagsins Vals, kom fyrst út í janúar 1939 en ritstjóri þess og ábyrgðarmaður var Sigurður Ólafsson.[118] Í 1. tölublaði Valsblaðsins sagði m.a. svo um útgáfuna:
„Það hefir oft verið um það rætt innan Vals, að nauðsyn bæri til þess, að félagið gæfi út blað, sem út kæmi nokkurn veginn reglulega. Núverandi stjórn hefir hafist handa um þetta mál, og kemur 1. tölublaðið út hér með.
Fyrirkomulag blaðsins er enn ekki fyllilega ákveðið, en ætlunin er, að það komi fyrst um sinn út 4-6 sinnum á ári og sé minst 8 síður hvert blað. Blaðinu er ætlað að birta greinar og fréttir frá félagsstarfseminni, og ýmsum áhugamálum íþróttamanna. Það verður kostað kapps um að hafa blaðið sem allra fjölbreyttast, fróðlegast og skemmtilegast, svo að allir, sem það lesa, hafi bæði gagn og gaman af.
[...]
Væntanlega á Valsblaðið eftir að vinna félaginu ómetanlegt gagn með því að knýta meðlimina fastari böndum við félagið og vekja þá til starfa, ekki aðeins þá, er iðka knattspyrnu, heldur og þá, er fyrir aldurs sakir eða annara [sic] orsaka eru hættir því.“[119]
Árið 2019 fagnaði Valsblaðið 80 ára útgáfuafmæli.[118] Útgáfa blaðsins var stopul eftir 1940 en blaðið var endurvakið af krafti frá 1958 og hefur komið út árlega frá árinu 1983. Núverandi ritstjóri blaðsins er Guðni Olgeirsson en hann tók við ritstjórn blaðsins af Þorgrími Þráinssyni árið 2003.[120]
Valskórinn
[breyta | breyta frumkóða]Valskórinn var stofnaður haustið 1993. Tildrögin að stofnun Valskórsins má rekja til vígslu Friðrikskapellunnar að Hlíðarenda. Dýri Guðmundsson, knattspyrnumaður og gítarleikari fékk í kjölfarið þá hugmynd að stofna kór til að æfa og syngja í kapellunni. Hann bar hugmyndina undir félagsmálaráð Vals þar sem hann var formaður og fékk hún góðar undirtektir. Gylfi Gunnarsson, tónlistarkennari og liðsmaður Þokkabótar var fyrsti kórstjóri kórsins og þá tók Stefán Halldórsson að sér formennsku í kórnum í upphafi. Kórinn heldur vortónleika á eða nálægt afmælisdegi Vals 11. maí ár hvert og í desember eru haldnir jólatónleikar auk þess sem kórinn syngur með Fóstbræðrum á aðventukvöldi og við útnefningnu íþróttamanns Vals á gamlársdag. Gylfi Gunnarsson stjórnaði kórnum fyrstu sex árin til vors 1999 en þá tók Guðjón Steinar Þorláksson tónlistarkennari við og stjórnaði kórnum til 2004, en frá þeim tíma hefur Bára Grímsdóttir tónskald stýrt kórnum. Kórinn er blandaður kór opinn öllum og æfir vikulega í Friðrikskapellu. Ýmsir þekktir gestasöngvarar hafa sungið með kórnum en þar má t.a.m. nefna Ara Jónsson, Rangar Bjarnason, Egil Ólafsson, Stefán Hilmarsson, Guðrúnu Gunnarsdóttur og Kristján Jóhannsson.[121][122]
Fjósið
[breyta | breyta frumkóða]Fjósið er félagsheimili Knattspyrnufélagsins Vals. Þegar Valur samdi um kaup á jörðinni Hlíðarenda þann 10. maí 1939 fylgdu þrjár byggingar með í kaupum en mestu munaði þar um fjósið, sem upphaflega var byggt árið 1916 og notað var sem búningsklefi, og hlöðuna, sem fékk hlutverk félagsheimilis og skrifstofu félagsins.
Árið 1948 vígði Séra Friðrik Friðriksson fjósið formlega sem félagsheimili. Næstu fjörutíu árin þjónaði þessi húsakostur félaginu og fjölmargir hópar íþróttafólks utan af landi nutu gestrisni Valsmanna þegar þeir fengu inni til gistingar. Undir það síðasta var viðhaldi húsana mjög ábótavant og notkunin var nánast engin.
Í árslok 2016 var skipuð nefnd til að halda utan um endurreisn fjóssins. Nefndin fékk Björn G. Björnsson leikmyndahönnuð í lið með sér, í tengslum við uppsetningu sögusýningar, sem búið er að setja upp í Fjósinu. 25. maí 2018, þegar 150 ár voru liðin frá fæðingu séra Friðriks Friðrikssonar var Fjósið formlega opnað.[123]
Fjósið gegnir hlutverki klúbbhúss og félagsheimilis þar sem yngri flokkar, foreldrar og lið í öllum deildum Vals halda fundi. Stuðningsmenn Vals koma reglulega saman í Fjósinu fyrir heimaleiki Vals en þar er gjarnan boðið upp á léttar veitingar. Leikmenn meistaraflokka félagsins og mótherjar fara einnig reglulega í mat í Fjósinu eftir leiki. Fjósið er að auki leigt út fyrir hvers kyns mannfagnaði eins og afmæli, fermingarveislur, erfidrykkjur, árshátíðir og jólahlaðborð auk þess sem Fjósið er leigt út sem fundaraðstaða fyrir fyrirtæki og rúmar allt frá 10-100 manns í fundaruppsetningu. Salurinn tekur við um 20-80 manns í sitjandi veislur og um 50-180 manns í standandi veislur. Þá er einnig unnt að horfa á útsendingar frá ýmsum knattspyrnuleikjum og öðrum íþróttaviðburðum í beinni útsendingu í Fjósinu. Gunnar Kristjánsson er núverandi Fjósameistari og veitingastjóri.[124]
Titlar
[breyta | breyta frumkóða]Knattspyrna karla
[breyta | breyta frumkóða]- 2008, 2011,2020
- 1977, 1979, 1988, 1991, 1992, 1993, 2006, 2008, 2016, 2017, 2018.
Knattspyrna kvenna
[breyta | breyta frumkóða]- 1984, 1985, 1986, 1987, 1988, 1990, 1995, 2001, 2003, 2006, 2009, 2010, 2011, 2022, 2024
- 2003, 2007, 2010
Handknattleikur karla
[breyta | breyta frumkóða]- Bikarmeistarar: 13[134]
- Meistarar meistarana: 1[135]
- Evrópubikarmeistarar: 1
Handknattleikur kvenna
[breyta | breyta frumkóða]- Íslandsmeistarar: 19[132]
- 1962, 1964, 1965, 1966, 1967, 1968, 1969, 1971, 1972, 1973, 1974, 1983, 2010, 2011, 2012, 2014, 2019, 2023, 2024
- 1988, 1993, 2000, 2012, 2013, 2014, 2019, 2022, 2024
Körfuknattleikur karla
[breyta | breyta frumkóða]- 1980, 1983, 2022, 2024
- Bikarmeistarar: 4[140]
- 1980, 1981, 1983, 2023
Körfuknattleikur kvenna
[breyta | breyta frumkóða]- 2019, 2021, 2023
- Bikarmeistarar: 1[143]
- 2019
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Um Val - Saga - Knattspyrnufélagið Valur“. www.valur.is. Sótt 19. febrúar 2021.
- ↑ „Valur Íslandsmeistari: Sögulegt á Hlíðarenda“. www.frettabladid.is. Sótt 19. febrúar 2021.
- ↑ Guðni Olgeirsson (desember 2023). „Valsblaðið 2023“ (PDF). Knattspyrnufélagið Valur. Sótt mars 2024.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 1. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 12. febrúar 2021.
- ↑ „Um Val - Saga - Knattspyrnufélagið Valur“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ 7,0 7,1 Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ 8,0 8,1 8,2 8,3 Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 1. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 2. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 12. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ Skátafélagið Væringjar 25 ára. Skátafélagið Væringjar. 1938. bls. 33. Sótt 23. júlí 2022.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 12. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 12. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 12. febrúar 2021.
- ↑ „Valur-KR upp á líf og dauða“. Lemúrinn. 4. maí 2013. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ „Spark í spegli tímans“. www.mbl.is. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 11. mars 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 12. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 6. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 15. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 1. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 1. febrúar 2021.
- ↑ „Biskup vígði Friðrikskapellu“. Morgunblaðið. 28. maí 1993. Sótt 20. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Árbók Háskóla Íslands - Árbók 1918-1919 (01.01.1919) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Guðjón Guðlaugsson“. Alþingi. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ „Hugsað til hundrað ára“. www.mbl.is. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ „Valsblaðið - 12. Tölublað (01.05.1959) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ „Valsblaðið - 30. Tölublað (11.05.1972) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ „Valsblaðið - 3. Tölublað (01.04.1941) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ 22911024. „Valsblaðið 2019“. Issuu (enska). Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 11. mars 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. maí 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. febrúar 2021.
- ↑ „Vængjum þöndum í heila öld“. www.mbl.is. Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ „"Mannvirkin skapa grunn til framtíðar"“. www.mbl.is. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 23. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 4. maí 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 18. júní 2021.
- ↑ „Valsblaðið - 29. Tölublað (24.12.1970) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 20. janúar 2021.
- ↑ 50,0 50,1 „Valsblaðið 2020 WEB.pdf“. Scribd (enska). Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 27. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 18. júní 2021.
- ↑ „Biskup vígði Friðrikskapellu“. www.mbl.is. Sótt 18. júní 2021.
- ↑ „Valur fallinn í fyrsta sinn“. www.mbl.is. Sótt 20. janúar 2021.
- ↑ „Valsblaðið - 25. Tölublað (24.12.1966) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Morgunblaðið - 204. tölublað (19.09.1968) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ UEFA.com. „Valur-Benfica 1968 History | UEFA Champions League“. UEFA.com (enska). Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „1968: Manchester Utd win European Cup“ (bresk enska). 29. maí 1968. Sótt 24. janúar 2021.
- ↑ „Saga Heimsmeistaramótsins - HM á Englandi 1966“. www.fotbolti.net. Sótt 20. janúar 2021.
- ↑ 61,0 61,1 „Markahæstu leikmenn í landsdeildum - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. febrúar 2021. Sótt 21. janúar 2021.
- ↑ „Fótbolti - Titlar - Knattspyrnufélagið Valur“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Valur Íslandsmeistari kvenna í knattspyrnu“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Valur Íslandsmeistari kvenna í fótbolta“. RÚV. 21. september 2019. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Bikarmeistarar meistaraflokka - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2021. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Hallgrímur ráðinn aðstoðarþjálfari Vals“. www.mbl.is. Sótt 18. mars 2024.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 29. janúar 2021.
- ↑ „Valur Íslandsmeistari kvenna í körfubolta 2019“. www.valur.is. Sótt 29. janúar 2021.
- ↑ „Valur er Íslandsmeistari í körfubolta 2021“. RÚV. 2. júní 2021. Sótt 6. júní 2021.
- ↑ „Pétur Karl Guðmundsson“. www.isi.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „ÍÞRÓTTIR Íþróttamaður Vals árið 1993 uðmundur Hrafnkelsson markmaður Vals og“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Katrín Jónsdóttir er íþróttamaður Vals 2008“. www.fotbolti.net. Sótt 19. janúar 2021.[óvirkur tengill]
- ↑ „Dóra María íþróttamaður Vals 2009“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Anna Úrsúla íþróttamaður Vals 2011“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Guðný Jenný íþróttamaður Vals 2012“. RÚV. 31. desember 2012. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Guðný Jenný Ásmundsdóttir íþróttamaður Vals 2012“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Haukur Páll Sigurðsson er Íþróttamaður Vals 2013“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Haukur Páll íþróttamaður Vals 2013“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Kristín íþróttamaður Vals“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Kristín Guðmundsdóttir er íþróttamaður Vals 2014“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Bjarni Ólafur íþróttamaður Vals“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Bjarni Ólafur Eiríksson íþróttamaður Vals árið 2016“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Bjarni íþróttamaður Vals í þriðja sinn“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Orri Freyr Gíslason íþróttamaður Vals 2017“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Fyrirliði Vals hættir“. RÚV. 13. maí 2019. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Birkir Már Sævarsson íþróttamaður Vals 2018“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Birkir Már íþróttamaður ársins hjá Val“. www.fotbolti.net. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Helena íþróttamaður ársins hjá Val“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Helena Sverrisdóttir er íþróttamaður Vals 2019“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Anton íþróttamaður Vals 2020“. www.mbl.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Anton Rúnarsson íþróttamaður Vals 2020“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Alexander Örn Júlíusson er íþróttamaður Vals 2021“. www.valur.is. Sótt 13. janúar 2022.
- ↑ „Pavel Ermolinski er íþróttamaður Vals 2022“. www.valur.is. Sótt 6. janúar 2023.
- ↑ „Arna Sif Ásgrímsdóttir er íþróttamaður Vals 2023“. www.valur.is. Sótt 3. september 2024.
- ↑ „Valsblaðið - 1. Tölublað (01.05.1991) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 2. febrúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Þorgrímur kjörinn formaður Vals - Vísir“. visir.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Aðalfundur Vals - Breytingar á stjórnum félagsins“. www.valur.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ 118,0 118,1 „Valsblaðið 2019“. www.valur.is. Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ „Valsblaðið sameinar“. www.mbl.is. Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ „Valsblaðið - 65. árgangur 2013 (01.05.2013) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 25. mars 2024.
- ↑ „Morgunblaðið - 107. tölublað (08.05.2019) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 25. mars 2024.
- ↑ „Formleg opnun Fjóssins – Knattspyrnufélagið Valur“. www.valur.is. Sótt 21. júní 2021.
- ↑ „Félagsheimili með sögu og sál“. www.frettabladid.is. Sótt 21. júní 2021.
- ↑ 125,0 125,1 „Knattspyrnudeild - Titlar“. valur.is. Sótt 24. ágúst 2013.
- ↑ „Íslandsmeistarar í karlaflokkum - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Sótt 21. janúar 2021.
- ↑ „Bikarmeistarar meistaraflokka - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2021. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Deildabikarinn - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Deildabikarinn - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Bikarmeistarar meistaraflokka - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2021. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Deildabikarinn - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ 132,0 132,1 „Handknattleiksdeild - Titlar“. valur.is. Sótt 24. ágúst 2013.
- ↑ „Valur Íslandsmeistari eftir öruggan sigur í Hafnarfirði“. www.mbl.is. Sótt 18. júní 2021.
- ↑ „Íslands- og bikarmeistarar í meistaraflokki“. HSÍ. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Dagblaðið Vísir - DV - 135. tölublað (06.10.2009) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 26. janúar 2021.
- ↑ „Íslands- og bikarmeistarar í meistaraflokki“. HSÍ. Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Valur bikarmeistari í áttunda sinn“. www.mbl.is. Sótt 14. mars 2022.
- ↑ „Körfuknattleiksdeild - Titlar“. valur.is. Sótt 24. ágúst 2013.
- ↑ „KKÍ | Meistaratitlar karla“. www.kki.is (enska). Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „KKÍ | Bikarmeistarar karla“. www.kki.is (enska). Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „KKÍ | Meistaratitlar kvenna“. www.kki.is (enska). Sótt 19. janúar 2021.
- ↑ „Valur Íslandsmeistari í körfuknattleik kvenna 2021“. www.valur.is. Sótt 7. júní 2021.
- ↑ „KKÍ | Bikarmeistarar kvenna“. www.kki.is (enska). Sótt 19. janúar 2021.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Heimasíða félagsins
- Knattspyrnufélagið Valur 35 ára; grein í Morgunblaðinu 1946
- IcelandFootball.net - Valur Reykjavík
- https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1379092/ - Handknattleikur í Val
- https://www.valur.is/um-val/saga.aspx - Saga félagsins
- https://www.valur.is/media/13442/valsbladid_2006.pdf - Evrópuævintýri mfl. kvk.
|
|
|