Dómkirkjan í Brúnsvík
Dómkirkjan í Brúnsvík var reist að tilstuðlan Hinriks ljóns á 12. öld og hvílir hann sjálfur í henni. Í kirkjunni er stórfenglegt grafhýsi þar sem fjölmargir hergotar og furstar hvíla.
Saga dómkirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Framkvæmdir hófust 1173 eftir að Hinrik ljón sneri heim úr pílagrímsferð til landsins helga. Hinrik lést síðan 1195 var lagður til hvíldar í ófullgerðri kirkjunni, ásamt eiginkonu sinni Matthildi frá Englandi (dóttur Hinriks II). Kirkjan var vígð 1226 og helguð heilögum Blasíusi og Jóhannesi skírara. Þessir tveir dýrlingar voru ákveðnir strax í upphafi framkvæmda. En við víglsuna var heilögum Thomas Becket frá Kantaraborg bætt við sem verndardýrlingi kirkjunnar. 1531 varð kirkjan lútersk er siðaskiptin fóru fram í Brúnsvík og er kirkjan það enn í dag. Nasistar reyndu að notfæra sér ímynd Hinriks ljóns sér til framdráttar. Þegar steinkista hans var opnuð 1935 vegna fornleifarannsókna, kom Hitler, ásamt Heinrich Himmler og Hermann Göring, í stutta heimsókn til Brúnsvíkur til að berja Hinrik augum. Hitler breytti áformum uppgraftarins og skipaði svo fyrir að ekkert yrði gert án hans samþykkis. Í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari skemmdist dómkirkjan aðeins óverulega. Það má heita kraftaverki líkast, því 90% miðborgarinnar eyðilagðist. Skemmdir urðu hins vegar á framhliðinni, þakinu og gluggum. Í dag skoða um 350 þús manns kirkjuna árlega og er hún þar með meðal vinsælustu kirkna Þýskalands.
Listaverk
[breyta | breyta frumkóða]Veggmálverk
[breyta | breyta frumkóða]Milli 1230 og 1250, eftir að kirkjan var vígð, voru veggir og loft kirkjunnar skreytt með veggmyndum (Secco-málverk). Myndir þessar voru yfirmálaðar og fundust ekki aftur fyrr en 1845 þegar verið var að gera lagfæringar á kirkjunni. Þá kom í ljós að aðeins um 80% myndanna voru heilleg og voru þær lagfærðar. Í sumum tilfellum var jafnvel bætt við þær, en um miðja 19. öld var ekki óvenjulegt að gömul listaverk væru stækkuð og fegruð. Myndirnar sýna æviskeið ýmissa helgra manna, s.s. verndardýrlinga kirkjunnar. Einnig er gjarnan notað myndefni úr Biblíunni og þá aðallega myndir af Jesú, postulunum og öðrum.
Imervard-krossinn
[breyta | breyta frumkóða]Imervard-krossinn er ein merkasta rómanska styttan í Þýskalandi. Talið er að hún sé frá árinu 1150 og er því töluvert eldri en kirkjan sjálf. Hæðin er 2,77 m og breiddin 2,66 m. Styttan er af Jesú hangandi á krossinum, en án þyrnikórónu. Hann er ekki sýndur í písl sinni, heldur sem fagnandi og er klæddur konungsklæðum. Hendurnar eru lausar á, enda voru þær tálgaðar sér og síðan settar á búkinn. Upphaflega var styttan vel máluð, en í dag eru litinir orðnir fölir. Höfuð Jesú er holt og hægt er að opna það. Það var helgriskrín. Helgu hlutirnir voru fjarlægðir 1881 og settir í Maríualtarið í sömu kirkju. Á beltinu er lítið innskrift: IMERVARD ME FECIT, sem merkir: Imervard skapaði mig. Ekki er vitað hver þessi Imervard var. Innskriftin var upphaflega falin á bak við gullslegna málmhúð, sem í dag er horfin. Krossinn var upphaflega í grafhvelfingu kirkjunnar, en var hengd upp í skipinu 1956.
Maríualtarið
[breyta | breyta frumkóða]Maríualtarið er einn merkasti gripur kirkjunnar. Það var vígt 1188 og er eina miðaldaaltarið sem lifði af í 800 ára sögu kirkjunnar. Öll önnur ölturu voru eyðilögð í siðaskiptunum eða eru týnd. Altarið sjálft er 450 kg granítplata sem hvílir á 5 bronssúlum sem allar eru 95 cm á hæð. Granítið er frá Tournai í Belgíu. Miðsúlan er hol og er helgriskrín. 1709 var helgiskrínið opnað og helgigripirnir gefnir klaustrinum Corvey fyrir vestan Brúnsvík (Norðurrín-Vestfalía í dag). Í súlunni eru hins vegar enn geymdir nokkrir helgigripir sem komu úr Ivervard-krossinum í sömu kirkju. Litlar upplýsingar er hins vegar að fá hvers eðlis þessir gripir eru.
7 arma ljósastikan
[breyta | breyta frumkóða]Annar gripur sem er eldri en kirkjan sjálf er hin 7 arma ljósastika. Hún kemur fyrst fram 1196 og er talið að hún hafi verið smíðuð um 1190. Stikan er gerð úr 77 minni hlutum úr bronsi sem festir eru saman. Þannig er hún tæplega 5 metra há og vegur rúmlega 400 kg. Aðeins er vitað um þrjá aðra slíka gripi frá miðöldum. 1728 var ljósastikan tekin í sundur og geymd í geymslum kirkjunnar. Ástæðan fyrir því er sú að þá fóru viðgerðir fram í kirkjunni og sett var upp nýtt altari. Álitið var að ljósastikan myndi skyggja á nýja altarið og því var hún ekki sett upp aftur. Þegar hermenn Napoleons stálu listaverkum úr kirkjum landsins, létu þeir ljósastikuna í friði, þar sem þeir áttuðu sig ekki á fegurð og umfang hennar í geymslunni. Það var ekki fyrr en 1830 að ljósastikan var sett upp á ný, en á nýjum stað. Nasistar voru lítt hrifnir af þessu listaverki, enda minnir það á eitt helsta tákn Gyðinga. Þeir huldu því ljósastikuna með hakakross-fánanum í fyrstu, en settu hana síðar niður í grafhvelfinguna. Meðan á loftárásum stóð var ljósastikan geymd í annarri og öruggari byggingu. Hún var sett upp aftur strax eftir stríð.
Grafhvelfing
[breyta | breyta frumkóða]Í kirkjunni er nokkuð stór grafhvelfing. Þar hvíla furstar úr Welfen-ættinni frá upphafi og allar götur til upphafs 18. aldar. Auk furstanna hvíla þar eiginkonur og ættingjar furstanna. Líkin eru í kistum sem gerð eru úr ýmsu efni. Af furstum má helst nefna Hinrik ljón og eiginkonu hans, Matthildi frá Englandi. Hinrik er einn merkasti hertogi síns tíma og var frændi Friðriks Barbarossa keisara. Hann er einnig sá sem lét reisa dómkirkjuna. Hinrik og Matthildur hvíla hins vegar ekki í grafhvelfingunni sjálfri, heldur í kirkjuskipinu fyrir framan Maríualtarið. Þar eru þau í tveimur samliggjandi steinkistum. Á lokinu eru Hinrik og Matthildur höggvin úr steini í líkamsstærð. Hinrik heldur á sverði í hægri hendi, en í þeirri vinstri heldur hann á litlu módeli af dómkirkjunni.
Þjóðsaga
[breyta | breyta frumkóða]Einn hliðarinngangur að dómkirkjunni er hin svokalla Ljónshurð (Löwenportal) og er í dag elsta hurðin í kirkjunni. Þar í grjótinu og málmklæðningunni eru rákir að finna sem þjóðsagan segir að sé kattarklór. Sagan segir að það var bronsljónið sem Hinrik ljón setti upp fyrir framan kirkjuna sem hafði klórað í hurðina. Þegar Hinrik ljón lést 1195 var líkinu komið fyrir í dómkirkjunni. Bronsljónið hafi þá gengið af stalli sínum og klórað í hurðina til að reyna að komst inn og finna eiganda sinn. Í dag er talið að rákirnar séu eftir sverð og lensur hermanna sem reyndu að brýna vopnin sín.
Annað markvert
[breyta | breyta frumkóða]Á austurhlið dómkirkjunnar er fallbyssukúla föst í múrnum. Fyrir neðan hana er meitlað ártalið 1615 í vegginn og því er talið að kúlan hafi komið úr fallbyssu hertogans Friðriks Ulrichs sem sat um Brúnsvík 1615 og skaut með fallbyssum á borgina.
Gallerí
[breyta | breyta frumkóða]-
Kistur í grafhvelfingunni
-
Steinkistur Hinriks ljóns og Matthildar
-
Ljónshurðin er með kattarklór
-
Fallbyssukúla í múrveggi kirkjunnar
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Braunschweiger Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.