Fara í innihald

Buffalo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Buffalo
Buffalo er staðsett í Bandaríkjunum
Buffalo

42°54′N 78°50′V / 42.900°N 78.833°V / 42.900; -78.833

Land Bandaríkin
Íbúafjöldi 258.612 (2017)
Flatarmál 136 km²
Póstnúmer 142xx
Vefsíða sveitarfélagsins http://www.city-buffalo.com
Buffalo að kvöldi

Buffalo er næstfjölmennasta borg New York-fylkis í Bandaríkjunum og 81. fjölmennasta borg Bandaríkjanna. Íbúar eru um 260 þúsund. Borgin er staðsett í vesturhluta New York-fylkis við strendur Erie-vatns, rétt við Niagara-fljót. Buffalo er stærsta sveitarfélagið á Buffalo-Niagarafossa-stórborgarsvæðinu þar sem búa um 1,2 milljónir. Borgin er höfuðstaður Erie-sýslu. Borgin er mikilvægur verslunarstaður við landamæri Bandaríkjanna og Kanada.

Fyrir 17. öld bjuggu Írókesar á svæðinu þar sem Buffalo stendur. Síðar tóku franskir landnemar að setjast þar að. Borgin óx hratt á 19. og 20. öld vegna innflytjenda sem komu til að vinna við Erie-skurðinn og járnbrautirnar. Borgin naut þess að vera staðsett við helstu verslunarleiðir til Miðvesturríkjanna. Korn-, stál- og bílaiðnaður einkenndu efnahagslíf borgarinnar á 20. öld. Hnignun iðnaðar á síðari helmingi 20. aldar leiddi til fólksfækkunar. Stærsti geiri atvinnulífs Buffalo eftir Samdráttinn mikla í upphafi 21. aldar er þjónusta, með áherslu á heilbriðisþjónustu, rannsóknir og háskólamenntun.

Buffalo stendur á austurbakka Erie-vatns við upptök Niagara-fljóts, 26 km sunnan við Niagara-fossa. Borgin rafvæddist snemma og fékk viðurnefnið „ljósaborgin“. Borgin er líka þekkt fyrir borgarskipulag Joseph Ellicott frá upphafi 19. aldar og almenningsgarða Frederick Law Olmsted frá síðari hluta 19. aldar. Í borginni eru mörg dæmi um merkilega byggingarlist frá öllum tímum. Menning borgarinnar er blanda af hefðum frá Miðvesturríkjunum og Norðausturríkjunum. Meðal árlegra bæjarhátíða eru Taste of Buffalo og Allentown Art Festival. Tvö atvinnumannalið eru í borginni, fótboltaliðið Buffalo Bills og íshokkíliðið Buffalo Sabres.

Buffalo dregur nafn sitt af Buffalo-læk sem rennur út í Buffalo-á. Breski verkfræðingurinn John Montresor minntist á Buffalo-læk í dagbók sinni 1764. Það er hugsanlega elsta vísunin í þetta heiti.

Nokkrar kenningar um það hvernig lækurinn fékk nafnið hafa verið settar fram. Hugsanlega er það afbökun á franska heitinu Beau Fleuve („falleg á“) en það gæti líka verið dregið af heiti ameríkuvísundarins sem kann að hafa lifað í vesturhluta New York-fylkis.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Buffalo stendur á austurströnd Erie-vatns við staðinn þar sem Niagara-fljót rennur úr vatninu til norðurs í átt að Niagara-fossum og Ontario-vatni. Hinum megin við ána er bærinn Fort Erie. Borgin er 80 km suðsuðaustan við Torontó í Kanada. Borgin er fremur flatlend en í suðurhverfunum, Southtowns, taka Bostonhæðir við og síðan Appalasíufjöll. Norður og austur af borginni er flatlendi. Jarðfræði svæðisins einkennist af setlögum, kalksteini og leirsteini.

Þótt þar hafi ekki orðið stórir jarðskjálftar á sögulegum tíma situr Buffalo á skjálftabelti við sunnanverð Vötnin miklu.

Þrír vatnavegir liggja um borgina; Niagara-fljót, Buffalo-á og Buffalo-lækur, Scajaquada-lækur og Black Rock-skipaskurðurinn.

Samkvæmt Manntalsskrifstofu Bandaríkjanna er landsvæði Buffalo 136 km² þar sem 105 km² eru land og afgangurinn vatn.

Gervihnattarmynd af Niagara-eiðinu með Niagara-fossum (í miðju) og Buffalo (til hægri).

Loftslag í Buffalo er rakt meginlandsloftslag (loftslagsbelti Dfb) líkt og annars staðar við Vötnin miklu. Vetur eru snjóþungir en sjaldnast mesti snjórinn í New York-fylki. Snjóhríðin 1977 stafaði af miklum vindi og uppsöfnuðum snjó á ísi lögðu Erie-vatni. Snjókoma verður sjaldan til þess að stöðva starfsemi í borginni en getur valdið tjóni á haustin, eins og í Aphid-storminum 2006. Í nóvember 2016 varð metstormur með 170 cm snjó. Sumrin í Buffalo eru þau sólríkustu í öllum helstu borgum Norðausturríkjanna, en þó með nægri úrkomu fyrir gróður. Sumrin einkennast af mikilli sól og hæfilegum raka og hita. Buffalo nýtur líka jákvæðra áhrifa af nálægðinni við vötnin, eins og svalandi golu sem temprar heitustu sumardagana. Afleiðingin er sú að hitinn fer sjaldan yfir 32°C. Úrkoma er í meðallagi og fellur aðallega á nóttunni. Vegna temprandi áhrifa Erie-vatns er lítið um þrumuveður en mikið um sól í júlí. Úrkoma og hiti aukast í ágúst. Hæsti hiti sem mælst hefur var 37°C 27. ágúst 1948 og lægsti hiti sem mælst hefur var -29°C 9. febrúar 1934 og 2. febrúar 1961.

Buffalovængir

Matargerð í Buffalo einkennist af blöndu matarhefða innflytjenda frá Ítalíu, Írlandi, Þýskalandi, Póllandi og Grikklandi, auk innlendra matarhefða. Árið 2015 setti tímaritið National Geographic Buffalo í þriðja sæti á lista yfir 10 helstu matarborgir heims. Í borginni er að finna veitingastaði sem bjóða upp á kínverskan, þýskan, japanskan, kóreskan, víetnamskan, taílenskan, mexíkóskan, ítalskan, arabískan, indverskan, karabískan og franskan mat, og bandarískan sálarmat frá Suðurríkjunum. Pítsur í Buffalo eru þekktar fyrir að vera miðja vegu milli þunnbotna New York-pítsu og pönnupítsunnar frá Chicago. Meðal þekktra rétta eru beef on weck-kjötlokur, kielbasa-pylsur, karamellufrauð, smjördeigshjörtu, pierogi-dumplingar og fiskur og franskar úr ýsu. Buffalo er líka þekkt fyrir drykk úr loganberjum. Teressa Bellissimo hóf að selja hina frægu kjúklingavængi sem kenndir eru við borgina á veitingastaðnum Anchor Bar árið 1964.

Nokkur þekkt matvælafyrirtæki eru staðsett í Buffalo. Rich Products var stofnað þar 1945 eftir að Robert E. Rich fann upp aðferð við að gera þeyttan jurtarjóma. Fyrirtækið er einn af stærstu atvinnurekendum borgarinnar. Hluti af starfsemi General Mills er í Buffalo og ýmsar þekktar vörur eins og Wheaties og Cheerios eru framleiddar þar. Stærsta hveitimylla fyrirtækisins Archer Daniels Midland er í borginni. Höfuðstöðvar matvælaþjónustufyrirtækisins Delaware North eru í borginni.

Meðal matarhátíða í Buffalo eru Taste of Buffalo og National Buffalo Wing Festival.

Hluti Buffalo-háskóla.

Í Buffalo eru 78 opinberir skólar sem eru flestir reknir af Buffalo Public Schools. Hluti þeirra er einkarekinn fyrir opinbert fé. Árið 2006 voru 41.089 nemendur skráðir í þessa skóla og 1 kennari á hverja 13,5 nemendur. Útskriftarhlutfallið var 52% árið 2008, og hafði hækkað úr 45% árið áður og 50% árið 2006. Meira en 27% kennara eru með meistaragráðu eða hærri gráðu og meðalkennslureynsla þeirra er 15 ár. Á stórborgarsvæðinu starfa 292 skólar með 172.854 nemendur.

Skólakerfið er með svokallaða segulskóla sem reyna að höfða til nemenda með ólíkum áherslum eins og raunvísindakennslu, tvítyngdu námi og frumbyggjanámi. Sérhæfðir skólar eru meðal annars Buffalo Elementary School of Technology, Dr Martin Luther King Jr., Multicultural Institute, International School, Dr. Charles R. Drew Science Magnet, BUILD Academy, Leonardo da Vinci High School, PS 32 Bennett Park Montessori, Buffalo Academy for Visual and Performing Arts (BAVPA), Riverside Institute of Technology, Lafayette High School/Buffalo Academy of Finance, Hutchinson Central Technical High School, Burgard Vocational High School, South Park High School og Emerson School of Hospitality.

Í borginni eru 47 einkaskólar (150 á stórborgarsvæðinu). Flestir þeirra eru kaþólskir. Auk þess eru tveir íslamskir skólar og skólar sem eru ótengdir trúfélögum.

Fullorðinsfræðsla heyrir líka undir opinbera skólakerfið.

Fylkisháskóli New York rekur þrjá háskóla í borginni. Buffalo-háskóli er stærsti opinberi háskóli fylkisins. Hann er líka eini háskóli borgarinnar sem er flokkaður sem 1. þreps rannsóknarháskóli. Aðrir opinberir háskólar eru Buffalo State College og Erie Community College. Einkareknir háskólar eru tveir, Canisius College og D'Youville College, báðir kaþólskir.

  Þessi landafræðigrein sem tengist Bandaríkjunum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.