Fara í innihald

Ameríkuostra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ameríkuostra

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Lindýr (Mollusca)
Flokkur: Samlokur (Bivalvia)
Ættbálkur: Ostrur (Ostreoida)
Ætt: Diskaætt (Ostreidae)
Ættkvísl: Crassostrea
Tegund:
C. virginica

Tvínefni
Crassostrea virginica
(Gmelin, 1791)

Ameríkuostran (fræðiheiti: Crassostrea virginica), einnig kölluð austurostra eða virginíuostra, er tegund ostru af diskaætt. Hún er eingöngu veidd á austurströnd Norður-Ameríku, frá Lawrence-flóa í Kanada niður að Júkatanskaga í Mexíkóflóa. Þegar ostruveiðar hófust fyrst voru þær ekki eingöngu veiddar til átu, heldur einnig til vegagerðar. Ameríkuostran er ríkisskelfiskur bandarísku fylkjanna Connecticut, Virginíu og Missisippi. Ameríkuostrur eru meðal þekktustu, verðmætustu og mikilvægustu nytjalindýra.

Ameríkuostran er af fylkingu samloka, sem þýðir að hún hefur tvö lok eða skeljar. Þykka, lægri lokið festir sig við hart undirlag og er mótað öðruvísi en efra lokið, sem almennt er minna og flatara. Lömin sem tengir lokin og heldur ostrunni fast lokaðri er teygjanlegur púði sem haldið er saman af þykkum, sterkum vöðvum. Ameríkuostrur geta verið uppistaðan af harða botninum við strendur.

Erfitt er að meta stofnstærð Ameríkuostrunnar. Líklegt er að svæði geti haft mismunandi tegundir eða undirhópa ostra með takmarkaða stofnblöndun. Ameríkuostran er mikið ræktuð og eru menn því ekki hræddir við stofnhrun þó svo unnið sé að endurreisn á sumum villtum svæðum.

Lífshættir

[breyta | breyta frumkóða]

Ameríkuostrur geta orðið allt að 20 ára. Þær lifa margar saman í einskonar klösum; smærri ostrur geta verið um 1500 talsins á hvern fermetra, stærri ostrur sem löglega má veiða geta verið allt að 336 saman í klasa á fermetra. Þær finnast við strendur og rif. Ráðist er á ostrurnar á ýmsum stigum lífsferils þeirra meðal annars af kuðungum, krossfiskum, fiskum, kröbbum, flatormum, tjaldinum og moldarormum.

Ameríkuostrur sía strendur og spila því mikilvægan þátt í að fjarlægja bakteríur, málma og eiturefni úr sjónum. Þær hafa mest saltþol allra ostrutegunda. Kjörselta ameríkuostrunnar til vaxtar er 10-28 ppm. Þær geta lifað við allt að 35 ppm.

Ameríkuostran hrygnir frá júní og fram í nóvember og nær hámarki á sumrin í júní og júlí þegar hiti er mestur. Norðurostran hrygnir við 15°-20°C en suðurostran hrygnir við 20°C og yfir.

Hrygnur geta framleitt um og yfir 100 milljón egg á ári. Kynþroska ostrur losa egg og sæði út í vatnið. Á um 24 tímum umbreytist eggið í frjálsa lirfu eða svif. Að hrygningu lokinni er ostran mjó sökum þess að hún hefur klárað allan forða sinn. Við kulda stækka kynþroska ostrur betur.

Á um tveggja til þriggja vikna tímabili vex ostrulirfunni augu og einhverskonar löpp sem hún notar til þess að finna sér samastað. Þegar hún hefur fundið ákjósanlegan stað, helst einhvern með hart og hrjúft yfirborð, sprautar hún út efni sem virkar líkt og steypa og festir sig. Margar ostrur breyta um kyn á lífsferli sínum, flestar ostrur undir eins árs aldri eru karlkyns og flestar yfir eins árs aldri eru kvenkyns.

Ytri skel ameríkuostrunnar er gráhvít; sú innri er hvít með dökkfjólublárri eða rauðbrúnni vöðvarák. Hún verður 8 til 13 sentímetrar að lengd, en getur þó orðið allt að 20 sentímetrar. Hún er samsett af tveimur hrjúfum skeljum. Innvols ostrunnar er mjúkt og hefur að geyma kjöt hennar. Neðri skel ostrunnar er kúpt og inní henni er kjötið eða vöðvinn, með áðurnefndri fjólublárri rák. Efri skelin er slétt eða flöt.

Við fæðuöflun slaka vöðvar ostrunnar á sem veldur því að skelin opnast og dregur í sig vatn fullt af svifi í gegnum tálkn. Skelin lokast svo og er ostran full af sjó, sem gerir henni kleift að lifa í langan tíma á yfirborði við kaldar og þurrar aðstæður. Hún nærist því á svifi.

Mynd 1:Ostruafli á norvesturströnd Ameríku

Bandaríkin eru langmesta veiðiþjóðin. Frá því mælingar hófust árið 1950 og fram að lokum 5. áratugs 20. aldar var afli BNA á norðvesturströnd, líkt og sjá má á mynd 1, um og yfir 225.000 tonn en í lok 1950 hrundi stofninn um 100.000 tonn. Ástæður hrunsins má rekja til sýkingar af völdum svokallaðs MSX-sjúkdóms. Stofninn hélt sér nokkuð stöðugum frá 1960-70 í um og yfir 100.000 tonnum. Hann náði svo miklu flugi 1970 og var afli í kringum 150.000-175.000 tonn til 1983 þegar hann féll aftur og enn harðar niður í 50.000 tonn. Stofninn hefur síðan þá verið í mikilli lægð og náði afli lágmarki árið 2004 í 8.878 tonnum.  Hann hefur þó verið að taka við sér á 21. öldinni og var kominn í 48.656 tonn árið 2015. Einnig stunda Kanada á norðvesturströndinni veiðar. Þær eru þó mjög litlar og hefur aflinn alltaf verið undir 10.000 tonnum og hefur verið mjög stöðugur á 21. öld í um 5.000 tonnum.  

Mynd 2:Ostruafli á miðvesturströnd Ameríku

Á miðvesturströndinni er hins vegar annað uppi á könnunni. Þar, líkt og sést á mynd 2, hefur afli aukist jafnt og þétt frá upphafi mælinga. Árið 1950 er aflinn um 75.000 tonn og hefur verið nokkuð stöðugur síðustu ár í um og yfir 150.000 tonnum. Mexíkó veiðir einnig ostru á miðvesturströndinni. Þeirra afli er talsvert minni en Bandaríkjamanna. Frá upphafi veiða þeirra árið 1953 var aflinn 10.000 tonn og hefur hann verið stöðugur en vaxið þétt og náðu þeir 50.044 tonnum árið 2015.

Heildarafli ameríkuostrunnar er um 10.000 tonn af kjöti á ári. Ameríkuostran telur um 70% af öllum ostruafla á jörðinni og er tegundin því bersýnilega mikilvæg. Afli hefur minnkað mikið frá því fyrir 40 árum síðan og spilar ofveiði þar mikið inn í. Eftirspurn eftir ostrum hefur einnig minnkað mjög og má álykta að það sé annars vegar vegna aukinnar meðvitundar um hættur þess að borða hráar ostrur og hins vegar breyttar matarvenjur manna.

Tafla 1: Sjálfbærni og stöðugleiki stofns

Stofninn frá 1950-1980 var ríflegur fyrir norðan en hefur ekki verið góður síðustu 40 ár. Á sumum svæðum virðist staða hans vera stöðug eða vaxandi, líkt og á miðvesturströnd Ameríku. Veiðistjórnendur hafa tekið að sér endurreisnaraðgerðir á mörgum svæðum. Vegna þess að ostrur eru neyddar hráar er verið að auka við reglugerðir til verndar neytendanna. Ostrur eru mikið ræktaðar og er því auðvelt að endurreisa stofninn.

Stofninn stendur nokkuð stöðugur og virðist vera að styrkjast. Veiðum er stjórnað og samkvæmt töflu 1 benda kannanir eindregið til þess að nýliðun sé nægjanleg til að viðhalda sjálfbærni stofnsins.

Margar hættur eru á stofnhruni þrátt fyrir mikla ræktun á tegundinni; Ameríkuostran hefur orðið fyrir miklum sýkingum, olíuleka og mörgu fleiru. Helstu sýkingar og í kjölfarið stofnhrun eru eftirfarandi; MSX-sjúkdómurinn herjaði á stofninn á 7. og 8. áratugnum og varð hann fyrir niðurbroti á 9. áratugnum sökum Perkinsósis.

Hættur ostruáts

[breyta | breyta frumkóða]

Ostrur eru berskjaldaðar fyrir sýkingu frá sníkjudýrum sem herja á samlokur. Ameríkuostran getur orðið fyrir sjúkdómum á borð við MSX-sjúkdómnum, SSO-sjúkdómnum, Perkinsósis og Dvergkornadreyri.

Sjúkdómar þessir geta verið lífshættulegir fyrir menn, einkenni koma oftast fram innan 24 til 48 klukkustunda frá átu og eru dæmi um einkenni; skyndilegur kuldahrollur, hiti, ógleði, uppköst, niðurgangur, lost og húðskemmdir.

Árin 1959-60 varð stór MSX faraldur í Chesapeak flóa sem olli því að höggvið var stórt skarð í hluta stofnsins. Margir einkaræktendur töpuðu stórfenglega á þessum faraldi. MSX-sníkjudýrið er það skæðasta sem verkar á ostrur. Vísindamenn hafa lengi vel átt mjög erfitt með að skilja og greina sjúkdóminn. Eitt hafa vísindamenn þó fundið út þ.e að sjúkdómurinn kemur einungis upp við seltu ofan 15 ppm.

Sala og markaðir

[breyta | breyta frumkóða]

Ameríkuostran er mest seld á innanlandsmarkaði vestanhafs. Hún er seld til heildsala, hótela, veitingastaða, sjávarmarkaða og hinna og þessa stofnana. Frakkland og Evrópa er einnig ágætur markaður og er Ameríkuostran mikið seld á dýra og fína veitingastaði þangað.

  • „American cupped oyster“. Sótt 10. mars 2018.
  • „American Oyster (Crassostrea virginica)“. Sótt 10. mars 2018.
  • „Crassostrea_virginica“. Sótt 14. mars 2018.
  • „Eastern oyster“. Sótt 11. mars 2018.
  • Eastern Oyster Biological Review Team. 2007. Status review of the eastern oyster (Crassostrea virginica). Report to the National Marine Fisheries Service, Northeast Regional Office. February 16, 2007. 105 pp.