Fara í innihald

Ógnarskjalasafnið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ógnarskjalasafnið er skjalasafn með upplýsingum um hundruð þúsunda pólitískra fanga sem lögregla og her í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ höfðu ýmist myrt, látið hverfa eða fangelsað í Kondóráætluninni. Skjalasafnið fannst 22. desember 1992 á lögreglustöð í Asúnsjón í Paragvæ. Mannréttindalögfræðingurinn Martín Almada rakst á skjölin fyrir tilviljun þegar hann var að leita að upplýsingum um fyrrum fanga.

Skjölin lýstu 50.000 morðum, 30.000 mannshvörfum og 400.000 fangelsunum í Suður-Ameríku á 8. og 9. áratug 20. aldar. Þau sýndu líka að ríkisstjórnir annarra landa, eins og Kólumbíu, Perú og Venesúela, höfðu átt í samstarfi við alræðisstjórnirnar með því að veita þeim upplýsingar og heimildir til að starfa innan landamæra sinna.

Krafa Spánverja um að Augusto Pinochet yrði framseldur frá Bretlandi eftir handtöku hans þar var að meira og minna leyti byggð á gögnum úr Ógnarskjalasafninu. Árið 2009 var skjalasafnið sett á lista UNESCO yfir Minni heimsins.