Vínarfundurinn
Vínarfundurinn (þýska: Wiener Kongress) var ráðstefna sendiherra evrópskra ríkja sem var stýrt af austurríska stjórnmálamanninum Klemens Wenzel von Metternich í Vínarborg frá september 1814 til júní 1815. Markmið ráðstefnunnar var að leysa þau vandamál sem franska byltingin, Napóleonsstyrjaldirnar og fall hins Heilaga rómverska ríkisins höfðu valdið í Evrópu og koma í veg fyrir fleiri stríð innan álfunnar. Á Vínarfundinum komu saman helstu stjórnmálaskörungar álfunnar og var aðalverkefnið að draga upp nýtt landakort af Evrópu og ráðstafa þeim ríkjum sem lent höfðu undir Napóleoni og leppstjórnum hans.[1]
Aðdragandi
[breyta | breyta frumkóða]Í byrjun 19. aldar höfðu herir Frakka farið sigurför um Evrópu undir stjórn Napóleons Bónaparte. Hann hafði verið æðsti maður hersins árið 1796 og var orðinn hæstráðandi í Frakklandi aðeins þremur árum síðar. Þegar veldi Napóleons var í hámarki árið 1812 náði það, ásamt ríkjum bandamanna þess og leppríkjum, yfir mestan hluta meginlands Evrópu. Þann 31. mars 1814 riðu Alexander I Rússakeisari og Friðrik Vilhjálmur III Prússakóngur inn í París og var Napóleon neyddir til að segja af sér og sendur í útlegð til eyjarinnar Elbu. Var þá ákveðið að stórveldin Rússland, Prússland, Bretland og Austurríki skyldu setjast að samningaborðinu til að semja um friðarskilmála fyrir Frakka. Nokkrar sáttagerðir höfðu átt sér stað áður en að Vínarfundurinn var boðaður, þar á meðal Kílarfriðurinn sem sá um mál í Skandinavíu og fyrri Parísarfriðurinn sem var undirritaður 30. maí 1814 á milli Frakklands og sjötta sambandshersins. Fulltrúarnir í París gerðu einnig frumdrög að nýrri ríkjaskipan Evrópu, en sammæltust um að hittast á nýjan leik í Vínarborg þá um haustið til að ganga endanlega frá því máli.
Samningsaðilar
[breyta | breyta frumkóða]Á fundinum komu saman flestir helstu stjórnmálaskörungar álfunnar, enda var fulltrúum allra Evrópuríkja boðin þátttaka. Var það mál manna að líklega hefðu aldrei verið jafnmargir tignarmenn saman komnir á einum stað. Þangað streymdu jafnt aðalsmenn sem óbreytt alþýðufólk, og betlarar, þjófar og njósnarar söfnuðust þar saman í hundraða tali. Fáir fulltrúar fengu að koma að umræðunum og ákvörðunum af því að það var enginn allsherjarfundur. Stórveldin fjögur og sigurvegarar Napóleonsstyrjaldanna (Austurríki, Prússland, Rússland og Bretland) ætluðu ein að taka alvarlegu ákvarðanirnar, en Frakkland undir forystu Charles Maurice de Talleyrands náði að safna saman fulltrúum Spánar, Svíþjóðar og Portúgals og krefjast aðild að umræðunum.
Stórveldin fjögur og Frakkland Búrbóna
[breyta | breyta frumkóða]Stórveldin fjögur höfðu áður verið kjarni sjötta sambandshersins. Um það leyti er Napóleon þurfti að játa sig sigraðan höfðu þessi ríki samið um fyrri Parísarfriðinn við Búrbóna.
- Rússaveldi - Alexander keisari var eini þjóðhöfinginn ríkjanna sem var einnig fulltrúi þess. Keisarinn notfærði sér Vínarfundinn til þess að sækjast eftir markmiðum utanríkisstefnu Rússlands. Alexander krafðist þess að allt Pólland kæmi í hlut Rússa en síðan á 18. öld höfðu pólsk yfirráðasvæði verið í eigu Austurríkis og Prússlands.
- Prússland - Karl Ágúst von Hardenberg var kanslari Prússlands frá árinu 1810 og var aðalsamningsaðili þeirra. Friðrik Vilhjálmur III Prússakóngur var þakklátur Rússakeisara fyrir að hafa frelsað land sitt frá Napóleoni og þurfti Hardenberg þá að styðja álit Rúsa í viðræðunum. Hardenberg heimtaði þó að Saxland kæmi undir prússneskt yfirráðasvæði til þess að bæta upp fyrir rússneska innlimun á Póllandi.
- Austurríki - Klemens von Metternich fursti var utanríkisráðherra Austurríkis og vildi hann koma á jafnvægi milli stórveldanna til þess að halda friði í Evrópu. Hann óttaðist vestræna útþenslustefnu Rússlands og vildi að stórt ríki í mið-Evrópu yrði stofnað og ætlaði hann að ná aftur austurrískum yfirráðum yfir ítölsku ríkjunum.
- Bretland - Castlereagh lávarður var utanríkisráðherra Breta og vildi hann, eins og Metternich, koma á jafnvægi milli evrópskra stórvelda.
- Frakkland - Charles Maurice de Talleyrand-Périgord var fyrrum utanríkisráðherra Napóleons en hafði tekið þátt í endurreisn Búrbóna og var fulltrúi Frakka á fundinum. Hann fullyrti að Frakkland vildi aðeins vera eins sterk og hún hafði verið áður en Napóleon komst til valda. Hins vegar mótmælti Talleyrand rússnesk tilköll til Póllands.
Fundurinn
[breyta | breyta frumkóða]Hugsjónir frönsku byltingarinnar höfðu borist víða um Evrópu með herjum Frakklands og í anda þeirra vildu margir að nú yrði komið á stjórnarumbótum, myndaðar þingbundnar konungsstjórnir eða jafnvel stofnuð lýðveldi. Því fór þó fjarri að allsráðendur á Vínarfundinum hefðu eitthvað slíkt í huga. Þeir höfðu að leiðarljósi hugtökin lögmæti og stöðugleiki. Með lögmæti áttu þeir við, að ríkin yrðu aftur fengin í hendur fyrri þjóðhöfðingjum eða réttmætum erfingjum þeirra. Með stöðugleika var átt við, að valdajafnvægi skyldi ríkja í álfunni, með sérstakri áherslu á að halda aftur af Frökkum. Þótt Vínarfundurinn kæmi ekki formlega saman, hittust menn tíðum, bæði í hinum ýmsu nefndum og auðvitað í veislum og á dansleikjum. Þar reyndu þeir að tryggja sér stuðning hvers annars við tilkall til umdeildra landsvæða, selja stuðning sinn fyrir stuðning við sig. Ótal sambönd og bandalög voru mynduð, sem síðan gátu hæglega riðlast á næsta dansleik.
Pólland og Saxland
[breyta | breyta frumkóða]Framtíð Póllands og Saxlands var miðpunktur umræðuefna fundarinns frá október 1814 til janúars 1815. Alexander I keisari var staðráðinn að innlima Pólland inn í Rússaveldi. Keisarinn bauð Prússlandi Saxland í skaðabætur fyrir tap á pólsku svæði. Austurríkismenn óttuðust að ef Pólland færi til Rússa þá yrðu vesturlandamæri Rússlands yrðu komin mun nær Vínarborg og myndu sameiginleg landamæri Austurríkis og Prússlands meira en tvöfaldast að lengd. Bretar mótmæltu einnig tilkall Rússlands til Póllands. Undir árslok 1814 voru ófriðarblikur farnar að sjást á lofti og margir óttuðust að deilurnar um Pólland og Saxland myndu enda með styrjöld. Það varð ekki til að slá á þann ótta þegar prússneski kanslarinn Hardenberg lýsti því yfir á gamlársdag, að ef Prússum yrði neitað um Saxland myndi það jafngilda stríðsyfirlýsingu. Bretar og Austurríkismenn sáu þann kost vænstan að stofna til leynilegs bandalags með Frökkum um að standa saman ef til ófriðar kæmi. Samningar tókust þó um að Rússar fengju megnið af Póllandi, en Austurríki og Prússland fengu þar einnig landsvæði. Var hinn rússneski hluti Póllands síðan gerður að sérstöku konungsríki undir stjórn Alexanders I. Borgin Kraká varð frjáls borg undir vernd Rússa, Prússa og Austurríkismanna. Eftir að þessir samningar voru í höfn höfðu Rússar lítinn áhuga á að styðja Prússa í deilunni um Saxland. Varð það úr að Friðrik Vilhjálmur sættist á að fá um helming þess lands.
„Cordon Sanitaire”
[breyta | breyta frumkóða]Ákvarðanir gagnvart Niðurlöndum, Sviss, þýsku ríkjanna og Ítalíu voru teknar af stórveldunum til þess að hafa hemil á og einangra Frakkland með því að stofna nokkur örríki á milli þeirra sem voru öll undir áhrifum stórveldanna. Í Frakklandi voru þessar aðgerðir kallaðar „cordon sanitaire” eða varðbeltið.
- Niðurlönd - Holland var sameinað austurrísku Niðurlöndunum og var þar með stofnað nýtt konungsveldi og fékk Hollandskonungur einnig yffiráð yfir hertogadæminu Lúxemborg. Breska krúnan gaf tvö milljón pund til þess að hjálpa Niðurlöndum að verja landamærin við Frakkland.
- Hanover - Stofnað sem konungsríki undir breskum áhrifum enda var breska konungsfjölskyldan ættuð úr Hanover.
- Prússland - Prússar fengu nokkur héruð við Rínarfljót og ætluðu að setja niður herlið við frönsku landamærin.
- Bæjaraland, Baden og Württemberg - Innlimuð í þýska sambandið semm innihélt þrjátíu og níu ríki þar á meðal Prússland og Austurríki.
- Sviss - Virt af öllum veldunum sem sjálfstætt ríki sem myndi alltaf vera hlutlaust.
- Langbarðaland og Feneyjar - Ríkin tvö í norður Ítalíu fóru bæði undir Austurríkiskeisara.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Heimir G. Hansson (18. nóvember 1995), Vínarfundurinn 1814-1815, Morgunblaðið