Fara í innihald

Margrét Skotadrottning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Útgáfa frá 13. mars 2021 kl. 21:40 eftir TKSnaevarr (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. mars 2021 kl. 21:40 eftir TKSnaevarr (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)

Margrét Skotadrottning (apríl? 1283 – september/október 1290) eða Jómfrú Margrét (enska: Margaret, Maid of Norway) var norsk konungsdóttir sem var þjóðhöfðingi Skotlands frá 1286 til dauðadags. Eftir lát hennar hófust langvinnar erfðadeilur.

Margrét var dóttir Eiríks prestahatara Noregskonungs og konu hans Margrétar, dóttur Alexanders 3. Skotakonungs. Móðir hennar dó skömmu eftir fæðingu hennar, sennilega af barnsförum, og var þá Eiríkur konungur faðir hennar aðeins fimmtán ára gamall. Ári eftir fæðingu hennar lést Alexander krónprins Skotlands, móðurbróðir hennar, og var hún þá eini eftirlifandi afkomandi Alexanders afa síns. Hann fékk skoska þingið til að samþykkja hana sem ríkisarfa. Sjálfur var hann þó aðeins rúmlega fertugur ekkill við góða heilsu og giftist aftur 1285. Þegar hann lést óvænt af slysförum 19. mars 1286 var kona hans talin þunguð en annaðhvort var ekki svo eða barnið fæddist andvana fyrir tímann. Í október sama ár var Margrét litla lýst þjóðhöfðingi Skota og hópur biskupa og aðalsmanna valinn til að stýra landinu í hennar nafni.

Ekki sættu allir sig við þetta og Róbert Bruce, lávarður af Annandale, og sonur hans, Róbert jarl af Carrick (faðir og afi Róberts 1. Skotakonungs), hófu uppreisn sem þó var bæld niður. Jóhann Balliol gerði einnig tilkall til krúnunnar. Skosku aðalsmennirnir töldu mikla hættu á borgarastyrjöld og óttuðust líka að Eiríkur Noregskonungur gæti reynt að ná völdum í Skotlandi í nafni dóttur sinnar. Eiríkur vildi aftur á móti tryggja dóttur sína í sessi og báðir aðilar leituðu því til Játvarðs 1. Englandskonungs, sem var ömmubróðir Margrétar. Játvarður var fljótur til og samdi um trúlofun Margrétar og tveggja ára sonar síns, Játvarðs. Með giftingu þeirra hefðu krúnur Englands og Skotlands sameinast en Játvarður samþykkti þó að tryggja sjálfstæði Skotlands. Það var hluti af samkomulaginu sem hann gerði við Eirík og skosku höfðingjana um þetta að Margrét skyldi send til Skotlands fyrir 1. nóvember 1290 og alast þar upp.

Játvarður 1. sendi skip til Noregs vorið 1290 til að sækja tengdadótturina tilvonandi og er sagt að það hafi verið hlaðið alls konar varningi sem konungurinn taldi unga stúlku geta girnst, svo sem sætabrauði, fíkjum og rúsínum. Eiríkur konungur var þó ekki sáttur við þetta, hann vildi senda dóttur sína með norsku skipi til hins nýja heimalands hennar, og gerði skipið afturreka. Í september 1290 sigldi Jómfrú Margrét því af stað til Skotlands á norsku skipi. Ferðalagið gekk illa, skipið lenti í illviðri og hraktist af leið. Margrét hafði aldrei verið heilsuhraust og dó rétt eftir að skipið náði landi í Orkneyjum. Lík hennar var flutt aftur til Noregs og grafið í Kristskirkju í Björgvin.

Umdeilt er hvort telja eigi Margréti með í röð þjóðhöfðingja Skotlands þar sem hún var ekki krýnd og steig aldrei fæti á skoska jörð. Skoska konungsættin dó út með henni og þeir voru alls fjórtán sem gerðu tilkall til krúnunnar, þar á meðal Eiríkur faðir hennar. Þegar erfðamálin voru enn óleyst tveimur árum eftir lát hennar var Játvarður 1. aftur beðinn að leysa málinn og hann útnefndi Jóhann Balliol sem konung og lepp sinn. Í kjölfarið hófst langvinn borgarastyrjöld.

Árið 1300, ári eftir lát Eiríks prestahatara, kom kona nokkur til Björgvinjar og hélt því fram að hún væri Margrét konungsdóttir og hefði sér verið rænt. Ýmsir lögðu trúnað á orð hennar þótt hún væri að sögn augsýnilega að minnsta kosti fertug að aldri og þótt Eiríkur konungur sjálfur hefði borið kennsl á lík dóttur sinnar. Á endanum var hún þó ákærð fyrir svik og fals og brennd á báli árið 1301.


Fyrirrennari:
Alexander 3.
Skotadrottning
(12861290)
Eftirmaður:
Jóhann Balliol