Münchenarsamningurinn

Münchenarsamningurinn var milliríkjasamningur sem gerður var milli Bretlands, Frakklands, Ítalíu og Þýskalands árið 1938. Samningurinn var undirritaður þann 30. september 1938 í kjölfar ráðstefnu í München sem ætlað var að finna friðsamlega lausn á deilum þjóðanna um Súdetaland, sem Þjóðverjar gerðu tilkall til en var þá innan landamæra Tékkóslóvakíu. Þar sem fulltrúum Tékkóslóvakíu var ekki boðið á ráðstefnuna og fengu því ekki að semja um framtíð Súdetalandsins kölluðu Tékkóslóvakar samninginn gjarnan „Münchenartilskipunina“.

Neville Chamberlain, Édouard Daladier, Adolf Hitler, Benito Mussolini og Galeazzo Ciano við undirritun München-sáttmálans þann 29. september 1938.

Tilgangur ráðstefnunnar var að ræða um tilkall sem Adolf Hitler, einræðisherra Þýskalands, hafði gert til Súdetalands. Súdetaland var mjög hernaðarlega mikilvægt landsvæði fyrir Tékkóslóvakíu þar sem fjallgarðar liggja í gegnum landsvæðið og veittu Tékkóslóvakíu þannig náttúrlegar landvarnir gegn hugsanlegum innrásum frá Þýskalandi. Auk þess voru margir helstu iðnkjarnar landsins staðsettir þar.[1] Þar sem Súdetaland var aðallega byggt þýskumælandi fólki hélt Hitler því fram að það tilheyrði Þýskalandi með réttu og hótaði að gera innrás í Tékkóslóvakíu til að innlima það.[2]

Forsætisráðherrar Bretlands og Frakklands, Neville Chamberlain og Édouard Daladier, vildu fyrir alla muni forðast stríð gegn Þýskalandi og því kölluðu þeir með milligöngu Benito Mussolini, forsætisráðherra Ítalíu, til ráðstefnu til að ræða um stöðu Súdetalands. Niðurstaðan varð sú að Chamberlain og Daladier lögðu blessun sína við að Þjóðverjar innlimuðu þýskumælandi héruð Tékkóslóvakíu. Um leið reyndu þeir þó að setja Hitler stólinn fyrir dyrnar með því að gera öllum ljóst að ef Hitler endurtæki sama leik með því að ráðast á Pólland myndu Bretland og Frakkland umsvifalaust lýsa yfir stríði.

Bretar og Frakkar vonuðust til þess að koma í veg fyrir stríð gegn Þjóðverjum með samningnum. Undanlátsstefna þeirra frestaði stríði þó ekki lengi því næsta ár réðust Þjóðverjar inn í Pólland og Chamberlain og Daladier neyddust því til að standa við stóru orðin og lýsa yfir stríði. Með þessu hófst seinni heimsstyrjöldin.

Eftir seinni heimsstyrjöldina varð Súdetaland aftur hluti af Tékkóslóvakíu. Árið 1973 ógilti Vestur-Þýskaland formlega kröfu sína til Súdetalands í samræmi við austurstefnu þáverandi stjórnvalda.

Bakgrunnur

breyta

Súdetaland var nafn á héruðum í vestanverðri Tékkóslóvakíu þar sem meirihluti íbúa var af þýskum ættum og töluðu þýsku. Þegar austurrísk-ungverska keisaradæmið var leyst upp á síðustu dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar sóttust Súdetar eftir því að verða hluti af nýja austurríska lýðveldinu en fyrir tilstilli bandamanna varð landsvæði þeirra þess í stað hluti af hinni nýstofnuðu Tékkóslóvakíu.[3] Margir þýskir Súdetar neituðu að viðurkenna yfirráð Tékkóslóvakiu og voru ævareiðir því að þeim hefði verið neitað um sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna sem Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti hafði kveðið á í fjórtán punktum sínum í janúar 1918. Tékkóslóvakía fékk Súdetaland í sinn hlut vegna þess að svæðið hafði á miðöldum verið hluti af tékkneska konungsríkinu Bæheimi en með þessu fyrirkomulagi fannst mörgum Súdetum að þeir hefðu verið gerðir að útlendingum í eigin landi.

Óánægja þýskra Súdeta með stjórn Tékkóslóvakíu jókst mjög á kreppuárunum og með valdatöku Hitlers í Þýskalandi. Frá árinu 1933 varð áróður gegn tékkóslóvakískri stjórn í Súdetalandi sífellt háværari og þýsksúdeskir stjórnmálaleiðtogar eins og Konrad Henlein kölluðu í síauknum mæli eftir samruna við Þýskaland.[4]

Kröfur Hitlers

breyta

Í mars árið 1938 fóru Þjóðverjar á sveig við alla milliríkjasamninga sína og innlimuðu Austurríki. Eftir innlimun Austurríkis bjuggust margir við því að Hitler myndi næst snúa sér að Súdetalandi og þeim fjölda Þjóðverja sem þar voru búsettir. Tékkóslóvakía var í bandalagi bæði við Frakkland og Sovétríkin en hvorugt ríkið vildi hætta á hernaðarátök gegn Þýskalandi. Í Vestur-Evrópu vildu flestir forðast styrjöld á borð við fyrri heimsstyrjöldina og stjórnmálamenn áttu erfitt með að réttlæta þá hugmynd að fara í stríð vegna Súdetalands.

Tékkóslóvakía hafði árið 1935 undirritað varnarsáttmála við Sovétríkin.[5] Sovétmenn voru reiðubúnir til að heiðra varnarsamkomulagið og koma Tékkóslóvökum til varnar gegn Þjóðverjum, en þá aðeins ef Frakkar og Bretar hétu einnig sínum stuðningi.[6] Sovétmenn voru þó tregir til að senda herafla til að vernda Tékkóslóvaka gegn ágangi Þjóðverja þar sem þeir vildu síður fara með her yfir landsvæði Póllands eða Rúmeníu.

Hitler krafðist þess þann 22. september 1938 við Neville Chamberlain, forsætisráðherra Bretlands, að þýskir hermenn fengju óáreittir að hertaka þýskumælandi héruð í Tékkóslóvakíu og að tékkneskir íbúar á svæðunum hefðu sig á brott ekki síðar en 28. september. Chamberlain lofaði að miðla skilaboðunum til Edvards Beneš, forseta Tékkóslóvakíu, en Beneš hafnaði umsvifalaust kröfum Hitlers og stjórnir Frakklands og Bretlands fóru fljótt að fordæmi hans. Ágreiningurinn leiddi til þess að Tékkóslóvakar skipuðu her sínum að vígbúast og franski herinn vígbjóst einnig að takmörkuðu leyti.[6]

Undirritun sáttmálans

breyta
 
Chamberlain og Hitler takast í hendur þann 24. september 1938.

Evrópuveldin féllust á að reyna að afstýra styrjöld með því að halda ráðstefnu í München þann 29. september og þann 30. september klukkan hálftvö um nótt skrifuðu Adolf Hitler, Neville Chamberlain, Benito Mussolini og Édouard Daladier síðan undir München-sáttmálann til að binda enda á deiluna.[7] Ríkisstjórn Tékkóslóvakíu varð ljóst að vonlaust yrði að berjast gegn ágangi Þýskalands án aðstoðar hinna Evrópuríkjanna og því sættu tékkóslóvakískir ráðamenn sig nauðugir við niðurstöðuna. Með sáttmálanum var Súdetaland gefið Þjóðverjum þann 10. október. Þjóðverjar ábyrgðust í staðinn að gera ekki frekara tilkall til landsvæðis Tékkóslóvakíu og virða landamæri ríkjanna þaðan í frá. Seinna þann 30. september skrifuðu Chamberlain og Hitler undir friðarsáttmála milli Bretlands og Þýskalands.

Þegar Chamberlain kom heim til Bretlands og steig úr flugvél sinni á Heston-flugvellinum í Englandi tók fagnandi mannfjöldi á móti honum og lofsamaði hann fyrir að hafa tekist að afstýra stríði gegn Þýskalandi. Chamberlain sagðist hafa tryggt „frið fyrir okkar tíma“ (enska: Peace for our time) með samkomulaginu. Í ræðu sinni við heimkomuna sagði hann:

... lausnin á tékkóslóvakíska vandamálinu, sem nú hefur verið náð fram, er að mínu mati aðeins byrjunin á enn stærri sáttmála sem mun gera allri Evrópu kleift að ná fram friði. Í morgun ræddi ég aftur við þýska kanslarann, herra Hitler, og hér er skjal með hans nafni ásamt mínu. Sum ykkar hafa ef til vill þegar heyrt hvað stendur í því en mig langar til að lesa það fyrir ykkur: ... „Við lítum á samninginn sem undirritaður var í gær og ensk-þýska flotasamninginn sem sönnun á vilja þjóða okkar til að fara aldrei í stríð hver gegn hinni framar.“

Daladier fékk einnig góðar viðtökur þegar hann kom heim til Frakklands en ólíkt Chamberlain var hann fullur efasemda um samkomulagið og taldi að það myndi ekki afstýra stríði við Þýskaland til lengdar. Hann var mjög hissa á því hve vel Frakkar tóku samningnum og komst síðar svo að orði að hann hefði búist við því að fólkið myndi kasta tómötum í hann en þess í stað hafi það kastað blómum. Þegar hann sá fagnandi mannfjöldann sagði hann: „Þessir fáráðlingar vita ekki fyrir hverju þeir eru að klappa“.[2]

Viðbrögð

breyta

Winston Churchill var meðal þeirra sem gagnrýndu fljótt München-sáttmálann og varaði við því að hann myndi ekki tryggja frið í Evrópu í ræðu sem hann flutti í neðri málstofu breska þingsins þann 5. október 1938:

Við höfum beðið fullkominn og ótvíræðan ósigur ... þið munið komast að raun um að eftir tíma sem verður kannski mældur í árum, en kannski í mánuðum, verður Tékkóslóvakía öll hersetin af stjórn nasista. Við stöndum frammi fyrir stórslysi af fyrstu stærðargráðu ... við höfum beðið ósigur án stríðs og afleiðingar hans munu fylgja okkur um langan veg ... við höfum náð hræðilegum áfanga í sögu okkar, þeim að valdajafnvægi Evrópu hafi verið sett úr skorðum og að hræðileg orð hafi verið mæld við vestræn lýðræðisríki: „Þér hafið verið vegin og metin til einskis“. Og leyfið ykkur ekki að vona að þessu sé lokið. Þetta er aðeins upphafið að uppgjörinu. Þetta er aðeins fyrsti sopinn, fyrsti forsmekkurinn úr bitrum kaleik sem okkur verður boðinn ár eftir ári nema að með undraverðum bata siðgæðis og bardagafýsnar rísum við á ný og stöndum sem fastast í nafni frelsis eins og í gamla daga.[8]

Jósef Stalín var einnig óánægður með samkomulagið. Sovétríkin höfðu ekki fengið sæti við samningaborðið í München og Stalín þótti þetta til merkis up að hin Evrópuríkin viðurkenndu ekki stöðu þeirra sem stórveldis. Stalín túlkaði samkomulagið sem svo að vesturveldin hefðu í reynd gengið í bandalag með Hitler með því að láta undan kröfum hans eftir landsvæði og hann óttaðist að þetta bandalag myndi brátt beina sér gegn Sovétríkjunum. Áhyggjur Stalíns leiddu til þess að hann reyndi sjálfur að fyrirbyggja stríð við Þýskaland og hin Evrópuríkin með Molotov-Ribbentrop-sáttmálanum árið 1939.

Tékkóslóvakar voru öskureiðir yfir samkomulaginu. Með landmissinum til Þjóðverja auk þess að þurfa að láta hluta af Slóvakíu til Ungverjalands og Póllands var Tékkóslóvakía í reynd orðið limlest og varnarlaust ríki sem var upp á náð Þjóðverja komið. Tékkóslóvakía glataði 70 % af járn- og stálframleiðslu sinni, 70 % af álframleiðslunni og um 3,5 milljónum íbúa sinna.[9]

Innrásin í Tékkóslóvakíu

breyta

Þjóðverjar lýstu því yfir að með innlimun Austurríkis hefði Þýskaland hlotið tilkall til fleiri landsvæða í Tékkóslóvakíu sem væru nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að landið yrði umsetið óvinaþjóðum.[10] Þýski herinn hafði þegar árið 1937 útbúið áætlun („grænu aðgerðina“ eða Fall Grün) um innrás í Tékkóslóvakíu.[11] Áætluninni var hrint í framkvæmd þann 15. mars árið 1939 undir nafninu „suðausturaðgerðin“. Spá Churchills rættist því þegar Þjóðverjar hertóku Prag og stofnuðu þýsk verndarsvæði í Bæheimi og Mæri. Austurhluta Tékkóslóvakíu var breytt í þýskt leppríki undir nafninu Slóvakía.

Chamberlain taldi Þjóðverjana hafa svikið sig með því að ráðast inn í Tékkóslóvakíu og varð honum því ljóst að undanlátsstefna hans gagnvart Hitler hafði ekki borið árangur. Þetta leiddi til þess að hann tók harðari afstöðu gagnvart nasistunum. Hann skipaði m. a. breska hernum að vígbúast og Frakkar fóru að dæmi hans. Vegna útþenslu Þjóðverja óttuðust Ítalir að þeir yrðu annars flokks meðlimur í Öxulveldunum og því réðust þeir inn í Albaníu og innlimuðu hana í apríl árið 1939. Innrás Hitlers í Tékkóslóvakíu var síðasta hernaðaraðgerð Þýskalands áður en innrásin í Pólland þann 1. september 1939 hratt af stað seinni heimsstyrjöldinni.

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „30 ár frá undirritun Münchenarsáttmálans“. Morgunblaðið. 29. september 1968. Sótt 18. apríl 2019.
  2. 2,0 2,1 „50 ár liðin frá München-samkomulaginu“. Þjóðlíf. 1. október 1988. Sótt 18. apríl 2019.
  3. Guðmundur Benediktsson (1. júlí 1938). „Tékkóslóvakía: Púðurtunna Norðurálfunnar“. Þjóðin: tímarit sjálfstæðismanna. Sótt 18. apríl 2019.
  4. Ólafur Hansson (1946). Heimsstyrjöldin 1939 – 1945, fyrra bindi. Bókaútgáfa menningarsjóðs. bls. 17.
  5. Varnarsáttmáli Tékkóslóvakíu og Sovétríkjanna (16. maí 1935) á ensku
  6. 6,0 6,1 Opslag "Munich Agreement", Britannica.com
  7. Gilbert, Martin and Gott, Richard, The Appeasers (Weidenfeld Goldbacks, Weidenfeld and Nicholson, London, 1967), bls. 178.
  8. „Disaster of the first magnitude“. National Churchill Museum. Sótt 19. apríl 2019.
  9. Shirer, William L., The Rise and Fall of The Third Reich
  10. Reinhard Müller, Deutschland. Sechster Teil (München and Berlin: R. Oldenbourg Verlag, 1943), bls. 116-130.
  11. Herzstein, Robert Edwin The Nazis (Time-Life Books World War II Series) New York:1980 Time-Life Books Page 184