Ocean Hill-Brownsville átökin
Ocean Hill-Brownsville átökin voru deilur sem áttu sér stað á 7. áratug 20. aldarinnar á milli íbúa Ocean Hill og Brownsville hverfa New York borgar og stéttarfélags kennara, UFT, sem var undir stjórn Albert Shanker. Deilurnar urðu vegna óánægju foreldra grunnskólanemenda í Ocean Hill og Brownsville, efnaminni hverfum, á skólamálum borgarinnar í hverfum þar sem þeldökkir voru í meirihluta. Deilurnar ollu uppnámi í sambandi þeldökkra og gyðingasamfélags New York borgar, ásamt því að verða orsakavaldur lengsta verkfalls grunnskólakennara í New York frá upphafi.
Saga
breytaÞrátt fyrir dómsúrskurð hæstaréttar Bandaríkjanna árið 1954 í máli Brown gegn menntaráði (e. Board of education), um ólögmæti ríkja til aðskilnaðar í skólum á grundvelli kynþátta, jókst aðskilnaðarstefnan á árunum sem fylgdi í Brooklyn, New York. Í Brownsville, sem er hverfi í Brooklyn, hafði árið 1960 orðið mikil breyting á íbúum hverfisins en gyðingar sem höfðu áður verið í meirihluta voru fluttir burt og voru þeldökkir og fólk frá Púertó Ríkó nú í miklum meirihluta. Brownsville ásamt Ocean Hill voru fátæk hverfi þar sem lítið var um atvinnutækifæri og glæpatíðni há í samanburði við önnur hverfi New York. Á 7. áratugnum voru grunnskólar Brownsville og Ocean Hill ennþá aðskildir á grundvelli kynþátta og orðnir yfirfullir og þurftu nemendur að mæta í hollum.[1]
UFT
breytaÁ þessum tíma var stéttarfélagið United Federation of Teachers (UFT) undir stjórn Albert Shanker öflugt, en félagið sem hafði verið stofnað einungis nokkrum árum áður var orðið stærsta stéttarfélag kennara í New York og, undir stjórn Shanker, að pólitísku afli. Shanker, fyrrum kennari, var þekktur fyrir harðskeytta leiðtogahæfileika sína og árangur í samningaviðræðum sem stéttafélagsleiðtogi. Þegar hann tók við UFT árið 1964 barðist hann hart fyrir bættri stöðu kennara og með skipulagningu ólöglegra verkfalla kennara var hann fangelsaður tvisvar, árin 1967 og 1968.
Það kerfi sem New York borg notaðist við til þess að ráða kennara eða hækka þá eða lækka í tign var gallað, þ.e. að það gekk út á að meta kennara út frá velgengni þeirra á stöðluðum prófum en tóku ekki tillit til þeirra aðstæðna sem kennarinn hafði menntað sig í eða hvar hann kenndi. Þetta kerfi var því hagstæðara hvítum kennurum en þeldökkum og studdi Shanker það því honum þótti það hlutlaust, og vegna þess að meðlimir UFT voru langflestir hvítir en mikill meirihluti meðlima UFT voru, líkt og Shanker, gyðingar.[2]
Samtökin höfðu verið gagnrýnd fyrir litla þátttöku í aðgerðum gegn kynþáttaaðskilnaðinum en árið 1964 skipulögðu Bayard Rustin og Milton Galamison, aðgerðasinnar, sniðgöngu bæði kennara og nemenda grunnskóla New York borgar til þess að mótmæla áframhaldandi kynþáttaaðskilnaði í skólum borgarinnar. Rustin og Galamison lögðu fram beiðni til framkvæmaráðs UFT um að kennarar stéttarfélagsins tækju þátt í sniðgöngunni en þeim var hafnað, framkvæmdaráðið lofaði eingöngu að vernda þá kennara sem tækju þátt frá því að þeim yrði refsað af vinnuveitenda. Meira en 400 þúsund íbúar New York borgar tóku þátt í þessari sniðgöngu og þegar endurtaka átti leikinn mánuði seinna tók UFT ákvörðun um að vernda ekki þá kennara sem tækju þátt í henni. Neitun UFT um að sýna sniðgöngunni stuðning þótti sýna að samstarf á milli stéttarfélags kennara og samfélag þeldökkra væri óhugsandi.[3]
Samfélagsstjórnun
breytaAðgerðarsinnar í Ocean Hill og Brownsville, undir áhrifum Black Power hreyfingarinnar og áhrifamikilla aðgerðasinna á borð við Malcolm X, Stokely Carmichael, Charles Hamilton og Harold Cruse, trúðu því að skólarnir væru að bregðast börnunum vegna kerfisbundins rasisma uppeldisstofnanna borgarinnar. Bentu aðgerðarsinnar í því samhengi á kennarana sem kenndu þeldökkum, en skoðun margra hvítra kennara var að þeldökkir nemendur gætu ekki lært og höguðu þeir því ekki kennslu sinni í þá átt sem gæti hjálpað nemendum til þess að læra. Árið 1967 vegna langvarandi kvartana þeldökkra íbúa Ocean Hill og Brownsville hverfanna, ásamt öðrum hverfum, um að menntakerfi borgarinnar væri að bregðast börnum þeirra, og með pólitískan og fjárhagslegan stuðning vinstri sinnaðra samtaka og einstaklinga, varð til umdeilt tilraunarverkefni sem menntaráð New York borgar samþykkti. Verkefnið átti að veita kennurum og foreldrum nemenda yfirráð yfir menntun barnanna, svokölluð samfélagsstjórnun grunnskólanna. Ocean Hill og Brownsville, sem taldist eitt skólahverfi, var eitt þriggja hverfa sem valið var í verkefnið en í því fólst að nýja hverfið kysi í stjórn sem hafði valdið til þess að ráða stjórnendur í skólanna. Á sama tíma og þeldökkir fögnuðu þessu verkefni sem verðlaun fyrir langvarandi baráttu þeirra gegn hinu áður fyrr óhagganlegu hvíta stjórnkerfi þá litu stéttarfélög kennara á verkefnið sem pólitíska árás að völdum þeirra.
Uppsagnir kennara
breytaMiklar breytingar áttu sér stað innan skóla Ocean Hill-Brownsville hverfisins á fyrsta ári verkefnisins og voru þeir reknir með allt öðrum hætti en aðrir grunnskólar New York borgar. Í apríl mánuði árið 1968 óskuðu stjórnendur Ocean Hill-Brownsville eftir því að fá frekari völd yfir fjármagni, starfsmannahaldi og kennsluskrá en var þeim hafnað. Foreldrar nemenda skipulögðu því sniðgöngu en hún átti sér stað á sama tíma og mikil ólga reið yfir samfélag svarta í Bandaríkjunum vegna dauða Martin Luther King Jr. Þann 9. maí 1968 tilkynnti Rhody McCoy, forstöðumaður Ocean Hill-Brownsville skólanna, 12 hvítum kennurum að ekki væri þörf á þeim lengur í grunnskólum hverfisins og að þeir yrðu færðir annað. Ástæða uppsagnarinnar var sögð vera vegna þess að þessir kennarar þóttu sýna verkefninu lítinn skilning og að þeir þóttu óhæfir til þess að kenna þeldökkum nemendum.[4]
Dear Sir,
The governing board of the Ocean Hill–Brownsville Demonstration School District has voted to end your employment in the schools of the District. This action was taken on the recommendation of the Personnel Committee. This termination of employment is to take effect immediately.
In the event you wish to question this action, the Governing Board will receive you on Friday, May 10, 1968, at 6:00 P.M., at Intermedia School 55, 2021 Bergen Street, Brooklyn, New York.
You will report Friday morning to Personnel, 110 Livingston Street, Brooklyn, for reassignment.
- Sincerely,
- Rev C. Herbert Oliver, Chairman
- Ocean Hill–Brownsville Governing Board
- Rody A. McCoy
- Unit Administrator
Allir kennarnir sem voru reknir tilheyrðu stéttarfélögum og flestir þeirra UFT, ásamt því að flestir þeirra voru gyðingar en alls voru 83 starfsmenn Ocean Hill-Brownsville hverfisins reknir. Shanker taldi uppsagnir kennaranna brot á samningum og stjórnendur hverfisverkefnisins ekki fylgt viðeigandi ferlum varðandi uppsagnirnar. Menntaráð borgarinnar hvatti kennaranna til þess að hunsa uppsögnunum og var þeim fordæmt af mörgum m.a. af American Jewish Congress.[5]
Verkföll
breytaÞegar kennararnir reyndu að mæta aftur til vinnu var þeim hindraður aðgangur að skólanum af foreldrum nemenda og kennurum sem studdu uppsagnirnir. Þann 15. maí, komust kennararnir aftur inn í skólann með hjálp 300 lögreglumanna sem í kjölfarið handtóku 5 einstaklinga sem höfðu reynt að hindra aðgang þeirra að skólanum. Þann sama dag tilkynntu menntaráð borgarinnar og stjórn Ocean Hill-Brownsville verkefnisins að skólum yrði lokað. Frá 22. til 24. maí mættu 350 meðlimir UFT ekki til vinnu í hverfinu í mótmælaskyni og var þeim síðar sagt upp af stjórnarnefndinni og nýjir kennarar ráðnir sem voru flestir ungir, hvítir og hluti af New Left hreyfingunni sem studdi samfélagsverkefnið. Yfir sumarið áttu sér stað tveir hlutir sem áttu eftir að hafa mikil áhrif á deilur hópanna tveggja. Fyrri atburðurinn var samþykki Marchi löggjafarinnar í New York fylki en löggjöfin fól í sér að menntaráð New York borgar gat ákveðið að veita hverfum völd til þess að fara með sín eigin menntamál, líkt og í Ocean Hill-Brownsville, og til þess að gefa þessum hverfum valdið til þess að ráða kennara og færa þá úr skólum eins og þeim hentaði. Seinni atburðurinn var dómsúrskurður sem dæmdi ákvörðun stjórnenda Ocean Hill-Brownsville verkefnisins um uppsögn kennaranna fyrr á árinu ólögmæta og að kennararnir ættu rétt á því að snúa aftur í störf sín. Dómurinn benti á að ástæður uppsagnarinnar, um að kennararnir væru vanhæfir, væru ekki á rökum reistar og að leyfilegt væri fyrir kennara að gagnrýna verkefnið vegna stjórnarskrárvarins málfrelsis þeirra. Hinsvegar neitaði hverfisráðið að taka við kennurunum aftur og ítrekaði við menntaráð borgarinnar að völdin til þess að fara með menntamál væru þeirra. Daginn fyrir fyrsta skóladag nýs skólaárs samþykkti mikill meirihluti UFT að fara í verkfall og ætti það að ná yfir alla borgina.[6]
Daginn eftir fóru 54 þúsund kennarar í verkfall og áttu verkföllin eftir að standa yfir í samanlagt 37 daga með þeim afleiðingum að meira en milljón nemendur komust ekki í skóla. Verkföllin stóðu yfir frá september mánuði til nóvember með þremur verkföllum og var þriðja verkfallið það lengsta en það stóð yfir í 5 vikur. Ásakanir um kynþáttafordóma og gyðingahatur urðu háværar en stór hluti kennara New York borgar voru gyðingar, Shanker lét m.a. prenta og dreifa 500.000 eintökum af antísemitískum bæklingum sem höfðu fundist fyrir aftan grunnskóla í Ocean Hill-Brownville hverfinu. Átökin eru talin hafa haft varanleg áhrif á samband gyðinga og þeldökkra innan borgarinnar. Verkföllunum lauk 17. nóvember eftir að menntaráð New York fylkis tók yfir Ocean Hill-Brownsville skólanna, endurréði kennaranna 12 sem höfðu verið reknir og færðu þrem skólastjórum hverfisins annað.[7]
Tilvísanir
breyta- ↑ Ocean Hill-Brownsville, Fifty Years Later, Skoðað 3. desember 2020.<nowiki>
- ↑ Andrew Hartman, A War for the Soul of America. Bls. 60.
- ↑ The 1968 New York school crisis and the struggle for racial justice, Skoðað 3. desember 2020.
- ↑ May 9, 1968: Ocean Hill-Brownsville Teachers’ Strike of 1968, skoðað 4. desember 2020.
- ↑ Hartman, bls. 60.
- ↑ Ocean Hill-Brownsville, Fifty Years Later, skoðað 4. desember 2020.
- ↑ A Brief History of the Ocean Hill-Brownsville Teachers Strike, skoðað 4. desember 2020.