Þrotríki
Þrotríki er hugtak sem haft er um ríki sem menn þykjast merkja að hafi komist í þrot varðandi ýmis grundvallaratriði og skyldur sem fylgja hlutverki fullvalda stjórnvalds. Ekki er til nein viðurkennd skilgreining á þrotríki. Samkvæmt Fund for Peace er skilgreining á ríki sem telst í þeirra hópi eftirfarandi liðir:
- stjórn á yfirráðasvæðum þess tapast sem og geta þess til að beita lögmætu valdi innan þess
- uppræting lögmæts valds til að taka sameiginlegar ákvarðanir
- vangeta til að veita opinbera þjónustu
- vangeta til að hafa samskipti við önnur ríki sem fullgilt ríki innan alþjóðasamfélagsins
Almenn einkenni á þrotríki eru meðal annars þau að stjórnvald stendur veikt fyrir eða er getulaust með öllu og hefur þess vegna litla sem enga stjórn á yfirráðasvæði sínu: almenn þjónusta takmörkuð, spilling og glæpir regla frekar en undantekning, skörp efnahagsleg niðursveifla.