Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, eru íslensk félagasamtök, sem beita sér fyrir umræðum og kynningu á alþjóðamálum, einkum þeim þáttum þeirra sem snúa að öryggis- og varnarmálum á norðurhveli jarðar. Félagið vinnur að kynningu á samstarfi og menningu þjóða, sérstaklega störfum og stefnu Atlantshafsbandalagsins. Félagið vinnur að auknum skilningi á gildi lýðræðislegra stjórnarhátta og er í samstarfi við hliðstæð félög erlendis.

Félagið var stofnað á Hótel Sögu, Reykjavík, þann 9. desember árið 2010. Við það runnu tvö félag inn í hið nýstofnaða Varðberg: Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg, félag ungra áhugamanna um um vestræna samvinnu.

Samtök um vestræna samvinnu (SVS) voru stofnuð 19. apríl 1958. Knútur Hallsson, síðar ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins, kynntist alþjóðasamtökunum Atlantic Treaty Association (ATA) árið 1958 á fundi í París en þau störfuðu sem samtök almennra borgara til stuðnings Atlantshafsbandalaginu, sem stofnað hafði verið árið 1949. Fyrsti formaður SVS var Pétur Benediktsson, sendiherra, bankastjóri og alþingismaður. Árið 1963 var Knútur Hallsson kjörinn formaður SVS og gegndi hann formennsku til ársins 1973.

Varðberg - félag ungra áhugamanna um um vestræna samvinnu var stofnað 18. júlí 1961 af ungu fólki úr Alþýðuflokki, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Félagið á rætur að rekja til ráðstefnu fyrir unga leiðandi stjórnmálamenn sem haldin var í Washington í Bandaríkjunum á vegum Atlantshafsbandalagsins dagana 26. maí til 1. júní 1960. Þrír ungir Íslendingar sóttu ráðstefnuna, hver á vegum síns flokks; Guðmundur H. Garðarsson, var þar fyrir hönd Sambands ungra sjálfstæðismanna, Jón Rafn Guðmundsson fyrir hönd Sambands ungra framsóknarmanna og Sigurður Guðmundsson fyrir hönd Sambands ungra jafnaðarmanna. Í kjölfar ráðstefnunnar fengu Íslendingar áheyrnarfulltrúa í framkvæmdastjórn heildarsamtaka ungra lýðræðissinnaðra stjórnmálasamtaka innan NATO. Guðmundur tók sæti áheyrnarfulltrúa fyrstu árin og sömuleiðis varð hann fyrsti formaður Varðbergs eftir að það var stofnað.[1]

Tilvísanir

breyta

Heimild

breyta
  • Stofnun Varðbergs - Guðmundur H. Garðarsson segir frá“. Þjóðmál. Vor 2009. 1. heft, 5. árg. s 42-47.

Tenglar

breyta