Innrásin í Pólland
Innrásin í Pólland, einnig þekkt sem September-herferðin, var innrás Slóvaka, Þjóðverja og Sovétmanna inn í Pólland. Innrás Þjóðverja hófst 1. september 1939 og hefur sá dagur verið kallaður upphafsdagur seinni heimsstyrjaldarinnar. Þótt Slóvakar séu taldir með í þessari upptalningu voru þeir í raun þýskt leppríki og forseti þeirra, Jozef Tiso, var handbendi Þjóðverja. Því þurftu Pólverjar líka að verjast við suðurlandamærin.[1] Tveimur dögum síðar, 3. september, lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði við Þjóðverja þar sem þeir höfðu þann 25. ágúst sama ár gert bandalagssamning við Pólverja. Þessi stríðsyfirlýsing hafði þó lítil áhrif þar sem hvorki Frakkar né Bretar létu sjá sig. Rúmum mánuði seinna, þann 6. október, höfðu innrásarþjóðirnar gjörsigrað Pólland.
Innrásin í Pólland | |||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Hluti af seinni heimsstyrjöldinni | |||||||||
Innrásin í Pólland | |||||||||
| |||||||||
Stríðsaðilar | |||||||||
Sovétríkin (Frá 17. september) OUN (Frá 12. september til október) | |||||||||
Leiðtogar | |||||||||
|
| ||||||||
Fjöldi hermanna | |||||||||
Pólland: 950.000-1.000.000 |
Þýskaland: ~1.800.000
|
Viku áður en innrásin hófst höfðu Þjóðverjar og Sovétmenn skrifað undir samning þar sem kveðið var á um engan ófrið milli þessara landa. Samningurinn kallaðist Molotov-Ribbentrop-sáttmálinn, nefndur eftir utanríkisráðherrum þjóðanna. Í þessum samningi voru leynileg ákvæði um skiptingu allrar Austur-Evrópu milli þessara ríkja. Þegar Rauði herinn réðist inn í Pólland úr austri þann 17. september var það í samræmi við samninginn.[2] Þjóðverjar voru þá komnir í þægilega stöðu og fljótlega náðu herirnir saman í miðju Póllandi.[3]
Síðan var hafist handa við að skipta landinu upp milli Sovétmanna og Þjóðverja. Fyrst kom bráðabirgðaskipting en þann 30. september undirrituðu utanríkisráðherrar landanna, Molotov og Ribbentrop samning í Moskvu um línuna. Þá hafði landsvæði Þjóðverja stækkað mikið miðað við fyrri áætlanir. Þann 6. október hélt svo Hitler ræðu í þýska þinginu þar sem hann lýsti yfir algjörum sigri Þjóðverja í Póllandsinnrásinni.[4]
Forsaga
breytaEftir að þýski Nasistaflokkurinn komst til valda árið 1933 hóf Hitler uppbyggingu Þýskalands. Hann virti að vettugi ákvæði Versalasamningsins um stríðsskaðabætur og hætti að borga. Þess í stað notaði hann peningana í að byggja upp herafla og skapa þar með atvinnu. Hann bannaði alla stjórnmálaflokka og gerði sjálfan sig að einræðisherra. Hitler aðhylltist Stóra-Þýskalandsstefnuna og hann byrjaði strax árið 1935 að innlima héruð sem Þýskaland tapaði í fyrri heimsstyrjöldinni. Saar-héraðið var innlimað 1935 og Rínarlöndin ári seinna. Árið 1938 sendi Hitler svo skriðdreka til Vínar og ætlaði að fá Austurríkismenn í lið með sér. Hann hótaði svo að taka Súdetahéruðin af Tékkóslóvakíu. Til þess að halda friðinn var skrifað undir Münchenarsamninginn í september 1938, sem viðurkenndi rétt Þjóðverja til Súdetahéraðanna. Bretar höfðu á þessum tíma aðhyllst þá stefnu að semja við Þjóðverja til að sleppa við átök og Münchenarsamningurinn var fullkomlega í samræmi við það. Fyrri heimsstyrjöldin var enn fersk í minni Breta og þeir vildu sleppa við annað stríð í lengstu lög. Aðeins nokkrum mánuðum seinna, í september 1938, réðust Þjóðverjar inn í alla Tékkóslóvakíu og virtu þar með Münchenarsamninginn að vettugi. Svo hófu þeir að ógna Póllandi.[5]
Stríðið
breytaÞjóðverjar notuðust við hernaðaraðferð sem kallast leifturstríð. Hún byggist á því að koma óvinahernum að óvörum með snöggu áhlaupi skriðdreka og reyna að koma þeim í gegnum varnarlínu andstæðinganna. Þegar því er lokið koma sprengjuflugvélar og gera árás úr lofti. Að lokum fylgir fótgöngulið á eftir skriðdrekunum og fullkomnar innrásina.[6] Þó að frá fornu fari hafi Pólverjar verið taldir mjög góðir hermenn átti riddarahermennska þeirra ekki roð í járnskriðdreka og sprengjuflugvélar Þjóðverja.[7]
Á einungis tveimur dögum sprengdu Þjóðverjar sig í gegnum „pólska hliðið“ til að loka á aðgengi Pólverja að sjó og algjör ringulreið greip um sig í pólska hernum sem og hjá pólskum almenningi. Á fyrsta degi innrásarinnar einbeittu Þjóðverjar sér að því að gera flugflota Pólverja óvirkan, þó að hann hafi ekki verið stór, einungis um 400 flugvélar á meðan Þjóðverjar ruddust inn með næstum 2000 flugvélar.[8][9] Þeir sprengdu því marga flugvelli og flugvélar áður en þær komust í loftið. Með þessu voru Þjóðverjar orðnir einvaldar í háloftunum strax á fyrsta degi. Þegar kom að því að fá liðsauka frá Bretum í formi flugvéla gekk það ekki sökum þess að flugvellirnir voru svo illa farnir að ekki var hægt að lenda á mörgum þeirra. Einnig þýddi það að vélarnar þurftu að fljúga yfir Þýskaland. Í framhaldi af þessu beindu Þjóðverjar sjónum sínum að samgöngukerfi Pólverja. Þeir sprengdu brýr og járnbrautarkerfi. Þá gerðu þeir einstaka loftárás á íbúðahverfi til að valda ringulreið og hræðslu hjá óbreyttum borgurum.[10] Eftir einungis um viku var allt varnarskipulag Pólverja fallið um sjálft sig og þeir lögðu á flótta. Sumir herflokkar börðust þó eins og ljón og sýndu hetjulega dirfsku. Við hafnarborgina Danzig vörðust Pólverjar árásum herskipa, flugvéla, stórskotaliðs og fótgönguliðs hetjulega í heila viku. Þann 8. september voru Þjóðverjar komnir að höfuðborginni Varsjá. Allir íbúar Varsjár einsettu sér þá að verja borgina. Konur og börn gripu til vopna til að verja sig. Í þrjár vikur var pattstaða í kringum Varsjá. Enginn hjálp barst frá Bretum né Frökkum og allir ráðamenn Pólverja flúnir.[11]
Stuttu eftir að Sovétmenn höfðu ráðist inn í Pólland lýstu þeir því yfir að Pólland væri í raun ekki til lengur. Á svipuðum tíma náðu herir Sovétmanna og Þjóðverja saman í miðju Póllandi. Ráðamenn Sovétmanna og Þjóðverja fóru strax að ráðgera hvernig ætti að skipta Póllandi þó að setuliðið í Varsjá væri ekki búið að gefast upp. Úkraína og Hvíta-Rússland féllu undir Sovétmenn en Þjóðverjar fengu stór svæði í Norður- og Vestur-Póllandi. Rússar gáfu þó Litháum eftir sína gömlu höfuðborg Vilníus. Þann 27. september féll svo setuliðið í Varsjá og algjör sigur Þjóðverja og Sovétmanna staðreynd.[12]
Tækniframfarir
breytaMánuðina áður en Þjóðverjar réðust inní Pólland höfðu þeir eytt gífurlegum fjármunum í uppbyggingu hersins. Það sýndi sig í innrásinni í Pólland. Pólverjar höfðu búist við því að stríðið færi fram á svipuðum grundvelli og fyrri heimsstyrjöldin. Því fór fjarri, vegna þess að Þjóðverjar beittu nú skriðdrekahernaði og sérstaklega flughernaði í mun meiri mæli en í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar þeir hófu innrásina í Pólland tóku þeir í notkun nýja gerð flugvéla, steypiflugvélar af gerðinni Messerschmitt, sem voru notaðar til árása á hersveitir, bílalestir og virki. Þær flugu venjulega hátt en steyptu sér svo niður og vörpuðu sprengjum á skotmarkið. Þetta höfðu Pólverjar ekki séð áður. Þeir áttu einungis 400 flugvélar og ekki nærri eins góðar og Þjóðverjar. Þeir réðust gegn þeim á gamla mátann, á hestum. Þess má nærri geta að þeir voru stráfelldir af skriðdrekum og fótgönguliði í öllum tilvikum nema í skógum og mýrlendi. Þar hafði hesturinn enn yfirhöndina.[13]
Þjóðverjar réðust inn í Pólland með tæplega 2000 flugvélar, 2500 skriðdreka, hálfa aðra milljón hermanna og níu þúsund byssur. Pólverjar höfðu 400 flugvélar sem komu að nánast engum notum, 500 skriðdreka, eina milljón hermanna og 2800 byssur. Tæknilega séð var þetta því ójafn leikur. Sovétmenn komu svo síðar með 4700 skriðdreka, 3200 flugvélar og 620 þúsund hermenn.[14]
Tilvísanir
breyta- ↑ Ólafur Hansson 1945: 36
- ↑ Berndl, Dr. Klaus 2008: 510
- ↑ Ólafur Hansson 1945: 39
- ↑ Ólafur Hansson 1945: 38-39
- ↑ Ganeri, Anita o.fl. 1998: 198-199
- ↑ Ganeri, Anita o.fl. 1998: 202
- ↑ Ólafur Hansson 1945: 36
- ↑ The Poles on the Front lines of WWII 2005
- ↑ Jordan og Wiest 2004: 24
- ↑ Ólafur Hansson 1945: 37
- ↑ Ólafur Hansson 1945: 38
- ↑ Ólafur Hansson 1945:39
- ↑ Ólafur Hansson 1945: 36
- ↑ The Poles in the front lines of WWII 2005
Heimildir
breyta- Berndl, Hattstein, Knebel og Udelhoven: 2008. Saga mannsins frá örófi fram á þennan dag. Skuggi – forlag, Reykjavík.
- Ganeri, Williams og Martell. 1998. Saga veraldar við upphaf nýrrar aldar. Dempsey Parr, Bristol.
- Jordan, David og Andrew Wiest. 2004. Atlas of World War II. Silverdale Books, Leicester.
- Ólafur Hansson. 1945. Heimsstyrjöldin 1939-1945. Bókaútgáfa Menningarsjóðs Reykjavíkur, Reykjavík.
- The Poles on the front lines of the World War II. 2005. The 1939 campaign. Sótt 20. mars af http://www.ww2.pl/The,1939,Campaign,22.html#more_photos Geymt 11 desember 2013 í Wayback Machine