Benín er land í Vestur-Afríku og var áður kallað „Dahómey“ eftir konungsríkinu Dahómey sem Frakkar lögðu undir sig 1892-1894. Landið á stutta strandlengju við Benínflóa, sem áður var þekktur viðkomustaður þrælasala, og dregur nafn sitt af honum. Landið á landamæri að Tógó í vestri, Nígeríu í austri og Búrkína Fasó og Níger í norðri. Höfuðborgin er Porto-Novo en aðsetur stjórnarinnar er í Cotonou, sem jafnframt er stærsta borgin og efnahagsleg höfuðborg landsins. Benín er hitabeltisland sem flytur út bómull og pálmaolíu. Sjálfsþurftarbúskapur er útbreiddur.[1]

Lýðveldið Benín
République du Bénin
Fáni Benín Skjaldarmerki Benín
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Fraternité, Justice, Travail (franska)
Bræðralag, réttlæti, vinna
Þjóðsöngur:
L'Aube Nouvelle
Staðsetning Benín
Höfuðborg Porto-Novo
Opinbert tungumál Franska
Stjórnarfar Forsetaræði

Forseti Patrice Talon
Sjálfstæði frá Frakklandi
 • Heimastjórn 1958 
 • Sjálfstæði 1. ágúst 1960 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
100. sæti
114.763 km²
0,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
78. sæti
11.733.059
94,8/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 29,918 millj. dala (137. sæti)
 • Á mann 2.552 dalir (163. sæti)
VÞL (2019) 0.545 (158. sæti)
Gjaldmiðill Vesturafrískur CFA-franki
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .bj
Landsnúmer +229

Lítið er vitað um forsögu Benín, en helstu ríkin á þessu svæði frá 17. til 19. aldar voru Konungsríkið Dahómey, borgríkið Porto-Novo og stórt svæði í norðri sem skiptist milli nokkurra ólíkra þjóða. Strönd landsins var þekkt sem „þrælaströndin“ vegna mikilla nauðungarflutninga þræla þaðan til Nýja heimsins frá 17. öld þegar þríhyrningsverslunin á Atlantshafi hófst. Eftir að Frakkar lögðu landið undir sig nefndu þeir það Franska Dahómey. Landið fékk sjálfstæði frá Frakklandi 1960. Síðan þá hefur stjórnmálasaga landsins einkennst af valdaránum og herforingjastjórnum. „Alþýðulýðveldið Benín“ var heiti landsins frá 1975 til 1990, þegar því var stjórnað í marx-lenínískum anda. Árið 1990 tók við fjölflokkakerfi og síðan þá hefur opinbert heiti landsins verið „Lýðveldið Benín“.

Franska er opinbert mál landsins, en þar eru töluð mörg frumbyggjamál, eins og jórúba, fon, bariba og dendi. Stærsti trúarhópur landsins eru rómversk-kaþólskir, en þar á eftir koma múslimar, vodun og mótmælendur. Benín á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Afríkusambandinu, Efnahagsbandalagi Vestur-Afríkuríkja, Samtökum um íslamska samvinnu, Friðar- og samstarfssvæði við Suður-Atlantshaf, La Francophonie, Samtökum ríkja í Sahel og Sahara, Samtökum olíuframleiðsluríkja í Afríku, Nígerfljótsráðinu.[2]

Nafnið Benín var ekki valið út af Konungsríkinu Benín (eða Benínborg) sem var þar sem Nígería er nú, heldur heitir landið eftir Benínflóa sem strönd landsins liggur að. Í Benín var hið öfluga konungsríki Dahómey og landið hét það til ársins 1975 þegar nafninu var breytt til að gæta hlutleysis gagnvart ólíkum þjóðflokkum í landinu (Dahómey var fyrst og fremst konungsríki Fonfólksins).

 
Herkonur frá Dahómey.

Konungsríkið Dahómey var stofnað á 17. öld með samruna nokkurra þjóðflokka á sléttunni við Abómey hugsanlega vegna þess þrýstings sem stafaði frá starfsemi evrópskra þrælasala við ströndina. Menning konungsríkisins var hernaðarleg og drengir fengu herþjálfun frá unga aldri. Dahómey var líka frægt fyrir úrvalssveitir herkvenna sem voru nefndar Ahosi eða „mæður okkar“ á málinu fongbe. Þessi áhersla á herþjálfun gerði það að verkum að Dahómey var kallað „litla svarta Sparta“ af evrópskum höfundum eins og Richard Francis Burton. Mannfórnir voru algengar þar sem þrælar og stríðsfangar voru afhöfðaðir við hátíðleg tækifæri.

Dahómey tók þátt í hinni blómlegu þrælaverslun og gerðist byssuríki sem seldi þræla fyrir evrópsk vopn. Ströndin var kölluð „þrælaströndin“ þar sem þrælar voru aðalútflutningsvaran á þessu svæði. Þrælasölunni hnignaði engu að síður frá stofnun Dahómey og fjöldi þræla minnkaði stöðugt, meðal annars vegna mannfórnanna, og síðar vegna þess að þrælasala varð ólögleg í flestum Evrópuríkjum. Síðasta portúgalska þrælaskipið sigldi frá Benínflóa árið 1885.

Auk Dahómey voru ýmis önnur samfélög á því svæði sem síðar varð Benín, þar á meðal margir þjóðflokkar sem töluðu jórúbamál og voru í samskiptum við skylda hópa þar sem Nígería er nú. Þessir þjóðflokkar áttu oft í stríði við Dahómey þótt sumir þeirra væru hluti af konungsríkinu. Um miðja 19. öld tók Dahómey að missa tök sín á svæðinu sem gerði Frökkum kleift að leggja landið undir sig (með hjálp Jórúba) árið 1892. 1899 varð landið hluti af nýlendunni Frönsku Vestur-Afríku, sem Dahómey. 1958 fékk landið heimastjórn sem Lýðveldið Dahómey og fullt sjálfstæði fylgdi 1. ágúst 1960.

 
Mathieu Kérékou

Næstu tólf árin fylgdu átök milli ólíkra þjóðflokka. Í hverjum landshluta komu fram leiðtogar eins og Sourou Apithy, Hubert Maga og Justin Ahomadegbé. 1970 sættust þeir á að stofna forsetaráð eftir að ofbeldisverk höfðu truflað kosningarnar það ár. 1972 var forsetaráðinu steypt af stóli með valdaráni hersins undir stjórn Mathieu Kérékou. Hann kom á marxísku stjórnkerfi undir herforingjastjórn og landið var endurnefnt Alþýðulýðveldið Benín. 1979 var herforingjastjórnin leyst upp og kosningar haldnar. Seint á 9. áratugnum tók Kérékou að færa stjórnkerfi landsins í átt til markaðsbúskapar eftir miklar efnahagsþrengingar. 1991 tapaði hann kosningum fyrir Nicéphore Soglo en vann aftur árið 1996 og með naumindum 2001. 2006 bauð hann sig ekki fram vegna takmarkana á lengd stjórnartíma forseta, og hlaut mikið lof fyrir að reyna ekki að breyta stjórnarskránni til að geta setið lengur líkt og svo margir aðrir afrískir forsetar höfðu gert.

Stjórnmál

breyta

Í Benín er forsetaræði þar sem forseti Benín er bæði þjóðhöfðingi og höfuð ríkisstjórnarinnar og er kosinn í almennum kosningum til fimm ára í senn. Núverandi stjórnkerfi er skipað í stjórnarskránni frá 1990 en áður var stjórnkerfið í marx-lenínískum anda. Á þingi Benín sitja 83 þingmenn úr nokkrum stjórnmálaflokkum sem eru kosnir til fjögurra ára í senn.

Landafræði

breyta
 
Kort af Benín

Benín er Vestur-Afríkuríki sem liggur frá bugðu á NígerfljótiBenínflóa sem er hluti Gíneuflóa í Atlantshafinu. Landið er nokkurn veginn jafnhátt alls staðar og stærstur hluti þess eru mýrlendar eða skógi vaxnar hásléttur. Í norðurhlutanum eru þurrar gresjur. Flestir íbúanna búa nálægt ströndinni í suðri þar sem stærstu borgirnar, Porto Novo og Cotonou eru.

Ouemefljót rennur eftir miðu landinu í suðurátt.

Loftslagið í Benín er heitt og rakt með tiltölulega lítilli úrkomu miðað við önnur Vestur-Afríkuríki.

Stærsta borgin, viðskiptamiðstöð landsins og aðsetur stjórnarinnar er Cotonou. Hafnarbærinn Ouidah sem áður var mikilvægur þrælamarkaður, er hin andlega höfuðborg þeirra sem aðhyllast vúdútrú. Abómey, fyrrum höfuðborg Dahómey, er enn aðsetur konungs Fonfólksins.

Skipting í stjórnsýsluumdæmi

breyta
 
Umdæmi í Benín

Benín skiptist í tólf umdæmi (départements) og 77 sveitarfélög. Upphaflega voru umdæmin sex en 1999 var hverju þeirra skipt í tvennt. Nýju umdæmin sex eru ekki með neinn höfuðstað.

  1. Alibori
  2. Atakora
  3. Atlantique
  4. Borgou
  5. Collines
  6. Donga
  7. Kouffo
  8. Littoral
  9. Mono
  10. Ouémé
  11. Plateau
  12. Zou

Efnahagslíf

breyta
 
Höfnin í Cotonou

Efnahagslíf Benín er enn frumstætt og byggist að mestu á sjálfsþurftarbúskap, baðmullarframleiðslu og staðbundinni verslun. Landsframleiðslan hefur vaxið um 5% á ári að jafnaði síðustu ár en fólksfjölgunin hefur jafnað þann vöxt að mestu. Verðbólga hefur hjaðnað síðustu ár. 2001 hóf ríkisstjórnin einkavæðingarferli meðal annars vegna þrýstings frá erlendum lánadrottnum.

Menning

breyta

Í Benín búa nokkrir tugir þjóðflokka með tungumál sem tilheyra öllum þremur afrísku málaættunum; níger-kongómál, níló-saharamál og afróasísk mál. Þau síðastnefndu eru töluð af Hásamönnum sem flestir búa í norðurhlutanum en níló-saharamálin eru töluð af Dendimönnum sem eru afkomendur þeirra sem stofnuðu Songhæveldið meðfram Nígerfljóti. Stærsti einstaki þjóðflokkurinn er Fonfólkið sem telur um 1,7 milljónir manna en þar á eftir koma hinir ýmsu hópar Jórúbamanna (um 1,2 milljónir).

Meirihluti landsmanna aðhyllist hefðbundin trúarbrögð, ýmist andatrú eða vúdútrú sem talin er hafa borist til Brasilíu og Karíbahafsins frá strandhéruðum Benín. Íslam og Kristni eiga sér stóra hópa fylgjenda (um 15% íbúa landsins hvor).

Tilvísanir

breyta
  1. "Food and Agriculture Organization of the United Nations" Geymt 24 október 2012 í Wayback Machine. United Nations, 29. júní 2010.
  2. "Benin – International Cooperation". Nation Encyclopedia (29. júní 2010).