Aargau
Aargau er þýskumælandi kantóna í norðurhluta Sviss og liggur að Þýskalandi. Hún er jafnframt fjórða fjölmennasta kantónan. Höfuðborgin heitir Aarau.
Höfuðstaður | Aarau |
Flatarmál | 1.403,81 km² |
Mannfjöldi – Þéttleiki |
635.797 (31. desember 2013) 447/km² |
Sameinaðist Sviss | 1803 |
Stytting | AG |
Tungumál | Þýska |
Vefsíða | [1] |
Lega og lýsing
breytaAargau er tíunda stærsta kantónan í Sviss með 1.404 km2. Hún er nær nyrst í Sviss og á landamæri að Þýskalandi. Rínarfljót myndar náttúruleg landamæri þar á milli. Í Aargau sameinast fjórar af fimm stærstu ám Sviss: Rín, Aare, Reuss og Limmat. Aðrar kantónur sem lggja að Aargau eru: Basel-Landschaft og Solothurn fyrir vestan, Bern fyrir suðvestan, Luzern fyrir sunnan, Zug fyrir suðaustan og Zürich fyrir austan. Aargau er ein þeirra kantóna sem varla ná að Alpafjöllum, en þau eru fyrir sunnan kantónuna. Hæsta fjallið í kantónunni er aðeins 908 metra hátt. Íbúar eru 581 þús talsins, sem gerir Aargau að fjórðu fjölmennustu kantónu Sviss. Aðeins Zürich, Bern og Vaud (Waadt) eru fjölmennari.
Skjaldarmerki
breytaSkjaldarmerki Aargau er samsett úr tveimur helmingum. Til vinstri er svartur hálfskjöldur með hvítri á fyrir miðju. Til hægri er blár hálfskjöldur með þremur hvítum stjörnum. Svarti liturinn táknar fósturmoldina, blái liturinn táknar loftið, hvítu línurnar tákna vatnið (þ.e. árnar) og stjörnurnar tákna eld. Vinstri helmingurinn stendur fyrir kantónuna í heild, með ána Aare fyrir miðju. Hægri helmingurinn stendur fyrir bróðurlegu sameiningu hinna þriggja trúarbragða: Kaþólsku kirkjuna, reformeruðu kirkjuna og gyðingdóm. Skjaldarmerkið var tekið upp 1803 þegar Aargau varð formlega að kantónu í Sviss.
Orðsifjar
breytaAargau er samsett orð. Aar stendur fyrir ána Aare og láglendið þar í kring. Gau merkir landsvæði eða hérað. Heitið Aargau kom fyrst fram árið 768.
Söguágrip
breytaÍ upphafi bjuggu keltar á svæðinu, en Rómverjar settust þar að snemma á 1. öld e.Kr. Fyrsta rómverska hervirkið reist við samflæði Aare, Reuss og Limmat árið 14 e.Kr. Þar reis svo rómverska borgin Vindonissa. Aðrar rómverskar borgir voru t.d Aquae Helveticae (Baden í dag) og Augusta Raurica (Kaiseraugst í dag). Um miðja 3. öld fóru germanir að ráðast inn í héraðið, aðallega alemannar. Rómverjar hörfuðu að lokum milli 401-406 og námu alemannar þá land. Héraðið hafði kristnast á 4. öld, en árið 346 var biskupsstóll stofnaður í Augusta Raurica. Á tímum þýska ríkisins voru tvær valdaættir sem mestu ítökin áttu í héraðinu, Kyburg-ættin og Habsborgarættin. 1415 varð ósætti milli Sigismundi keisara og Friðriki frá Habsborg á ríkisþinginu í Konstanz. Sigismundur bauð þá nágrönnum Aargau að hrifsa til sín öll lönd Habsborgara. Kom þá til átaka í öllu héraðinu. 1526 hófust siðaskiptin í héraðinu. En eftir síðari Kappeler-stríðið 1531 milli kaþólikka og mótmælenda voru íbúar neyddir til kaþólsku á ný. Það var ekki fyrr en eftir orrstuna við Villmergen 1712, þar sem kaþólikkar töpuðu gegn ofurefli frá Bern og Zürich, að reformeraða kirkjan náði yfirhöndinni á ný. 1798 hertóku Frakkar héraðið, sem og alla Sviss. Þá voru þrjár kantónur myndaðar úr héraðinu Aargau og nálægum héruðum: Kantónan Aargau, kantónan Fricktal og kantónan Baden. Árið síðar, 1799, sló í orrustu milli Frakka og Austurríkismanna við ána Aare. Þar sigruðu Frakkar, en nærsveitir voru að hluta lagðar í rúst. Íbúar kantónanna þriggja voru óánægðir með fyrirkomulag landamæranna, þannig að Napoleon sjálfur gaf tilskipun um að sameina þær allar í eina stóra kantónu. Þetta gerðist 1803 og hlaut nýja kantónan nafnið Aargau. Höfuðborgin varð Aarau. 1813 fóru þýskar, rússneskar og austurrískar hersveitir yfir Rínarfljót og hröktu alla Frakka burt. Hin nýja kantóna var við það að klofna í sundur, en fulltrúar hennar á Vínarfundinum fengu því framgengt að viðhalda henni eins og Napoleon hafði ákvarðað tíu árum áður. Á 19. öld þróaðist kantónan frá því að vera bændahérað í iðnaðarhérað. 1848 keyrðu fyrstu járnbrautirnar um kantónuna og með henni kom þungaiðnaðurinn. Árið 1900 voru enn um 43% vinnufærra manna í landbúnaðarstörfum, en 42% í iðnaði og 14% í þjónustu. Á síðustu árum hefur iðnaðurinn og þjónustan aukist talsvert.
Borgir
breytaRöð | Borg | Íbúafjöldi | Ath. |
---|---|---|---|
1 | Wettingen | 20 þús | |
2 | Aarau | 19 þús | Höfuðborg kantónunnar |
3 | Baden | 17 þús | Aquae Helveticae |
4 | Wohlen | 14 þús | |
5 | 0ftringen | 12 þús | |
6 | Rheinfelden | 11 þús |
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Kanton Aargau“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2011.